Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:34:10 (1673)

1996-12-02 18:34:10# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:34]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur að Alþfl. hefur hopað í tilvísanamálinu og talar nú um sjúkrasamlag. Þó svo að við kæmum á sjúkrasamlagi þá kemur það ekki beint tilvísanakerfinu við þannig að ég heyri að Alþfl. er ekki lengur með tilvísanakerfið á sinni stefnuskrá. Ég sakna þess ekkert sérstaklega vegna þess að ég hef áhuga á að koma á valfrjálsu stýrikerfi.

Hvað það varðar að ekkert átak hafi verið gert í biðlistamálum þá minni ég á þær 40 milljónir sem sérstaklega voru settar í hjartaaðgerðir á Landspítalanum á sl. ári til þess að létta á biðlistunum. Og sem betur fer þurfa ekki allir sem fara í hjartaþræðingu að fara í hjartaaðgerð.

Um þá miklu framsækni sem gigtarlæknar hafa sýnt á Landspítalanum þá er það alveg rétt. En fyrir þremur árum lagði sú sem hér stendur fram þáltill. um rannsóknir á gigtarsjúkdómum sem var samþykkt hér á Alþingi og eftir henni hefur verið unnið.

Ég ætla að minna á nokkur atriði sem við höfum náð geysilegum árangri í bara á þessu ári. Við höfum enduruppbyggt gjörgæsludeild á Landspítalanum. Opnuð hefur verið ný glasafrjóvgunardeild og ný göngudeild krabbameinssjúklinga. Rannsóknastofan sem hér var áður getið. Hjartaaðgerðir barna verða fluttar heim. Þannig er ágætt að minna á það í þessari umræðu að sem betur fer erum við á réttri leið.