Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:22:46 (1671)

1996-12-02 18:22:46# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:22]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur orðið um tillögu hv. þm. jafnaðarmanna, um nýja stefnumörkun í heilbrigðismálum, gefur tilefni til að fara yfir það sem er að gerast í þessum málum í heilbrrn. Í fyrsta lagi vil ég minna á að það er verið að endurskoða heilbrigðisáætlun og það er þverpólitísk nefnd og þverfaglega verið að vinna að því og þessi tillaga fellur ákaflega vel undir þá endurskoðun og gæti komið þar að góðu gagni. Ég hef lagt á það áherslu sem heilbrrh. að hafa þverpólitíska samstöðu um þessi mál eins og mögulegt er.

Hér hefur verið rætt mikið um stefnumörkun í heilsugæslunni sem er grunneining heilbrigðisþjónustunnar og samþykkt var stefnumörkun í 21 lið í sumar og menn náðu þá ákveðinni sátt um það hvernig við ætlum að byggja upp heilsugæsluna. Ég vil leiðrétta hv. þm. Össur Skarphéðinsson þegar hann sagði að um þetta hafi deilan staðið þegar heilsugæslulæknarnir gengu út. Þessari stefnumörkunarvinnu var lokið þrem vikum áður en heilsugæslulæknar gengu út. Það var um kjaramálin sem var deilt og það vil ég að sé rifjað upp hér. Það er enginn bilbugur á okkur varðandi það að að þessari stefnu verði unnið. Eina ágreiningsmálið við læknafélagið er valfrjálst stýrikerfi. Það kemur við buddu manna og það er þar sem við höfum ekki enn þá náð sáttum við læknafélagið. Mig langar að ítreka spurningu, sem kom fram áðan hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, hvort það sé tilfellið að jafnaðarmenn séu ekki með í sinni stefnuyfirlýsingu lengur tilvísunarkerfið sem var þeirra ær og kýr fyrir stuttu síðan. Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi fram í þessari umræðu.

Varðandi heilsugæsluna þá var að því spurt hvort ég telji rétt að heilsugæslan fari yfir til sveitarfélaga. Ég get vel ímyndað mér að eftir fimm, sex ár eigum við að skoða það. En í dag á heilsugæslan að vera hjá ríkinu því að mér sýnist að sveitarfélögin hafi nóg með grunnskólana sem þeir eru að taka yfir núna, það sé nógur biti að kyngja. Ég held að við værum að setja heilsugæsluna í vissa upplausn með því að færa hana yfir til sveitarfélaganna á þessum tímapunkti.

Hvað varðar aðra stefnumótun í heilbrigðismálum þá er verið að endurskoða málefni geðsjúkra og þar koma að máli bæði sérfræðingar og samtök sjúklinga. Það er verið að samhæfa starfsemi sjúkrahúsanna og það kemur inn á þann þátt sem hér er um rætt varðandi tækjakaup og nýjungar, að þar sé ákveðið á hvaða stað hátæknin er, við séum ekki að dreifa henni á fleiri en einn stað. Að þessu sama erum við vinna úti á landi, að samhæfa sjúkrahúsin betur en gert hefur verið.

Undir stjórn landlæknis er verið að vinna að stefnu um forgangsröðun og ég býst við því að upp úr áramótum muni sú nefnd skila áliti. Ég endurtek það sem ég sagði um heilbrigðisáætlun. Hún er í endurskoðun og þessar tillögur gætu þess vegna farið inn í þá endurskoðun.

Biðlistana þarf að skilgreina betur en gert er. Núna er það þannig að hver og einn fer á biðlista. Segjum t.d. að hv. þm. fari í magaspeglun í dag og að hann eigi að mæta aftur eftir hálfan mánuð, þá er hv. þm. kominn á biðlista. Þannig er það. En það eru líka alvarlegir biðlistar í ýmsar aðgerðir og þá sérstaklega beinaaðgerðir en við höfum náð geysilegum árangri varðandi hjartaaðgerðir. Um mitt sumar í fyrra biðu tæplega 300 sjúklingar eftir hjartaaðgerð. Í dag eru það sem betur fer örfáir. Þetta er árangur sem vert er að geta.

