Sóttvarnalög

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 17:00:26 (1653)

1996-12-02 17:00:26# 121. lþ. 32.3 fundur 191. mál: #A sóttvarnalög# (heildarlög) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[17:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til sóttvarnalaga. Frv. var upphaflega samið af nefnd embættismanna og sérfræðinga sem heilbr.- og trmrh. skipaði árið 1988 til að endurskoða sóttvarnalögin frá 1954, farsóttalögin frá 1958 og ýmis sérlög um varnir gegn tilteknum smitsjúkdómum, svo sem berklavarnalög frá 1939 og lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978.

Nefndin lauk störfum haustið 1989. Frumvarp til sóttvarnalaga, sem hún samdi, var lagt fram á 112. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Með því frumvarpi fylgdu sem fylgiskjöl yfirlit sem nefndin tók saman um þróun íslenskrar löggjafar á sviði sóttvarna og samantekt um stöðu löggjafar á sviði sóttvarna á Norðurlöndunum. Frumvarpið var síðan lagt fram nokkuð breytt á 113. þingi í ljósi umsagna sem bárust við meðferð málsins á 112. löggjafarþingi og að nýju á 115. og 116. löggjafarþingi nánast óbreytt að öðru leyti en því að 17. gr. frumvarpsins var breytt. Þá var frumvarpið lagt fram á 119. löggjafarþingi með breytingum á 6. gr., um skipan sóttvarnaráðs, og 14. og 15. gr., sem fjalla um þvingunarúrræði, með það að markmiði að treysta réttarstöðu hins smitaða. Síðast var frumvarpið lagt fram á 120. löggjafarþingi með breytingum sem gerðar voru að teknu tilliti til hluta þeirra athugasemda sem bárust heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis sem sendi frumvarpið til umsagnar í lok 119. löggjafarþings. Má þar nefna breytingu á 6. gr. þess efnis að heilsugæslulæknir og hjúkrunarfræðingur ættu sæti í sóttvarnaráði, kveðið var á um kæru til Hæstaréttar í 3. mgr. 15. gr. og í 17. gr., sem fjallar um greiðsluhlutdeild sjúklinga, var kveðið á um frekari heimild til undanþágna frá þeirri meginreglu en var í fyrra frumvarpi. Þá taldi ráðuneytið við endurskoðun rétt að kveða á um að ákvarðanir skv. 14. gr. væru kæranlegar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis en ekki til landlæknis.

Frumvarp þetta er að mestu óbreytt frá frumvarpi því sem lagt var fram á 120. þingi. Þó hefur verið tekið tillit til nokkurra athugasemda sem bárust heilbrigðis- og trygginganefnd við það frumvarp, m.a. er bætt inn í 6. gr. ákvæði þess efnis að þegar fjallað er um mál sem tengjast Hollustuvernd eða embætti yfirdýralæknis skuli fulltrúar þeirra sitja fundi sóttvarnaráðs, ákvæði 2. mgr. 9. gr. um skyldur rannsóknastofa er gert skýrara og gerðar eru breytingar á 11. gr. frumvarpsins til að tryggja betur gagnkvæma tilkynningarskyldu sóttvarnalæknis, héraðslækna, heilbrigðisnefnda og dýralækna. Loks er gerð breyting á 14. gr. og lögð meiri áhersla á að leitað sé samstarfs við aðila áður en gripið er til þvingunaraðgerða. Fylgiskjölin, sem birtust með frumvarpinu er það var lagt fram á 112. löggjafarþingi, hafa ekki verið endurbirt.

Frv. felur í sér rammalöggjöf þar sem fyrirkomulag sóttvarna er fært til nútímahorfs og löggjöf á þessu sviði samræmd þannig að unnt sé að sinna sóttvörnum með fullnægjandi hætti. Gert er ráð fyrir að lögin leysi af hólmi berklavarnalög frá árinu 1939, lög um ráðstafanir til varnar gegn fýlasótt frá árinu 1940, sóttvarnarlög frá árinu 1954, farsóttalög frá árinu 1958 og lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978.

