Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:40:26 (1679)

1996-12-02 18:40:26# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:40]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil fara yfir í lok þessarar umræðu sem ég þakka fyrir og tel að hafi verið gagnleg. Hæstv. ráðherra sagði áðan að þessi tillaga kæmi að góðu gagni og félli vel að þeirri endurskoðun sem nú fer fram á vegum ráðherra. Ég fagna því og tel mig þá mega líta svo á að ráðherrann geti fallist á mörg þau atriði sem sett eru fram í tillögunni. En hvenær lýkur þessari endurskoðun? Það væri fróðlegt að fá það fram og gagnlegt fyrir nefndina sem fær þetta mál til umfjöllunar að vita um hvenær áformað er að þeirri endurskoðun, sem ráðherra nefndi áðan, ljúki.

Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með það að hæstv. ráðherra telji að sveitarfélögin séu ekki í stakk búin til þess að taka alveg yfir heilsugæsluna. Ég kýs að skilja orð ráðherrans svo að hún telji eðlilegt að heilsugæslan fari yfir til sveitarfélaganna en þau séu ekki í stakk búin til þess. Það leiðir hugann að stærra máli sem er sameining sveitarfélaga. Vafalaust eiga lítil sveitarfélög í erfiðleikum með að taka yfir heilsugæsluna en þá mætti hugsa sér að gera það í samvinnu fleiri sveitarfélaga, að það sé samvinnuverkefni. Það er ekki alltaf hægt að vísa þessu í þennan farveg vegna þess að sum sveitarfélög geta mjög auðveldlega tekið yfir heilsugæsluna, tekið yfir öldrunarþjónustuna og þá er mjög slæmt að þau þurfi að líða fyrir það að ekki gangi nægilega hratt að sameina sveitarfélögin.

Er það líka skoðun ráðherrans varðandi öldrunarþjónustuna, sem hér er lagt til, að hún verði einnig að bíða þar til sveitarfélögin hafa stækkað og eru orðin stærri einingar til að taka við þessum verkefnum? Ég er sannfærð um að það er mikill sparnaður fólginn í því að öldrunarþjónustan sé á einni hendi. Það er ekkert vit í því að heimahjúkrun sé hjá ríkinu og heimaþjónustan sé hjá sveitarfélögunum o.s.frv. Ég held að þetta leiði til mikils óhagræðis og leiði jafnvel til þess að sveitarfélögin séu kannski að bjóða öldruðum upp á úrræði sem eru þá hjá sveitarfélögunum sem þau gætu ósköp vel sinnt ef þetta væri allt á þeirra hendi og þau hefðu öll getað lagt mat á alla þá þjónustuþætti sem eru til boða fyrir aldraða. Ég held að það sé t.d. ein skýringin á því af hverju okkar heimaþjónusta og heimahjúkrun er kannski vanmegnugri heldur en víða annars staðar að þetta er með þessum hætti. Þess vegna spyr ég sérstaklega um öldrunarþjónustuna. Ráðherrann hefur svarað þessu varðandi heilsugæsluna.

