Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:06:09 (1661)

1996-12-02 18:06:09# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:06]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að beina orðum mínum að efnislegri umfjöllun hv. þm. Ég var að vekja athygli á því sem mjög oft hefur komið fyrir að þegar við erum að fjalla um þingmál sem við erum að flytja er farið að gera málið ótrúverðugt með tilvísun í einhverjar aðgerðir á fyrri stjórnartíma. Mér finnst alveg eins og þingmanninum að tími sé til kominn eftir 20 mánuði að við fáum að njóta þess sem við höfum vel gert og margt er hægt að benda á í þessari tillögu. Það má benda á útgjöld heimilanna sem hafa lækkað á tímanum sem taflan tekur til. En það sem ég var fyrst og fremst að beina orðum mínum að var þessi tilhneiging til að koma sífellt með þau sjónarmið að það sem við höfum fram að færa sé ótrúverðugt af því að við vorum í ríkisstjórn.