Staða garðyrkjunnar

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:54:25 (1651)

1996-12-02 16:54:25# 121. lþ. 32.97 fundur 114#B staða garðyrkjunnar# (umræður utan dagskrár), ISigm
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:54]

Ingibjörg Sigmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég þakka undirtektir þingmanna og svör ráðherra. Ég heyri á þeim svörum og undirtektum að það er fullur vilji til þess að orðum fylgi athafnir og er mjög sátt við það sem hér hefur komið fram. Það var einni spurningu ósvarað sem hv. þm. Árni Johnsen kom inn á líka. Það var um samkeppni garðplöntuframleiðenda og ríkisins. Ég vona að ráðherra fjalli um það hér á eftir. En það er alveg rétt að það er raforkan og það ótrygga ástand sem er í raforkumálum sem brennur heitast á garðyrkjunni. Til upplýsingar má segja það að garðyrkjan sé nánast eins og stóriðja. Heildarraforkunotkun í garðyrkju núna eru 16 gwst. á ári, en það er reiknað með að á næstu fimm árum fari hún í 30 gwst. Það má upplýsa það hér að 1985 var notkunin 1,5 gwst., þannig að aukningin á raforku hefur orðið mjög mikil í þessari grein. En það er þetta óöryggi sem garðyrkjubændur eiga við að búa. Það er útilokað að gera nokkrar langtímaáætlanir meðan alltaf vofir yfir að samningur er bara gerður til eins árs eða tveggja ára og hvað svo?

Til upplýsingar líka út af þessu refsigjaldi sem þarf að borga núna, þá er verð til garðyrkjulýsingar 2,89 kr. í dag fyrir kwst. en á refsigjaldi þegar rof er keypt, þá er það 9,68 kr. Þetta er mjög mikill munur og mikið réttlætismál að þetta nái fram að ganga.