Staða garðyrkjunnar

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:43:56 (1647)

1996-12-02 16:43:56# 121. lþ. 32.97 fundur 114#B staða garðyrkjunnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Sú þróun sem hefur orðið innan garðyrkjunnar síðastliðin ár er að flestu leyti og raunar öllu leyti ánægjuleg. Það sem hefur gerst í grófum dráttum er það að fjölbreytni framleiðslunnar hefur aukist. Það tímabil sem innlend framleiðsla fullnægir eftirspurn og þörfum markaðarins hefur lengst og síðast en ekki síst hefur orðið lækkun á framleiðsluverðinu. Það hefur orðið raunlækkun á þessari vöru. Það er óumdeilanlegt og óhrekjanlegt þannig að þegar þetta allt er haft í huga verður sú umræða sem á köflum fer fram um stöðu þessarar greinar nokkuð sérkennileg. Hún hlýtur að teljast nokkuð sérkennileg. Garðyrkjan er að skapa meiri verðmæti og fleiri störf í landinu en nokkru sinni fyrr og það skyldi maður ætla að væri mönnum ánægjuefni og ekki síst þeim sem telja sig og eru umbjóðendur launamanna í landinu.

[16:45]

Það er einnig nokkur sérkennilegt að þáttur sem ekki vegur meira en raun ber vitni þrátt fyrir allt í útgjöldum vísitölufjölskyldunnar, eins og innlent grænmeti gerir, skuli vera gert að aðalmáli og dæminu jafnvel stillt þannig upp að lífskjör almennings í landinu ráðist að meira og minna leyti af verðlagi þessarar vöru á sama tíma og aðrir þættir sem vega margfalt þyngra hafa hækkað gífurlega, að hluta til vegna beinna aðgerða stjórnvalda í formi skattahækkana, t.d. á bifreiðarekstur, en umferðin í landinu er nú skattlögð um tæpa 20 milljarða kr. Það kemur auðvitað hressilega niður á útgjöldum fólks t.d. þegar það er að kosta rekstur á sínum heimilisbíl. En þessum þætti, sem vegur margfalt í prósentum á við innlenda matvöru svo að ekki sé talað um grænmetið eitt, er iðulega sleppt.

Varðandi samkeppnisskilyrðin hlýtur að vera lag til þess nú þegar á enn einu sinni að fara að falbjóða orkuna útlendingum í stóriðjuver á lágu verði að taka þá garðyrkjuna a.m.k. með í leiðinni og gera eitthvað róttækt í því að lækka orkukostnað þessarar greinar og auka afhendingaröryggið þannig að hún geti notið þess að búa við sæmilega hagstætt orkuverð.