Starfsemi ÁTVR

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:06:51 (1614)

1996-12-02 15:06:51# 121. lþ. 32.1 fundur 116#B starfsemi ÁTVR# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:06]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það hefur vakið athygli að í fjölmiðlum hafa stjórnarmenn ÁTVR, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, verið með mjög afdráttarlausar yfirlýsingar varðandi framtíð ÁTVR. Þannig hefur varaformaður stjórnar ÁTVR, sem er krabbameinslæknir, hvatt til þess að innkaup og dreifing á tóbaki verði tekin úr höndum ÁTVR og falin markaðsöflunum. Þessar yfirlýsingar krabbameinslæknisins hafa vakið athygli enda gengur þetta þvert á stefnu Krabbameinsfélagsins. Stjórnarformaður ÁTVR tekur í sama streng varðandi tóbakið auk þess sem hún lýsir því yfir margítrekað að sá háttur sem Íslendingar hafa haft á við sölu á áfengi, og er þá væntanlega átt við þá áfengisstefnu sem fylgt hefur verið og gengið út á að takmarka aðgengi að áfengi, sé í engu samræmi við nútímaviðskiptahætti.

Það er ekkert við það að athuga að einstaklingar eða fulltrúar samtaka á borð við Kaupmannasamtökin og Verslunarráð komi fram með kröfur um að koma brennivíni inn í matvörubúðir og sjoppur í landinu. En spurning vaknar hins vegar um hlutverk stjórnarmanna í ÁTVR. Hefur hæstv. fjmrh. falið þeim að marka nýja stefnu í áfengis- og tóbaksvarnamálum? Hvernig kemur þessi stefnumótandi vinna stjórnarmanna í ÁTVR í áfengis- og tóbaksvarnamálum heim og saman við yfirlýsingu hæstv. fjmrh. á ráðstefnu sem hann stóð fyrir í síðustu viku þar sem hann sagði að skilja bæri að ábyrgð á rekstri og pólitíska stefnumótun?