Fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:47:39 (1636)

1996-12-02 15:47:39# 121. lþ. 32.95 fundur 112#B fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er þarft í sjálfu sér að taka þetta mál upp til umræðu en hitt er kannski ekki alveg jafnljóst hvað vakir fyrir hv. þm. og hver er afstaða hv. þm. til þess máls sem hann sjálfur tók hér upp. Markmiðið um að auka fullvinnslu sjávarafurða hér heima er að sjálfsögðu gilt og þess vegna hefði maður glaðst yfir því ef stjórnarsinnar hefðu t.d. komið hér upp og boðað aðgerðir til þess að taka á vanda landvinnslunnar eða a.m.k. falla frá þeim hugmyndum sem nú eru uppi um að stórauka skattpíningu og álögur á fiskvinnsluna í landinu í formi þróunarsjóðsgjalds og hækkunar á tryggingagjaldi.

Varðandi fjárfestingar íslenskra söluaðila erlendis er ekki að öllu leyti einfalt að meta það mál. Kaup íslenskra fyrirtækja á vinnslu- og dreifingarfyrirtækjum erlendis styrkja stöðu þeirra á markaðnum. Um það verður ekki deilt. Ég fullyrði t.d. að kaup Íslenskra sjávarafurða, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sölusambands ísl. fiskframleiðenda á slíkum fyrirtækjum í Evrópu á síðustu missirum hafa styrkt stöðu íslenskrar framleiðslu á þeim markaði verulega. Við höfum komist nær neytendunum og við höfum komist í aðstöðu til að þróa vinnslu á fullunnum neytendavörum með takmarkað geymsluþol og dreifa þeim með þeim hætti um meginland Evrópu sem nauðsynlegt er að gera ef við ætlum okkur að vera fullgildir þátttakendur um samkeppni á þeim markaði. Við höfum yfirtekið starfsemi sem áður var í höndum erlendra milliliða og ég tel það engan vafa, herra forseti, að þetta hefur styrkt okkar stöðu á þessum markaði. Mér er ekki kunnugt um að hægt sé að benda á dæmi í þessari fjárfestingu þar sem störf hafi í raun flust frá Íslandi og út. Þvert á móti ef eitthvað er, þá er það hið gagnstæða, að við höfum í gegnum slík markaðssambönd getað þróað frekari fullvinnslu heima heldur en áður var til staðar. Ástæðan fyrir því að starfsemin verður að vera erlendis í einhverjum mæli en ekki hér heima er fyrst og fremst tvíþætt: Það er annars vegar nauðsyn þess að vera nálægt markaðnum en í hinu tilvikinu eru enn í vissum tilvikum tollagirðingar sem við þurfum að komast inn fyrir með því að vinna vöruna á Evrópumarkaði. Ég held að það sé ekki rétt að stilla umræðum um þessi mál upp eins og hér sé á ferðinni fjárfestingar erlendis sem séu andstæðar markmiðum um að auka fullvinnslu sjávarafurða á Íslandi.