Mörg hinna eldri laga, sem lagt er til að falli úr gildi, fjalla um sérstakar sóttkveikjur og aðrar aðstæður sem áður voru fyrir hendi en eiga ekki við nú. Frv. er m.a. ætlað að tryggja að unnt sé að bregðast við nýjum aðstæðum og nýjum sóttum sem reynslan sýnir að ávallt má búast við. Einnig er því ætlað að tryggja heildaryfirsýn smitsjúkdóma á landinu og að brugðið sé við með samræmdum aðgerðum. Þess vegna er lagt til að ráðinn verði sérmenntaður sóttvarnalæknir við embætti landlæknis sem m.a. fylgist með útbreiðslu farsótta, skipuleggi aðgerðir gegn þeim m.a. með ónæmisaðgerðum og fylgist með árangri þeirra en gera má ráð fyrir miklum breytingum á fyrirkomulagi ónæmisaðgerða á komandi árum.

Einnig er gert ráð fyrir að sérstök göngudeildarstarfsemi verði styrkt m.a. til að hafa eftirlit með fólki sem sækir um dvalarleyfi hér á landi en talið er að nokkur misbrestur sé á því. Þess má geta að Norðurlöndin hafa eins og flestar aðrar þjóðir sérstaka sóttvarnalækna sem hafa þekkingu á faraldsfræði smitsjúkdóma og umsjón með sóttvarnaráðstöfunum. Norrænir sóttvarnalæknar hafa með sér náið samstarf og er ekki að efa að Íslendingar gætu haft verulegt gagn af að taka þátt í slíku samstarfi.

Frv. til sóttvarnalaga skiptist í fimm kafla. Í I. kafla eru skilgreiningar. Í 2. gr. er skilgreint hvað átt er við með smitsjúkdómi en það er sjúkdómur eða smitun sem örverur, eiturefni (toxín) þeirra eða sníkjudýra valda.

Í 1. gr. er fjallað um sóttvarnir sem annars vegar skiptast í almennar sóttvarnir sem ávallt skal beita og hins vegar opinberar sóttvarnir sem grípa skal til vegna hættulegra smitsjúkdóma. Samkvæmt frv. er nýjum sóttvarnalögum ætlað að ná til smitsjúkdóma sem valdið geti farsóttum og ógnað almannaheill og annarra alvarlegra næmra sótta. Með reglugerð skal ákveða hvaða smitsjúkdómar séu skráningarskyldir. Síðan er gert ráð fyrir að tilkynningarskyldir séu þeir skráningarskyldu sjúkdómar sem ógnað geta almannaheill. Ráðherra skal að fengnum tillögum sóttvarnaráðs sömuleiðis ákveða með reglugerð hvaða smitsjúkdómar eru á hverjum tíma tilkynningarskyldir.

Með frv. er fylgiskjal um flokkun smitsjúkdóma eftir meginsmitleiðum. Þar eru smitsjúkdómar flokkaðir annars vegar í þá sem verða skráningarskyldir samkvæmt reglugerð og hins vegar í þá sem verða tilkynningarskyldir. Fylgiskjalið gefur því vísbendingar um efni þeirra reglugerðar sem ráðherra fær heimild til að setja samkvæmt 3. gr. frv. Skrá yfir skráningarskylda smitsjúkdóma verður með þeim hætti að persónueinkenna sjúklinga verður ekki getið en skrá yfir tilkynningarskylda smitsjúkdóma verður einstaklingsbundin.

Í II. kafla frv. er fjallað um yfirstjórn sóttvarna. Gert er ráð fyrir að ábyrgð á sóttvörnum verði áfram hjá embætti landlæknis. Samkvæmt gildandi lögum eru héraðslæknar sóttvarnalæknar hver í sínu héraði og auk þess skulu sóttvarnanefndir starfa í öllum kaupstöðum og er tollstjóri á hverjum stað formaður.

