Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:07:15 (1662)

1996-12-02 18:07:15# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannfærður um að þetta jafnar sig ef við ræðum málið í rólegheitum og ég heyri strax að hv. þm. dregur nokkuð í land með að það hafi verið einhver ósvinna af minni hálfu að leyfa mér að minnast aðeins á fortíðina í þessum efnum. Staðreyndin er sú að erfitt er að slíta þetta úr samhengi við það sem hefur verið að gerast í þessum málaflokki síðastliðin ár. Það er meira að segja beinlínis talað um það í tillögunni að taka mið af breytingum og þróun sem orðið hafi í heilbrigðismálum á sl. fimm árum. Þá vandast nú málin því að fjögur af þeim fimm árum voru alþýðuflokksmenn með þessi mál.

Ég vil að sjálfsögðu að menn njóti þess sem þeir hafa vel gert og hafa jákvætt fram að færa og lýsi mig reiðubúinn til að skoða það. En ég vil þá líka benda á að Alþfl. eða þingflokkur jafnaðarmanna valdi í þessu tilviki þá leið að flytja einn flokkslega tillögu um þetta mál en leita t.d. ekki eftir samstöðu innan stjórnarandstöðunnar um áherslur í þessum efnum. Það kemur því pínulítið úr glerhúsi að kvarta undan því að aðrir hafi sjálfstæðar meiningar um þessi mál úr því að Alþfl. valdi þá leið að fara í hreinan flokkslegan farveg með málaflutning sinn á þinginu í stað þess t.d. að leita eftir samstöðu stjórnarandstöðunnar á þessu sviði. Það hefði orðið spennandi að láta á það reyna hvort til að mynda Alþb. og Alþfl. hefðu náð saman um tillögu til stefnumótunar á þessu sviði við þær aðstæður sem nú eru og þarf ekki að vísa í hvers vegna.