Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:18:33 (1668)

1996-12-02 18:18:33# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég tek þessum, mér liggur við að segja ástarjátningum þriggja hv. þingmanna Alþfl. sem hér hafa talað eða jafnaðarmanna bara ágætlega og vel. Ég ætla síður en svo að vera talsmaður þess að þarna sé uppi einhver óskaplegur ágreiningur í sjálfu sér. Ég fór einfaldlega yfir það frá minni hlið hvar ég sæi kost og löst á þessari tillögu og það finnst mér vera umræða eins og hún á að vera, nákvæmlega eins og hún á að vera, að menn lýsi skoðunum sínum til hlutanna. Þetta er allt mjög samhangandi og eins og ég enn minni á er tekið fram í tillögunni að það eigi að taka mið af þróun og breytingum í heilbrigðismálum sl. fimm ár og við komum umsvifalaust þar með að pólitískum ákvörðunum um einstaka þætti sem teknar hafa verið. Hv. þm. nefndi réttilega að eitt allra mikilvægasta verkefni í þessu sambandi væri að verja heimilin fyrir óhóflegum útgjöldum í þessu sambandi og setja því mörk að þarna væri ekki gengið of langt í íþyngjandi átt. Ég held nú það. Það er nákvæmlega það sem við erum að tala um, að menn lendi ekki inn á óheillabraut einhverra þjónustugjalda eða sjúklingaskatta eða óhóflegrar þátttöku heimilanna t.d. í lyfjakostnaði og þá var nefndur tannlæknakostnaður. Hvers vegna ætli það sé sem menn hafa svona miklar áhyggjur af honum núna? Það er af því að hann var hækkaður. Um það var tekin pólitísk ákvörðun á síðasta kjörtímabili, því miður, að draga verulega úr þátttöku ríkisins í endurgreiðslu tannlæknakostnaðar, þar á meðal hjá skólabörnum. Og það er af þeim sökum sem menn núna horfa á þann þátt og sjá sem betur fer að hann er orðinn óhóflega mikill og ég fagna því að menn séu þá tilbúnir til þess að endurskoða það einnig.

Varðandi svo að síðustu samanburð til lengri tíma litið, aftur til 1980 eða eitthvað af því tagi, þá er það fínt, ég er alveg til í það og þar bera ýmsir ábyrgð, þar á meðal þáv. heilbrrh. og ríkisstjórn. En þá minni ég líka á að ef við erum að fara yfir sviðið svo langt aftur í tímann þá verðum við auðvitað að hafa til hliðsjónar og í huga ýmsar áherslubreytingar sem orðið hafa einfaldlega á faglega grunninum í heilbrigðisþjónustunni, t.d. það að lyfjakostnaður hefur kannski hlutfallslega aukist á sama tíma og handlækningakostnaður eða aðgerðakostnaður eða legukostnaður hefur lækkað o.s.frv. Við vitum að ýmsar slíkar breytingar hafa orðið sem þarf þá líka að horfa til.