Í ljósi gerbreyttra samgangna þykir eðlilegt að leggja sóttvarnanefndir niður. Á hinn bóginn þykir nauðsynlegt að við embætti landlæknis verði ráðinn til starfa sérstakur læknir, sóttvarnalæknir, sem hefur sem aðalstarf að vinna að sóttvarnamálum. Þetta er talið nauðsynlegt til að tryggja samræmi í sóttvörnum um landið allt en að sjálfsögðu bera héraðslæknar eftir sem áður ábyrgð á sóttvörnum hver í sínu héraði undir yfirstjórn sóttvarnalæknis og heilsugæslulæknar og aðrir læknar eftir því sem við á.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að sérstakt sóttvarnaráð verði sett á laggirnar til að móta stefnu í málum sóttvarna og vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma. Í þessu frv. er breyting frá fyrra frv. þess efnis að þegar fjallað er um mál í sóttvarnaráði sem tengjast starfssviði Hollustuverndar ríkisins eða embætti yfirdýralæknis skulu fulltrúar þeirra stofnana sitja fundi ráðsins eftir því sem við á með málfrelsi og tillögurétt.

Í III. kafla er fjallað um almennar sóttvarnaráðstafanir og eru ákvæði þar að mestu í samræmi við gildandi löggjöf. Í frv. sem nú er lagt fram hefur verið bætt við ákvæði í 11. gr. til að tryggja betur gagnkvæma tilkynningarskyldu sóttvarnalæknis, héraðslækna, dýralækna og heilbrigðisnefnda.

Í IV. kafla er fjallað um opinberar sóttvarnaráðstafanir og viðbrögð við yfirvofandi farsóttum. Opinberar sóttvarnaráðstafanir eru ónæmisaðgerðir, einangrun smitaðra, sótthreinsun, afkvíun byggðarlaga eða landsins alls, lokun skóla eða samkomubann og skal ráðherra ákveða til hvaða aðgerða er gripið að tillögum sóttvarnaráðs.

Í 14. og 15. gr. frv. er nánar fjallað um aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum og er þar einkum fjallað um aðgerðir þegar ekki tekst samstarf við hinn smitaða. Í þeim tilfellum er heimilt, gegn vilja hins smitaða, að einangra hann en þá skal bera ákvörðunina skriflega undir dómstóla innan tveggja sólarhringa. Dómari skal taka málið fyrir án tafar og kveða upp úrskurð um hvort einangrun skuli haldast eða falla niður. Einangrun má ekki vara lengur en 15 sólarhringa í senn en ef talið er nauðsynlegt að framlengja einangrun skal að nýju bera kröfu um slíkt undir héraðsdóm. Með þessum ákvæðum er réttarstaða smitaðs tryggð mun betur en samkvæmt gildandi lagaákvæðum.

Í V. kafla frv. er ákvæði um göngudeildir vegna tilkynningarskyldra smitsjúkdóma, um aðstöðu til einangrunar, hugsanlegra smitbera og ábyrgð á greiningu örvera eða sníkjudýra, sbr. 16. gr. Í 17. gr. er kveðið á um kostnað vegna sóttvarna sem fjallað var um hér á undan.

Eins og fram kemur með meðfylgjandi kostnaðarmati fjmrn. er gert ráð fyrir viðbótarútgjöldum ríkissjóðs vegna embættis sóttvarnalæknis og vegna göngudeildar fyrir smitsjúkdóma við Sjúkrahús Reykjavíkur.

Virðulegi forseti. Ég hef nú í nokkuð ítarlegu máli fjallað um frv. til sóttvarnalaga. Ég tel að hér hafi vel til tekist við að endurskoða og einfalda löggjöf um smitsjúkdóma og sóttvarnir. Flestir munu sammála um að löngu sé tímabært að breyta lögum um sóttvarnir í samræmi við breytta tíma. Ég tel brýnt að samþykkt verði heildarlöggjöf um sóttvarnir og bendi á að frv. hefur hlotið mjög ítarlega og vandaða meðferð. Það er því von mín að frv. fái jákvæðar undirtektir og hljóti afgreiðslu á þessu þingi.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.