Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:10:50 (1664)

1996-12-02 18:10:50# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Enn fer þetta batnandi því nú upplýsir næsti ræðumaður Alþfl. í andsvari að þessi tillaga sé að hluta til ákveðin yfirbót og sjálfsgagnrýni. Menn vilji virkilega fara yfir það hvort ekki hafi verið gengið of langt í því á undanförnum árum að velta kostnaði yfir á notendur eða sjúklinga og ég er hæstánægður með slíka yfirlýsingu frá einum af talsmönnum Alþfl. og ég fagna því að menn vilji líka líta í eigin barm. Meiri var glæpur minn ekki en sá, að ég minnti á að stefnumótun í heilbrigðismálum yrði líka að taka til þessa stóra grundvallarmáls --- hversu langt viljum við eða viljum við yfir höfuð leggja út á þá braut að láta menn að einhverju leyti greiða fyrir þjónustuna til viðbótar því sem þeir gera með sínum sköttum eða á það að vera eins og er mín grundvallarsannfæring útgangspunkturinn að þessi þjónusta, eins og önnur mikilvægasta undirstöðuþjónusta á sviði heilbrigðismála, menntunar, félagslegrar þjónustu og annarra slíkra þátta, eigi að vera ókeypis vegna þess að með þeim eina hætti sé unnt að tryggja að efnahagsleg staða manna valdi ekki mismunun þegar að því kemur að fá þessa mikilvægu þjónustu. Ég vil fá að búa áfram í landi sem tryggir öllum án tillits til efnahags, búsetu, aldurs, kynferðis o.s.frv. fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu. Ég tel að það sé eitt aðalsmerki norrænu velferðarríkjanna eins og þau voru a.m.k. upp á sitt besta og eru sum enn að bjóða upp á þetta. Og guð forði okkur frá því að lenda út á þá óheillabraut sem til að mynda þjóðir eins og Bandaríkjamenn og fleiri hafa gert einmitt vegna þess að þeir hafa lent lengra og lengra út á braut þessarar kostunar einstaklinganna eða notendanna og sitja svo að lokum uppi með dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi þar sem næstum fjórðungur þjóðarinnar býr í raun og veru við engan rétt. Það eru víti til varnaðar á að horfa og ég fagna því að Alþfl. skuli að nokkru leyti iðrast gerða sinna á síðasta kjörtímabili og bjóða upp á endurskoðun á þeim áherslum.