Sleppibúnaður gúmmíbáta

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:25:35 (1627)

1996-12-02 15:25:35# 121. lþ. 32.1 fundur 119#B sleppibúnaður gúmmíbáta# (óundirbúin fsp.), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:25]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. samgrh. um sleppibúnað gúmmíbjörgunarbáta.

Árið 1988 voru felldar niður viðurkenningar sem tvær gerðir sleppibúnaðar höfðu fengið og reglugerð um öryggisatriði fiskiskipa hvað varðar þennan búnað tekin úr gildi. Í framhaldi af þessu fóru fram rannsóknir í Iðntæknistofnun á hæfni og getu þessa búnaðar. Búin var til ný prófunaraðferð til að prófa hæfni þeirra og virkni. Það er skemmst frá því að segja að annar þessa búnaðar hlaut aftur viðurkenningu átta árum síðar eða 6. mars 1995 þrátt fyrir að engar breytingar hafi verið gerðar á búnaðinum. Á sama tíma var verið að endurskoða reglur um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa og lauk þeirri endurskoðun með því að gefnar voru út nýjar endurskoðunarreglur 21. mars 1994. Voru þá allir hagsmunaaðilar búnir að fá þær til aflestrar og voru þeir sáttir við þær eins og þær voru, enda búið að leggja mikla vinnu í þessa endurskoðun á reglunum.

Þann 22. desember 1995 var gefið út umburðarbréf af Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 032/1995, um losunar- og sjósetningarbúnað gúmmíbjörgunarbáta þar sem segir m.a.:

,,Frestur sem veittur hefur verið til að uppfylla ákvæði 2.--5. tölul. 7. gr. reglnanna rennur út 1. janúar 1996. Að þessum tíma liðnum skal skipunum ekki veitt haffærniskírteini nema samþykktur losunar- og sjósetningarbúnaður samkvæmt framangreindum reglum sé til staðar um borð. Þó er heimilt að veita allt að þriggja mánaða frest með uppsetningu á nýjum losunar- og sjósetningarbúnaði.``

Þetta umburðarbréf var samið eftir því sem ég best veit í samráði Siglingamálastofnunar og samgrn.

Strax eftir áramót 1996 var þetta umburðarbréf afturkallað að beiðni LÍÚ og reglugerð enn einu sinni frestað til 1. júlí 1996. Skipuð var átta manna nefnd sem átti að yfirfara reglurnar enn einu sinni. Mér vitanlega hefur reglugerðin ekki tekið gildi. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvar stendur þetta mál í dag? Er nefndin búin að skila af sér áliti þegar liðnir eru 11 mánuðir frá því að frestur var gefin um áramótin 1996?

Nú þegar þessi fyrirspurn er sett fram hafa 22 sjómenn bjargast vegna þessa búnaðar. Nú síðast björguðust fjórir menn af Mýrafelli ÍS þegar því hvolfdi 26. júní 1996 í mynni Arnarfjarðar. Sjómenn eru orðnir óþolinmóðir og langþreyttir að bíða eftir þessari pappírsvinnu því mörg skip hafa ekki þennan búnað í dag.