Skýrsla námsmanna um LÍN

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:42:24 (1719)

1996-12-03 14:42:24# 121. lþ. 33.96 fundur 123#B skýrsla námsmanna um LÍN# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:42]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að áhrif lagasetningarinnar einnar og sér um Lánasjóð ísl. námsmanna frá árinu 1992 séu ofmetin í þessari umræðu. Vilji Alþingis eins og hann birtist í frv. gerði ráð fyrir að framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna yrði á árinu 1992 rúmlega 2,3 milljarðar og hækkuðu í að verða 2,8 milljarðar á árinu 1996. Þróunin hefur orðið allt önnur. Það er því eðlilegt að spurt sé: Hvers vegna stöndum við frammi fyrir þessum veruleika úr því að vilji Alþingis stóð til annars? Því er til að svara að lögin kveða á um víðfeðmt framsal Alþingis á löggjafarvaldi til hæstv. menntmrh. og stjórnar LÍN. Að mínu mati eru lögin eins og óútfyllt ávísun í þessum efnum. Þó að það gefist ekki færi á því hér að fjalla um það leyfi ég mér að draga í efa að sum ákvæði þeirra standist ákvæði stjórnarskrár. Sem dæmi um þetta framsal má nefna 3. mgr. 3. gr. laganna, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn sjóðsins setur nánari ákvæði um úthlutun námslána.``

Með öðrum orðum, stjórn sjóðsins er falið að setja reglur um úthlutun námslána sem ráðherra staðfestir. Það eru einmitt þessar ákvarðanir stjórnar sjóðsins um þrengingu útlánareglna sem hafa haft mest áhrif á það að fjárþörf sjóðsins er ekki meiri en raun ber vitni. Lánþegum hefur fækkað og má nefna sem dæmi að fækkun lánþega LÍN erlendis nemur um það bil 30% á tímabilinu. Ég tel því eðlilegt að varpa fram þeirri spurningu í þessu samhengi, hvort löggjafinn hafi ekki vanrækt við setningu laganna þær skyldur sínar sem hann hefur að stjórnlögum, með því að flytja ákvörðunarvald frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar til starfsmanna stjórnsýslunnar. Að mínu mati ber að gjalda varhug við lagasetningu af þessu tagi.

Í þessu máli eigum við að líta til framtíðar en ekki fortíðar. Það leysir engan vanda að reyna að finna upp eða búa til blóraböggul í þessu máli. Kjarni málsins er sá að menntun er ekki aðeins fjárfesting fyrir einstaklinginn heldur þjóðfélagið í heild. Aukin menntun og þekking styrkir lífskjör þjóðarinnar og sjálfstæði, dregur úr stéttaskiptingu og skapar íslensku efnahagslífi möguleika til framtíðar til að standa sig í samkeppni við erlendar þjóðir. Það má rökstyðja það að á samdráttarskeiðið sé rétt að sporna við útgjöldum, einnig til menntamála. En í þeirri uppsveiflu sem íslenskt efnahagslíf virðist vera í nú ef marka má orð ráðamanna á það að vera forgangsverkefni að auka fjárfestingu í menntun landi og þjóð til heilla. Það er því tímabært að snúa af þessari braut og fyrsta skrefið í þá átt er að endurskoða lögin um LÍN.