Um biðlistana kom það fram áðan að erfitt sé að setja reglur um hámarksbiðtíma. Ég treysti því að ráðherrann skoði þetta ögn betur áður en endanlega verður afráðið hvað verði gert til þess að stytta þessa biðlista. Ég er ekki svo sannfærð um að það sé rétt sem hæstv. ráðherra segir, að þetta hafi gefist illa þar sem það hafi verið reynt. Við erum ekki að ræða um það að setja lög um þetta, það er bara verið að tala um að móta reglur sem vinna má eftir til þess að stytta biðlistana. Ég held að þau rök, sem t.d. eru sett fram í tillögunni fyrir því að setja slíkar reglur, séu mjög góð og gild. Það er mjög dýrt fyrir heimili sem lenda í því að framfærandi þarf að bíða í kannski eitt, tvö eða þrjú ár eftir að komast í aðgerð. Við vitum að mörg heimili eru þannig stödd að það má ekkert fjárhagslega út af bera til þess að fjármálin fari ekki úr skorðum og bara það getur stefnt heimili í gjaldþrot ef framfærandi heimilis er frá um langan tíma vegna þess að hann er að bíða eftir aðgerð. Ef við lítum bara á þátt ríkisins, hvort þetta sé yfirleitt nokkur sparnaður fyrir ríkið, þá held að það sé nokkuð ljóst að svo er ekki vegna þess að það kallar kannski á aukin lyfjaútgjöld á meðan beðið er eftir aðgerð. Aðgerðin verður hugsanlega umfangsmeiri, erfiðari og dýrari þegar að henni kemur þannig að þar er einungis verið að fresta útgjöldum sem aðgerðinni fylgja og sem jafnvel getur líka orðið dýrari ef um langa bið er að ræða. Sjúklingar þurfa ef til vill líka á vistunarplássum að halda á meðan verið er að bíða eftir aðgerð. Þegar allt þetta er talið, herra forseti, leyfi ég mér að draga í efa, ef við tölum bara um ríkið, að þessir löngu biðlistar séu nokkur sparnaður fyrir ríkið. Það gefur auga leið að þetta er mjög bagalegt fyrir heimilin í landinu. Ég vænti þess að á þessu máli verði tekið.

[18:45]

Ég spyr ráðherrann um biðlistana sem ég hef miklar áhyggjur af. Stjórn Ríkisspítalanna, ef ég skil málið rétt, hefur ákveðið að fara út í aðgerðir til að stytta bið eftir bæklunaraðgerðum. Fá Ríkisspítalarnir aukið viðbótarfé á þessu ári til að grynnka á biðlistum, mun þetta koma niður á annarri þjónustu eða mun þetta aðeins verða til þess að auka hallann hjá Ríkisspítölunum?

Því hefur verið haldið fram og að því ég best veit ekki verið mótmælt af hæstv. ráðherra að bara í fjárlög næsta árs eins og fjárlagafrv. lítur út núna, vanti um 1 milljarð kr. til að stóru sjúkrahúsin geti haldið uppi svipaðri þjónustu á næsta ári og þau nú gera. Þess vegna er ástæða til að spyrja um það, af því ég veit að ráðherrann lýsti sig í umræðunum sammála því sem stjórn spítalans var að gera, hvort til þess sé þá tryggt fjármagn.

Ég vil líka ræða um barnaspítalann sem ég tel mjög stórt og mikilvægt verkefni. Því var ýtt úr vör í ráðherratíð hv. 9. þm. Reykn., Guðmundar Árna Stefánssonar. Hvers má vænta í því efni varðandi barnaspítalann? Verður tryggt fjármagn í barnaspítalann á næsta ári eða er það ef til vill á árinu 1998? Hafa verið teknar ákvarðanir sem hægt er að treysta í því sambandi? Hér er um stórt mál að ræða og ég veit að margir í heilbrigðisþjónustunni eru sammála um að þetta sé forgangsverkefni í framkvæmdum í heilbrigðisþjónustunni.

Varðandi tannlækningarnar sem ráðherrann ræddi hér um og lagt er til að verði hluti af grunnþjónustunni --- ráðherrann sagðist kannski ekki ná því að þetta mundi leiða til minni útgjalda heimilanna --- er lagt til í tillögunni á lið 2. g, með leyfi forseta:

,,Stefna ber að því að tannheilbrigðisþjónusta verði boðin á heilsugæslustöðvum til jafns við aðra grunnheilbrigðisþjónustu...`` Hún er það ekki alls staðar og það sem er lykilatriði: ,,sem þar er veitt og á sömu kjörum``, eins og önnur þjónusta heilsugæslunnar.

Fyrir grunntannlæknaþjónustu yrði því bara fast gjald eins og núna er í heilsugæslunni og það yrði greitt líkt og greitt er fyrir aðra þjónustu á heilsugæslustöðvum. Það er lykilatriði í þessu.

Mér fannst ráðherrann ekki svara nægilega skýrt varðandi þá rannsóknastofnun sem hér er lögð til og vitnar í góða, merka stofnun sem er Rannsóknastofa í gigtarsjúkdómum. En við erum í þessari tillögu að tala um öðruvísi rannsóknastofnun, þ.e. að komið verði á fót rannsóknastofnun heilbrigðismála sem á að starfa í tengslum við háskóla og aðra aðila að heilbrigðis- og faraldsfræðirannsóknum, sem og forvörnum og samræmingu þeirra sem ég tel vera lykilatriði þannig að þetta er hugsað allt öðruvísi en sú rannsóknastofa sem ráðherrann vitnaði í.

