Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:56:14 (1701)

1996-12-03 13:56:14# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:56]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Það er ávinningur af því fyrir Íslendinga að taka þátt í alþjóðlegum skólarannsóknum. Niðurstöðurnar af kunnáttu grunnskólanemenda í stærðfræði og náttúrufræðigreinum koma ekki á óvart. Þær staðfesta það sem margir hafa haldið fram að raungreinakennslan hjá okkur væri í ólestri. Staða Íslands er óviðunandi. Við eigum að taka niðurstöðurnar alvarlega og bregðast við með því að beina kröftum okkar að því að bæta menntakerfið, gera meiri kröfur til árangurs og leggja þá sérstaka áherslu á raungreinar.

Stærðfræði er ein af undirstöðugreinunum í öllu námi og það skiptir auðvitað höfuðmáli fyrir þjóð sem leggur áherslu á menntun, rannsóknir, efnahagslegan árangur og velferð að vel sé að verki staðið í stærðfræðikennslu. Það er unnt að bregðast strax við og leggja þá sérstaka áherslu á stærðfræði. Það mætti t.d. efna til stærðfræðikeppni í grunnskólum og sumarnámskeiða í stærðfræði.

Margt sker í augu þegar rannsóknin er rýnd, t.d. hvað algebran kemur illa út og hve framfarir íslenskra nemenda eru litlar milli bekkja. Einnig vekur athygli að minni tíma er varið í próf og yfirferð þeirra hér en hjá öðrum þjóðum. Einungis 1% okkar nemenda eru í hópi þeirra 10% nemenda sem ná bestum árangri í stærðfræði. Í náttúrufræðigreinunum erum við nokkuð skárri. Ástæður fyrir slökum árangri okkar eru eflaust margar og margvíslegar og á þessari stundu er tæpast hægt að fullyrða um eina fremur en aðra.

Brýnt er að vinna hratt úr niðurstöðum rannsóknarinnar og fara ofan í mörg atriði svo sem námsmat, menntun kennara, kennsluefni, aga og vinnubrögð, nýtingu fjármagns, röðun í bekki og viðhorf foreldra og samskipti þeirra við skólann.

Með nýrri lagasetningu um grunn- og framhaldsskóla er vinna þegar hafin við að bæta ástandið. Nú er unnið af krafti að endurskoðun aðalnámskrár en skýr markmið eru undirstaða í öllu skólastarfi. Rannsóknin er gott veganesti fyrir þá vinnu og herðir á henni.