Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 19:09:09 (1682)

1996-12-02 19:09:09# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[19:09]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk ekki alls kostar svar við spurningu minni til hæstv. heilbrrh. um málefni geðfatlaðra og geðsjúkra. Árið 1992 voru geðfötluðum tryggð lagaleg réttindi samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og lögð áhersla á að það þyrfti að samræma þjónustu við þá og byggja sérstaklega upp félagslega þjónustu. Lokanir geðdeilda hafa verið þessum sjúklingahópi þungbærar eins og öðrum sjúklingahópum en það er ekki síst vandamál að félagslega kerfið er ekki í stakk búið til að taka á móti þeim að lokinni sjúkrahúsdvöl. Það voru miklar væntingar bundnar við að átak sem lög um málefni fatlaðra boðuðu fyrir geðfatlaða mundi skila einmitt þessum árangri. Ég spurði ákveðinnar spurningar um það hvort einhver áform væru um það í ríkisstjórninni að uppfylla þær lagaskyldur sem eru samkvæmt lögum um málefni fatlaðra um að þessu átaksverkefni verði lokið. Ég er ekki viss um það, með allri virðingu fyrir nefndarskipan hæstv. heilbrrh., að sú nefnd muni koma með raunhæfar úrbætur fyrir geðfatlaða á skömmum tíma. Lagaleg réttindi þeirra eru mjög skýr. Það eina sem vantar er að þau verði uppfyllt.