Tvö atriði fundust mér heldur ekki koma nægilega skýrt fram í máli ráðherrans, þ.e. afstöðu hennar til þess að settir verði opinberir staðlar eða viðmið um gæði heilbrigðisþjónustunnar. Ég spyr aftur um afstöðu ráðherrans til þess. Er það kannski eitt af því sem kemur inn í þessari heildarendurskoðun sem ráðherrann er að vitna í og gæti hún upplýst þingheim eitthvað nánar um það atriði sem ég tel mjög mikilvægt.

Við leggjum áherslu á nýjungar í lækningartækjum og lyfjum í þessari þáltill. Skildi ég ráðherrann rétt að ráðherrann sé sammála því að mótuð verði samræmd stefna um kaup á nýjum lækningatækjum og lyfjum sem taki mið af þeirri þróun sem hefur orðið í hátækni og nýjum lyfjum til að meðhöndla og fyrirbyggja sjúkdóma, sem leitt getur til aukinna afkasta og lækkunar kostnaðar vegna meðferðar við sjúkdómum.

Ég tal að þetta sé mjög mikilvægt og ég tel að við séum kannski á margan hátt töluvert á eftir öðrum þjóðum í endurnýjun á lækningartækjum okkar. Ég hef af því áhyggjur að ef ekki verður brugðist við og breytt um stefnu og sjúkrahúsunum gert kleift að fylgjast með þessari þróun, að það getur stefnt í óefni svo ég taki ekki fastar til orða úr þessum ræðustól þó það sé komið fram á varir mínar. Þess vegna verðum við að hafa einhverja stefnu sem hægt er að treysta og hægt er að fylgja um nýjungar í lækningartækjum og lyfjum. Mér finnst þetta það mikill liður í nýrri stefnumörkun líkt og staðlarnir, líkt og biðlistinn, að ég vil árétta það hér í lokin.

Ég vil, virðulegi forseti, bara rétt í lokin nefna, af því að mér gafst ekki tími til þess í framsögu minni, að við leggjum mjög mikla áherslu í þessari tillögu og veit ég að hæstv. ráðherra tekur undir það, á símenntun heilbrigðisstarfsfólks. Það er nauðsynlegt í nýrri stefnumörkun að leggja áherslu á símenntun heilbrigðisstarfsfólks og eflingu vísindastarfsemi og rannsókna í heilbrigðismálum. Þetta er áréttað mjög í þessari tillögu.

Ég skal ekki tefja þessa umræðu lengur. Ég vil þó nefna að ég held að það sé mjög mikilvægt sem fram kemur í þessari tillögu --- ég veit að hæstv. ráðherra er að vinna að því og hæstv. ráðherra hefur nefnt það þegar heilbrigðismálin ber hér á góma --- og það er að ný stefnumörkun taki til skipulagsmála sjúkrahúsanna og lögð verði áhersla á og viðurkennd verði í reynd sérstaða og hlutverk aðalaðgerðahúsa landsmanna. En það er alveg ljóst að fjárveitingar hafa alls ekki tekið mið af því eða verið í samræmi við þá þjónustu sem stóru sjúkrahúsin veita eins og hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir kom inn á áðan. Það er mjög mikilvægt að hlutverk heilbrigðisstofnana verði skilgreint miklu nánar en nú er gert og það á við um þjónustusvið heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa, vistunarstofnana og sérfræðinga með eigin rekstur. Þar leggjum við til að unnið verði að einföldun, samhæfingu og sameiningu einstakra rekstrarþátta og þjónustu sjúkrahúsanna. Það skulu vera mín lokaorð að ég veit að þarna fara skoðanir okkar og ráðherrans saman sem vinnur að því máli. En ég ítreka þessar grundvallarspurningar, virðulegi forseti, sem ég beindi til ráðherrans.