Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:36:08 (1674)

1996-12-02 18:36:08# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:36]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur að stýrikerfi í heilbrigðisþjónustunni. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. heilbrrh. sé það kunnugt að það eru margar leiðir til að stýra aðgengi og notkun landsmanna að heilbrigðiskerfinu. Eitt er tilvísanakerfið. Það er bara ein aðferð af mörgum. Alþfl. hefur sett skýra stefnu fram um það að við teljum að hag sjúklinga væri best borgið með því að koma á öflugu sjúkrasamlagi þannig að fólk geti tekið upp þann gamla hátt sem var á hér áður að greiða sín sjúkrasamlagsgjöld og hafa þar með áskilið sér rétt til þess að njóta þjónustunnar í stað þess sem nú gildir að við greiðum þessa fjármuni í skatta og sjáum aldrei hvert framlag okkar rennur. Þetta hefur ekkert að gera með að hopa eða ekki hopa. Þetta er bara ný og nánari útfærsla á sama peningi og ég vona að hæstv. heilbrrh. kunni að meta það.