Fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:55:55 (1639)

1996-12-02 15:55:55# 121. lþ. 32.95 fundur 112#B fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis# (umræður utan dagskrár), Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:55]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans og þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Tilgangurinn var, eins og ég gat um í upphafi, annars vegar að vekja athygli á þeirri þróun sem á sér stað í fullvinnslu erlendis og hins vegar þeim umkvörtunum sem heyrast frá innlendum aðilum þar sem þeir kvarta undan litlum stuðningi og lítilli hvatningu á þessu sviði.

Ég tek undir það með hæstv. sjútvrh. að miklar breytingar hafa átt sér stað, en miðað við hvernig menn hafa talað árum saman tel ég þrátt fyrir allt að þessar breytingar séu afskaplega hægar innan lands. Ég tek einnig undir það, og ítrekaði það í tvígang í mínum inngangi, að starf sölusamstakanna erlendis er afskaplega mikilvægt og hefur dugað okkur vel. En tilgangurinn með þessari umræðu er ekki síst sá að vekja athygli á því hvar áherslan kann að liggja. Viljum við að hún liggi erlendis í fullvinnslu eða viljum við að hún liggi hér? Ég tel ýmis merki þess að áherslan sé í auknum mæli að færast úr landi.

Menn segja gjarnan að við þurfum að komast sem næst mörkuðum. Mér finnst sú röksemd vera tiltölulega hæpin á tímum nútímatölvusamskipta og samskiptatækni nútímans og þegar flugsamgöngur eru jafngóðar og raun ber vitni þannig að við erum orðin hluti af heiminum og erum ekki í nema örskotsfjarlægð frá helstu mörkuðum okkar. Það sem eftir stendur er: Hvernig mun samkeppnin um hráefnið verða milli fjárfestinga okkar erlendis og þeirra sem eru að feta sig inn á þó þessa athyglisverðu braut sem er fullvinnsla sjávarafla? Það snýst um sjávarútvegsstefnu og þess vegna er eðlilegt að málið sé rætt á Alþingi án þess að dómur sé upp kveðinn.