Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:16:01 (1667)

1996-12-02 18:16:01# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:16]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér þrátt fyrir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að halda því fram að Alþb. og jafnaðarmenn eigi samleið í þessum stjórnmálaflokki sem eru heilbrigðismál og að báðir vilji vinna að því að allir eigi óháð efnahag jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Það kemur fram í þessari tillögu og vil ég að það komi skýrt fram af því að mér fannst þingmaðurinn draga það í efa. Mér finnst það þjóna ósköp litlum tilgangi að vera í einhverjum metingi um það hvaða flokkur það er sem hefur lagt mest útgjöld í heilbrigðismálum á heimilin í landinu. Ég held að allir flokkar nema Kvennalistinn, sem ekki hefur átt sæti í ríkisstjórn, hafi komið með einum eða öðrum hætti að því máli að auka útgjöld heimilanna. Frá 1980--1995 hafa útgjöldin til að mynda aukist verulega, t.d. að því er varðar tannlæknaþjónustuna úr 479 millj. kr. á sama verðlagi í 1.667 millj. kr. og það leggjum við áherslu á í þessari tillögu, og ég vek athygli á því, að lækka þau útgjöld með því að flytja tannlæknaþjónustuna meira inn í heilsugæsluna. Það er þó miklu meiri aukning í útgjöldum heimilanna heldur en hefur verið í heilsugæslunni. Alþb. leggur til að fella niður þjónustugjöld í heilsugæslunni, sem er gott og blessað. Ég tók undir það þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson mælti fyrir því að það ætti að skoða. En það eru þó ekki nema 200--250 millj. kr. á sama tíma og útgjöldin til tannlæknaþjónustunnar hafa aukist um 1.100 millj. kr. Það væri leið til þess að lækka útgjöld heimilanna til heilbrigðismálanna að skoða þá leið sem við erum að leggja til, kannski í staðinn fyrir það að fella niður þjónustugjöldin í heilsugæslunni vegna þess að það skilar miklu meiru til bættrar stöðu heimilanna. Þetta eru miklu hærri útgjaldaliðir. Mér finnst að þetta eigi hvort tveggja að koma til skoðunar og menn eigi ekki að vera að metast um fortíðina í þessu efni. Það eru allir flokkar sem hafa komið að því að hækka útgjöld heimilanna til heilbrigðismála.

Ég nefni lyfin bara í lokin. Þau voru 1.033 millj. kr. á árinu 1998, ég man ekki hver var heilbrrh. þá, var það ekki hv. þm. Svavar Gestsson? En núna 1995 eru þau ekki nema 752 millj. þannig að þar höfum við náð árangri.