Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:08:56 (1663)

1996-12-02 18:08:56# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:08]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir hans góðu ábendingar og segi hér og nú að ég er ekkert viðkvæm fyrir þeim. Hins vegar vil ég benda honum á að lesa nýsamþykkta stefnuskrá Alþfl. í heilbrigðismálum og vonandi er hann okkur sammála í öllum veigamestu atriðunum þar.

Batnandi mönnum er best að lifa og ég held að það verði að skoðast virðingarvert að jafnaðarmenn telji nauðsynlegt að skoða hvort við höfum ekki gengið of langt í að færa kostnað af heilbrigðisþjónustunni yfir á sjúklinga. Það er nákvæmlega það sem við höfum margoft bent á og viljum gjarnan ræða.

Varðandi það að við höfum ekki talað mikið um hvernig við eigum að tryggja réttindi sjúklinga langar mig til að benda hv. þm. á tvær staðreyndir. Í fyrsta lagi á stjórnarskrá landsins að vera ákveðin trygging fyrir því að allir njóti sama réttar óháð kynferði, búsetu eða greiðslugetu eða þjóðfélagsstöðu að öðru leyti. Á hinn bóginn langar mig til að benda á þessa ágætu þáltill. Þar er einmitt verið að leggja þunga áherslu á að réttindi sjúklinga verði tryggð með lagasetningu þannig að þarna erum við hjartanlega sammála.

Annað sem við erum hjartanlega sammála um er það að einmitt þarf að marka heildarstefnu núna til að við lendum ekki í þeim ógöngum að ráðherrum sé falið óskorað vald í að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna eftir geðþótta sínum á hverjum tíma.