Staða garðyrkjunnar

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:46:30 (1648)

1996-12-02 16:46:30# 121. lþ. 32.97 fundur 114#B staða garðyrkjunnar# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:46]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Sigmundsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Það vill þannig til að ég sat einmitt í nefnd skipaðri af landbrh. um rekstrarskilyrði garðyrkjunnar í landinu. Í þeirri nefnd voru m.a. fulltrúar garðyrkjubænda, fulltrúar fagráðs, tveir fulltrúar úr landbrn. og reyndar fleiri. Það voru einkum fjögur atriði sem við ræddum í þessari nefnd og skiluðum frá okkur skýrslu eins og fram hefur komið. Það var í fyrsta lagi varðandi raforkumálin, í öðru lagi varðandi GATT-verndina, sjóðagjöldin og síðan varðandi leiðbeininga- og þjónustumiðstöð garðyrkjunnar. Þessi skýrsla liggur fyrir og hefur ráðherra þegar kynnt niðurstöður hennar.

Við komum einnig örlítið inn á framtíð garðyrkjunnar og möguleika hennar á útflutningi sem er ekki endilega svo fjarlægur draumur þegar fram í sækir.

Umræðan um landbúnaðarmál er ákaflega sérkennileg í landinu. Það er alveg sama hvort við erum að tala um græna geirann svokallaða eða hefðbundinn landbúnað. Það er ljóst að í sambandi við vísitölufjölskylduna skipta þessir þættir orðið ótrúlega litlu máli í heildarkostnaði eins og fram hefur komið, en umræðan er öll hin neikvæðasta. Þegar við kaupum okkur dauða hluti eins og hljómtæki, sjónvörp, bíla, föt eða þess háttar, þá erum við gjarnan tilbúin að greiða fyrir það sem við köllum gæði. Við erum tilbúin að greiða fyrir ákveðin merki, við erum tilbúin að greiða heilmikið fyrir það sem við köllum gæði. Þegar þetta lýtur að neysluvenjum okkar, þegar við þurfum að kaupa okkur matvöru, þá er allt í einu allt önnur umræða í gangi. Við erum jafnvel að flytja inn grænmeti sem alls ekki er nægilega gott. Við komumst að því í þessari nefnd að það eru dæmi þess að heilu förmunum af t.d. ávöxtum hefur verið hent á ruslahaugana vegna þess að þeir hafa verið úðaðir ýmiss konar efnum til þess að draga úr rotnun þeirra. En ég legg áherslu á að við þurfum að vera vel á verði hvað varðar málefni garðyrkjubænda og vonandi tekst okkur að ná fram þeirri áætlun okkar sem við gerðum í skýrslunni sem ég vitnaði til.