Staða garðyrkjunnar

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:33:09 (1645)

1996-12-02 16:33:09# 121. lþ. 32.97 fundur 114#B staða garðyrkjunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. ISigm
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:33]

Ingibjörg Sigmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ástæða þessarar utandagskrárumræðu er í fyrsta lagi sú neikvæða umfjöllun sem hefur verið um eina stétt manna undanfarið, þ.e. garðyrkjubændur og í öðru lagi það erfiða rekstrarumhverfi sem þeir eiga við að búa sem hefur skapast m.a. vegna breyttrar löggjafar svo sem EES og GATT-samninga og ótryggrar afhendingar á raforku.

Þessi neikvæða umræða hefur ekki einungis verið úti í þjóðfélaginu heldur líka inni á hinu háa Alþingi samanber utandagskrárumræðu í síðasta mánuði um GATT-samninginn að ósk hv. þm. Ágústs Einarssonar. Þar kom fram í málflutningi að hækkun skulda heimila um 1,3 milljarða mætti rekja til hækkunar á grænmeti og kartöflum.

Það er nokkuð ljóst að hægt er að fá mismunandi útkomur eftir því hvar borið er saman og rétt að velta því fyrir sér hvort og hvaða áhrif hver þáttur hefur á vísitölu neysluverðs. Velta má fyrir sér hvort vísitölurnar eigi að vera tvær, þ.e. framleiðsluvísitala og smásöluvísitala svo hægt sé að fylgjast með breytingum á neyslukrónunni. Sannleikurinn er nefnilega sá að ef tekin er hækkun neysluverðs eftir uppruna frá nóvember 1992 til nóvember 1996 kemur í ljós að innlendar matar- og drykkjarvörur vega ekki nema 4% af þeirri hækkun, en bíllinn, bensín og varahlutir 30% og þjónusta háð opinberum verðlagsákvörðunum og önnur þjónusta 32% svo dæmi sé tekið. Á þessum fjórum árum vega innlendar matar- og drykkjarvörur 1 milljarð í hækkun skulda heimilanna en bíllinn og rekstrarkostnaður hans 8 milljarða og þjónusta 8,6 milljarða. Ekki yrði ég hissa á því þó það kæmi í ljós að sá sem hagnast mest af hækkun bíla og opinberrar þjónustu væri ríkið sjálft.

Í Ríkisútvarpinu á dögunum var tekið dæmi um verð á grænmetiskörfu í Brussel, Kaupmannahöfn, Reykjavík og Ísafirði. Þar kemur fram rúmlega 100% munur á verði hér og erlendis á jöklasalati þrátt fyrir núlltolla og óheftan innflutning.

Annað sem þingmenn verða að hafa í huga þegar fjallað er um garðyrkjuna er að þessi grein hefur verið notuð sem skiptimynt í alþjóðlegum samningum. EES-samningurinn er einhliða, þ.e. einungis er gert ráð fyrir innflutningi en ekki útflutningi á garðyrkjuafurðum. GATT-samningurinn opnar enga möguleika á útflutningi þessara vara vegna verndarmúra annarra ríkja.

Eitt brýnasta hagsmunamál garðyrkjunnar er raforkuverð. Meðan á Alþingi er fjallað um arðgreiðslur Landsvirkjunar er ástandið þannig hjá garðyrkjunni að í lok nóvember er skerðing eða roftími til lýsingar orðinn 214 tímar og hefur mest af þessum tíma verið í nóvember sl. Þetta ástand er náttúrlega ólíðandi og ljóst að þessi krónuafsláttur sem bændur áttu að fá í lok ársins er allur uppétinn og meira til því að núna þarf að lýsa á refsigjaldi sem er þrefalt venjulegt verð. Ef garðyrkjubændur eiga að hafa einhverja möguleika á að standast samkeppni við erlenda aðila og framleiða úrvalsvöru allt árið um kring er lækkun raforkukostnaðar krafa númer eitt. Því spyr ég hvort hæstv. landbrh. hyggst beita sér fyrir bættum kjörum á raforku til garðyrkjubænda og hvernig sér ráðherrann orkusölu til þeirra eftir ár þegar núverandi samningur rennur út og ekki er hægt að semja lengur um umframorku.

Skýrsla starfsskilyrðanefndar sem landbrn. lét vinna og lögð var fram í febrúar sl. er vel unnin og gefur nokkuð rétta mynd af stöðu greinarinnar. En jafnframt eru í skýrslunni tillögur til úrbóta. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort og þá hvernig standa eigi að þeim úrbótum sem þar eru lagðar til.

Í fyrsta lagi. Hvaða aðlögunartíma eru stjórnvöld tilbúin til að gefa greininni til aðlögunar að opnara starfsumhverfi og hvaða ráðum verður beitt?

Í öðru lagi vil ég vita hvað ráðherrann hyggst gera varðandi þær tillögur sem koma fram í skýrslunni um Garðyrkjuskólann og þá garðyrkjumiðstöð sem gert er ráð fyrir í tengslum við skólann.

Í þriðja lagi hafa garðplöntuframleiðendur lengi gagnrýnt hið opinbera fyrir að beita ekki útboðum í ríkara mæli. Nú standa opinberir aðilar, og þá sérstaklega ríkið, fyrir framleiðslu á skógar- og garðplöntum í beinni samkeppni við garðyrkjubændur. Finnst ráðherranum það eðlilegt eða ætlar hann að beita sér fyrir breytingum?