Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:05:10 (1705)

1996-12-03 14:05:10# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:05]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða er hér hafin. Mér fannst hins vegar málflutningur hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og fjallgöngusamlíkingar hans ekki ákaflega upplýsandi í þessu samhengi. Ég tók eftir að hann lagði inn hjá mér persónulega alveg sérstaklega --- og ég vil kvitta fyrir það að ég tók eftir því innleggi. Mér fannst það hins vegar ekki mjög upplýsandi eða hjálpa mikið til við að taka á þessum málum. Því veruleikinn er nú einu sinni þannig samkvæmt mörgum hundruðum alþjóðlegra rannsókna að það að raða í bekki leysir ekki þau vandamál sem hér eru uppi. Það liggur fyrir. Þess vegna lýsi ég því yfir í tilefni af orðum hv. þm. að mér finnst ræða hans og þetta innlegg hans ekki hjálpa til heldur spilla fyrir vitrænni niðurstöðu í þessu alvarlega máli. Málið er alvarlegt og á því á að taka og fara skynsamlega og yfirvegað yfir það. Ég er að mörgu leyti sammála ýmsum sem hér hafa talað í þeim efnum. Ég held að við eigum að horfa til þess sem við gerum vel. Börnin okkar í skólum Íslands komu mjög vel út í þeirri alþjóðlegu lestrarrannsókn sem fór fram fyrir nokkrum árum og hæstv. menntmrh. nefndi. Ég held að við eigum líka að hafa það í huga að það er rík húmanísk hefð á Íslandi sem í raun bitnar á raungreinum og spurning hvort við þurfum ekki að horfast í augu við það og ef til vill að reyna að breyta því pínulítið. Ég tel að við eigum núna að láta reyna á vilja þingmanna til að taka á þessu máli með því, í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, að veita Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála fjármuni til að undirbúa víðtækt raungreinaátak þannig að við svörum þessari könnun tafarlaust með myndarlegum hætti bæði að því er varðar rannsóknir í þessari könnun og aðrar rannsóknir, að því er varðar Námsgagnastofnun og möguleika hennar, að því er varðar möguleika Kennaraháskólans sérstaklega og líka að því er varðar það sem er höfuðverkefni menntmrn., að stilla saman öll fræðsluyfirvöld á Íslandi í þessu efni því að við viljum taka á þessu máli. Um það eru allir sammála.