Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 17:53:09 (1658)

1996-12-02 17:53:09# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[17:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ekki skal lítið úr því gert að þörf sé á því að endurskoða áherslur og móta stefnu í heilbrigðismálum. Þvert á móti er það svo að manni virðist heilbrigðiskerfi landsins því miður á köflum vera meira og minna í upplausn þessi missirin og það er því miður ekki eingöngu bundið við stjórnartíma núv. hæstv. heilbrrh. Satt best að segja hefur meiri og minni óvissa og árlegar hremmingar gengið yfir heilbrigðiskerfi landsmanna núna samfellt í fjögur, fimm, sex ár. Það má leiða hugann að því hvernig það hefur verið fyrir starfsfólk í heilbrigðisstéttum á þessum tíma að starfa að þessum málaflokki þegar árlegar þrengingar í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, niðurskurðar- og sparnaðaraðgerðir og ýmiss konar, mér liggur við að segja þvingunaraðgerðir, hafa gengið yfir næstum að segja eins og árlegar plágur. Það er ekki nokkur vafi á því að vinnuálag hefur stóraukist á stofnunum á heilbrigðissviðinu og þar mætti áfram telja.

Þess vegna, herra forseti, vakna vissulega nokkrar spurningar um það hvort það sé heppilegasti þingflokkurinn sem standi að flutningi þessarar tillögu, þ.e. þingflokkur Alþfl. eða jafnaðarmanna, því hann á vissulega nokkra sögu í þessum efnum frá síðustu árum. Hér er í hópi flutningsmanna hæstv. fyrrv. heilbrrh. og núv. hv. formaður Alþfl., Sighvatur Björgvinsson. Mér finnst tillagan líka gölluð að vissu leyti vegna þess, þó að ýmislegt sé þar ágætt sagt, að það vantar það mikilvægasta að mínu mati í heilbrigðisstefnuna ef hún ætti að grundvallast á tillögu af þessu tagi, þ.e. sjálfa grundvallarskilgreininguna á rétti manna, óháð efnahag og búsetu, til þess að njóta þessarar þjónustu. Það hefði ég viljað sjá sem útgangspunkt málsins og í beinu framhaldi hefði verið eðlilegt að fjalla um hluti eins og til að mynda þjónustugjöld, sjúklingaskatta, aukinn kostnað sjúklinga vegna lyfjanotkunar og annað því um líkt þannig að menn settu því einhverjar skorður í tillögu af þessu tagi. Ég lýsi eftir því ef Alþfl. eða þingflokkur jafnaðarmanna vill á metnaðarfullan hátt móta sér áherslur eða leggja því lið að Alþingi móti áherslur í þessum efnum: Hvar er þá tekið á þessum hlutum?

Ég held að það sé ekki heilbrigðisstefna sem nái máli í ljósi reynslunnar frá undanförnum árum, í ljósi þeirrar sífelldu glímu sem er við að koma saman fjárlögum og þeirrar tilhneigingar sem er að velta kostnaði yfir á neytendur, að ekki sé tekið á þessu grundvallarúrslitaatriði. Ætlum við eða ætlum við ekki að byggja heilbrigðisþjónustuna á Íslandi upp á þeirri grundvallarreglu að hún skuli standa öllum til boða óháð efnahag og að það verði ekki farið út á þá braut að velta kostnaðinum yfir á notendurna þannig að efnahagur fari að skipta sköpum um aðgang manna að þjónustunni. Það er óhjákvæmilega það sem gerist ef farið er út í gjaldtökur eins og reynslan sýnir alls staðar frá og er að mínu mati þegar byrjuð að sýna að nokkru leyti á Íslandi.

Ég er sammála ýmsu sem þarna er lagt til grundvallar, að ný stefnumörkun í heilbrigðismálum skuli hafa til hliðsjónar. Skárra væri það nú. Hér er allt fullt af fallegum markmiðum og undir þau getum við flest öll tekið. Við annað set ég frekar spurningarmerki.

Varðandi staflið c í lið 2 um uppbyggingu heilsugæslunnar, þá tek ég heils hugar undir það að eitt það allra brýnasta í heilbrigðismálum er að ljúka uppbyggingu heilsugæslustöðvakerfisins. Ein meginbrotalömin í heilsugæslu okkar er sú að aldrei var lokið áætlunum um að byggja upp heilsugæslustöðvakerfið. Þær brotnuðu fyrst og fremst niður á Reykjavíkursvæðinu illu heilli og fyrir vikið búa menn að mínu mati við bæði lakari þjónustu og miklu dýrari en ella þyrfti að vera ef hér væri skilvirkt, vel upp byggt heilsugæslustöðvakerfi sambærilegt við það sem best gerist annars staðar í landinu. Ég nefni eins og ég hef oft gert áður í umræðum um þessi mál hvernig þessum málum er skipað á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu þar sem rekin er stærsta heilsugæslustöð landsins sem samræmir alla þjónustu á þessu sviði og fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnastarf og skilar að mínu mati mönnum miklu betri þjónustu á því svæði en ella væri. Þarna þarf vissulega að taka á, en mönnum hefur því miður ekkert miðað undanfarin ár og ekki heldur í valdatíð Alþfl.

