Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 19:17:22 (1688)

1996-12-02 19:17:22# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[19:17]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að hún muni láta verkin tala varðandi barnaspítalann. En ég spyr ráðherrann: Telur ráðherrann sig ekki þurfa atbeina Alþingis til þess að hægt sé að hefja framkvæmdir við barnaspítalann á næsta ári? Ég held að atbeina fjárveitingavaldsins hljóti að þurfa til þess að ráðherranum sé það kleift. Við erum að sigla inn í 2. umr. fjárlaga. Ég hef ekki séð að gert sé ráð fyrir þessu í fjárlögum eða í heimildargreinum um 6. gr. Og þá spyr ég: Telur ráðherrann að fjármögnunin sé tryggð í 6. gr.? Mér finnst þetta þurfa að vera skýrt, hæstv. ráðherra, og mér finnst alveg óþarfi, herra forseti, af hæstv. ráðherra að vera með útúrsnúning þegar til hennar er beint eðlilegum spurningum, t.d. varðandi gæðastjórnunina sem ég er alveg hissa á að ráðherrann hafi ekki áttað sig á hvað er mikilvæg. Mér finnst þetta mjög ítarlega skýrt í þessari tillögu ef ráðherrann hefur lesið þetta. Þetta er eitt af þeim mikilvægustu tækjum sem við höfum til þess að tryggja hér góða heilbrigðisþjónustu.

Varðandi nýjungar í lækningatækjum og lyfjum, þá er ekki alltaf hægt að vísa til þess --- sem mér finnst ráðherrann gera allt of mikið af, alveg sama hvað um er spurt --- að þetta komi þegar búið sé að samhæfa rekstur sjúkrahúsanna. Það er ekki hægt að sleppa svona einfaldlega frá því að svara skýrum spurningum sem til hennar er beint. Það er brýnt að móta samræmda stefnu varðandi kaup á dýrum lækningatækjum og lyfjum óháð því hvernig til tekst með samhæfingu á rekstri.

Ég geri ekki fleiri tilraunir til að spyrja ráðherrann, herra forseti, nema varðandi barnaspítalann. Telur ráðherrann að svo sé frá málum gengið í fjárlagafrv. nú að ráðherranum sé gefið grænt ljós á fjármögnun á barnaspítala á næsta ári? Ég ítreka spurningu mína, herra forseti. Og ég verð að segja það að ef ráðherrann ætlar bara að sitja fast í sínu sæti og svara ekki þeirri lokaspurningu, þá finnst mér það dónaskapur af hæstv. ráðherra.