Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 22:24:51 (1607)

1996-11-21 22:24:51# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[22:24]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs áðan vegna þess að ég vil vekja athygli á því sem kom fram í ræðu hv. 16. þm. Reykv. sem sýnir hvað þetta mál er flókið, þ.e. hvernig verður eignin til, á hvaða tíma og á hvaða forsendum. Vonandi hafa þeir, sem hafa ekki tekið allt of mikið mark á því sem menn hafa verið að segja hér fyrr í dag, lagt eyrun við því að hv. þm. er stærðfræðingur og þekkir þessa hluti ákaflega vel. Hann vísaði m.a. til þess að hluti af fjármögnun þessara fyrirtækja hefði verið að nokkru leyti á pólitískum forsendum, almennum pólitískum forsendum. Það er umhugsunarvert. Auðvitað varð til samkomulag um eignarhlutinn þegar Landsvirkjun var stofnuð á sínum tíma en aðdragandinn var í raun og veru sá að tekin voru lán, almenn lán til þjóðarinnar á pólitískum forsendum. Og ég ætla að lesa fyrir þingheim, með leyfi forseta, eina setningu úr stórmerkilegri bók sem heitir Í eldlínu kalda stríðsins eftir Val Ingimundarson, þar sem bandarískur sendiráðsfulltrúi segir frá því hvað hann telji nauðsynlegt að gera á Íslandi, einmitt í dag. Hann segir, með leyfi forseta: ,,Ég mæli eindregið með því að Íslendingum verði boðið upp á bestu kjör í sambandi við Sogsvirkjun. Við ættum ekki að sýna nísku eða áhugaleysi í þessu máli.`` Tilgangur Bandaríkjamanna var auðvitað sá á þessum tíma að breyta og hafa áhrif á tilteknar pólitískar aðstæður. Hver á arðinn af þessu láni, hæstv. forseti?