Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 22:49:06 (1610)

1996-11-21 22:49:06# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[22:49]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara endurtaka það að ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið hægt að fara mjög langt með að ná þessu samkomulagi fram án lagabreytingar. Mér finnst merkilegt að menn skuli ekki hafa komið að því hér, og hæstv. ráðherra, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um að hann fjallaði aðeins um það. Þannig að ég hef satt að segja ekki enn þá heyrt rök fyrir því að leggja frv. fram með þeim hætti sem hér er gert fyrir utan ákvæði 1. gr. sem er enginn verulegur ágreiningur um þó menn kunni að hafa mismunandi sjónarmið í þeim efnum. Ég tel að ákvæðin varðandi ársfund og samráðsfund séu hrein fyrirkomulagsatriði og skipti ekki stóru máli. Þannig að þegar upp er staðið þá held ég nú að það sé stjórnarbreytingin sem er aðalbreytingin í frv. og það er engin krafa um það af hálfu eignaraðilanna annarra en ríkisins að því ákvæði verði breytt. Það er því dálítið sérkennilegt að ráðherrann skuli setja málin upp með þeim hætti sem hann gerir hér.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna í þessu andsvari er það að hæstv. ráðherra sagði: ,,Verðjöfnunin er tryggð.`` Það er ekki rétt. Þegar það liggur fyrir að orkan frá Nesjavöllum verður seld við lægra verði en önnur orka, það er alveg ljóst, og þegar orkan frá Hitaveitu Suðurnesja er seld á lægra verði en önnur orka þá er verðjöfnunin ekki lengur tryggð. Þá verður að fara í þau mál. Annaðhvort með því að setja ný ákvæði um verðjöfnun með einhverjum öðrum hætti eða að henda þessum verðjöfnunarprinsippum gjörsamlega fyrir róða. En hæstv. ráðherra þykist ekki vilja það og segir aftur og aftur að verðjöfnunin sé tryggð. En ég endurtek að ég tel að ég hafi full rök fyrir því að halda því fram að hún sé því miður ekki tryggð. Hún er ekki tryggð.