Á síðasta þingi var lagt fram frv. um réttindi sjúklinga. Það voru 40 sjúklingasambönd sem komu að gerð þess frv. en það komu nokkrar athugasemdir í meðferð heilbr.- og trn. og hefur verið unnið að því að bæta þetta frv. frá því að það var lagt fram í fyrra og ég á von á því að það verði lagt fram í þinginu innan tíðar.

Hvað varðar vísindi og rannsóknir sem hér eru gerðar tillögur um er rétt að geta þess að fyrir fáum vikum var opnuð ný rannsóknastofa á Landspítalanum í gigtarrannsóknum. Talið er að Íslendingar geti náð langt í gigtarrannsóknum. Gigtin ein er talin kosta 8--10 milljarða árlega í vinnutapi, sjúkrahúslegu og endurhæfingu. Ef til vill geta Íslendingar leyst gigtargátuna, þó það gerist kannski ekki á okkar ævi, en það er tilfellið að verði sú gáta leyst þá gerist það trúlega í landi eins og hér. Við höfum því lagt fjármagn í að auka rannsóknir á sviði gigtarsjúkdóma.

Um það að heilsugæslan hafi borið skarðan hlut frá borði varðandi fjármagn undanfarin ár vil ég segja að fjárstreymið er þannig að á síðustu fimm árum hefur þjónusta heilsugæslunnar hækkað um 14,6% á meðan þjónusta héraðssjúkrahúsanna hefur hækkað um rúmlega 10% en stóru sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu aðeins um 4,6%.

Nauðsynlegt er að samhæfa forvarnir og setja þær meira undir einn hatt og þá er ég að tala um tannvernd, áfengis- og vímuefnavarnir, tóbaksvarnir o.s.frv. Það er mikilvægt að marka skýra stefnu í forvörnum. Það er ekki nægilegt eins og gert hefur verið á þessu kjörtímabili að leggja verulega meira fjármagn til forvarna. Það þarf líka að samræma betur störf þeirra hópa sem vinna að forvörnum. Ég á von á því að innan tíðar verði lagt fram á þingi frv. til áfengis- og vímuefnavarna þar sem þessi samhæfing nær fram að ganga.

Gert er ráð fyrir í þeim tillögum sem fyrir liggja að tannlækningarnar flytjist á heilsugæsluna. Það er þannig úti á landi að heilsugæslan er með tannlækningar innan síns húsnæðis. Þar eru tannlækningar alls ekkert ódýrari þó þær séu inni í heilsugæslustöðinni heldur en í almennum praxís. Ég þyrfti því að fá aðeins betri skýringar á því hvað þarna er átt við.

Hvað það varðar að mæla árangur af slysavörnum, þá hefur það verið gert. Það sýnir sig að með átaki í slysavörnum barna höfum við náð verulegum árangri, bæði hvað varðar varnir gegn eitrunum og í almennum slysavörnum.

Hér hefur mikið verið rætt um öldrunarmálin, eðlilega, og ég vil taka það fram að á fjárlögum næsta árs verður gert verulegt átak varðandi öldrunarmálin. Í Suður-Mjóddinni verður opnað nýtt hjúkrunarheimili og er ætlað til þess fjármagn af rekstri í kringum 86 millj. kr. Það er verið að gera átak í starfsemi Landakotsspítala sem er fyrir aldraða. (Forseti hringir.) Og af því tíma mínum er lokið þá vil ég að lokum segja varðandi börn og réttindi barna að unnið er að því að byggja upp barnaspítala. Og eins og fram hefur komið erum við selja eignir þannig að við getum farið af stað með þá framkvæmd.