Virkjun Héraðsvatna í Skagafirði

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:14:50 (1620)

1996-12-02 15:14:50# 121. lþ. 32.1 fundur 117#B virkjun Héraðsvatna í Skagafirði# (óundirbúin fsp.), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:14]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. iðnrh. Allar líkur benda til þess að ný stóriðjuver muni á næstu árum rísa hér á landi sem aftur kallar á verulega aukna þörf fyrir raforkuframleiðslu. Þegar Landsvirkjun lýkur stækkun Kvíslaveitu, lagfæringu á Búrfellsvirkjun og virkjun við Sultartanga þarf næsti virkjunarkostur að vera tilbúinn. Því vil ég spyrja: Hver er hann? Hver er hagkvæmasti virkjunarkosturinn þegar allt er metið sem meta þarf áður en að ákvörðuninni kemur?

Ég vil vekja athygli á því að rannsóknir Orkustofnunar benda til þess að virkjun Héraðsvatna í Skagafirði sé mjög hagkvæmur virkjunarkostur. Þar eru ýmsir ótvíræðir kostir eins og sá að umhverfisröskun er lítil, hlutfall lindarvatns nokkuð hátt í skagfirsku ánum, og þær því tiltölulega tærar, og ekki síst nefni ég þann kost að allt svæðið er utan eldvirkra landsvæða. Reyndar er um tvo kosti að ræða og möguleika á áfangaskiptum í virkjunaraðgerðum, annars vegar allt að 110 Mw virkjun í byggð við Villinganes og hins vegar allt að 180 Mw virkjun ofan byggðar með miðlunarlóni hjá Eyfirðingavaði, Bugslón, svonefnd Merkigilsvirkjun í vinnuplöggum Orkustofnunar. Því vil ég spyrja hæstv. iðnrh.: Hversu langt er komið rannsóknum á virkjun Héraðsvatna í Skagafirði? Vill hæstv. iðnrh. beita sér fyrir því að rannsóknum og hönnun verði hraðað vegna virkjunar skagfirsku vatnanna?