Ég spyr: Hvað er átt við í staflið e undir lið 2, þegar sagt er, með leyfi forseta: ,,Við uppbyggingu og rekstur heilsugæslustöðva verði reynd mismunandi fjármögnunar- og rekstrarform þannig að samanburður valkosta fáist ...`` Út á hvaða braut er þarna verið að fara eða vísa? Er það stefna Alþfl., jafnaðarmannaflokksins, að það eigi að keyra einkareknar heilsugæslustöðvar við hliðina á opinberum heilsugæslustöðvum í tilraunaskyni? Ég geld varhug við slíkri uppsetningu mála, ef það er það sem þarna er á ferðinni. Ef það er misskilningur og verið að vísa í eitthvað annað, þá bið ég um útskýringar á því. Ég er ekki mjög hrifinn af hugsunarhætti af því tagi að það eigi að vera með tilraunastarfsemi, einhver ,,experiment`` í jafnviðkvæmri grundvallarþjónustu og heilsugæslan og heilbrigðisþjónustan er.

Ég held að það sé mjög þarft sem nefnt er í lið 4 um sjúkrahúsin, í c-, d- og e-staflið, að viðurkenna sérstöðu og hlutverk stóru sjúkrahúsanna tveggja í Reykjavík og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem hafa óumdeilanlega mikla sérstöðu. Ég minni á í því sambandi að FSA er til að mynda enn, samkvæmt þeirri heilbrigðisstefnu sem ég veit réttasta vera í gildi, skilgreint sem varasjúkrahús á öðru landsvæði við stóru sjúkrahúsin hér, þar sem hægt er að veita nokkurn veginn alla sömu þjónustu ef á bjátar, t.d. af almannavarnaástæðum og ef eitthvað kæmi upp á með samgöngur til stofnananna hér eða beinlínis á þessu svæði. En það er ekki síður mikilvægt að taka á því hvert eigi að vera hlutverk minni sjúkrahúsanna og sjúkrahúsa í einstökum landshlutum og byggðarlögum. Og sú óvissa sem menn búa við þar er óþolandi. Ég minni í því sambandi á frv. hæstv. heilbrrh. sem liggur fyrir þingi í bandorminum. Það sem hér er lagt til og er skynsamlegt er í algerri himinhrópandi mótsögn við það að hæstv. heilbrrh. fái geðþóttavald, algert geðþóttavald um skipulag þessara mála eins og er innihald stjfrv. sem á sömu dögum liggur fyrir þinginu og þessi tillaga er hér til umræðu.

Ég vil svo að lokum á síðustu mínútunni sem ég hef til umráða nefna lið 10, herra forseti. Þar er ákaflega fallega sagt, með leyfi forseta:

,,Mótuð verði samræmd stefna um kaup á nýjum lækningatækjum og lyfjum sem taki mið af þeirri þróun sem hefur orðið í hátækni og nýjum lyfjum til að meðhöndla og fyrirbyggja sjúkdóma, sem leitt getur til aukinna afkasta og lækkunar kostnaðar vegna meðferðar við sjúkdómum.``

[18:00]

Það vantar algerlega þann þátt, sem er meginvandamálið, að þetta snýr öfugt í langflestum tilvikum. Það er því miður staðreynd sem við verðum að horfast í augu við að hátæknin, nýju lyfin valda auknum útgjöldum í mjög ríkum mæli og einn meginvandinn í heilbrigðiskerfinu í dag er að taka á því að tæknin er í raun komin langt fram úr fjárveitingunum eða pólitískum vilja til að leggja til þessara málaflokka. Þyngsti kross sem faglegir og fjárhagslegir stjórnendur í heilbrigðismálum í heiminum í dag bera á sínum herðum er að glíma við þessa mótsögn og finna þar einhvern færan meðalveg sem gerir mönnum kleift að reyna að nýta þessa tækni og þá miklu möguleika sem hátæknin og ný lyf bjóða upp á án þess að missa útgjöldin algerlega úr böndunum. Um það þyrfti auðvitað að fjalla með pósitífum hætti í heilbrigðisstefnu af þessu tagi en ekki gefa undir fótinn óraunhæfum væntingum um að einmitt þessar framfarir séu líklegar til þess að skila okkur sparnaði. Ég held að í meginatriðum snúi það öfugt. Glíman er einmitt að missa ekki útgjöldin úr böndunum vegna þeirra.