Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:10:00 (1707)

1996-12-03 14:10:00# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:10]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi skýrsla hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. En hann var líka harður dómur málshefjanda hér í upphafi umræðunnar. Hann gerði að umtalsefni skilningsleysi á rannsóknastörfum, vakti athygli á lélegum kjörum raungreinakennara, gömlu kennsluefni og meðalmennskukerfinu. Nú á að leita leiða til úrbóta og ég vara við því að varpa fyrir róða hugsun jafnaðar til náms. Ber að skilja hv. þm. þannig að hann vilji koma á skipulagi þar sem tossabekkir eru endurvaktir?

Við skulum halda því til haga í umræðunni sem nauðsynlegt er. Framlög til menntamála eru lægri hér en annars staðar. Skipulag skóla er víða bágborið, kennslumagn minna og skólaárið hefur verið að styttast ár frá ári. En ætli niðurstöður skýrslunnar sem við erum að ræða séu ekki vitnisburður um stærri og víðtækari vanda en eingöngu skólakerfisins? Við höfum verið að sjá mörg dæmi þess að undanförnu að erfiðleikar eru hjá fjölskyldum, þróunin hefur verið fjölskyldunum óhagstæð. Mikil vinna beggja foreldra og ákveðið los á börnum og ungmennum. Það væri sorgleg afgreiðsla á stóru máli ef niðurstaðan yrði eingöngu sú að sinna afburðanemendum og slökum nemendum betur. Það væri mikil einföldun. Ég tek undir það að Alþingi þarf að bregðast við í þessu máli bæði með framlögum til Rannsóknastofnunar menntamála, með því bregðast við í skólakerfinu og með stuðningi við fjölskyldurnar.