Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:54:43 (1724)

1996-12-03 14:54:43# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:54]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins sem er stjfrv. Það er 180. mál þingsins og er að finna á þskj. 201. Þetta frv. er sett fram með svokölluðu bandormssniði því verið er að breyta tvennum lögum, annars vegar lögum um Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna og hins vegar um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna. Þess vegna er uppsetningin á frv. eins og hún er en mér er kunnugt um að starfsmenn þingsins ætla sér að laga þennan frumvarpstexta að núgildandi lögum fyrir hv. nefnd þannig að auðveldara sé fyrir nefndina að kynna sér þær breytingar sem er verið að leggja til að gerðar verði. Þær eru auðvitað mikilvægar og nauðsynlegt að hv. nefndarmenn kynni sér rækilega í hverju þessar breytingar eru fólgnar.

Með lagafrv. þessu er fyrirhugað að endurnýja löggjöf um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins en núgildandi lög eru að mestu leyti byggð á lögum nr. 101/1943 og því að stofni til meira en 50 ára gömul. Frv. tengist nýrri starfsmannastefnu sem ríkisstjórnin hefur sett sér og miðar að því að laga fyrirkomulag starfsmannahalds og launamála að breyttum aðstæðum. Markmið frv. er þó ekki síður að draga úr þeirri óvissu sem nú ríkir um fjárhag Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR, og Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna, LHK. Hún stafar af því að samkvæmt gildandi lögum ávinna ríkisstarfsmenn sér lífeyrisréttindi sem eru verulega umfram samanlagðar iðgjaldagreiðslur þeirra og ríkisins til sjóðsins. Að óbreyttum lögum verður ekki unnt að uppfylla skuldbindingar sjóðanna nema komandi kynslóðir taki á sig umtalsverðar skattahækkanir. Frv. miðar því að því að koma í veg fyrir að þessi vandi haldi áfram að stigmagnast. Það verði gert með því móti að allur áunninn lífeyrisréttur nýrra starfsmanna verði eftirleiðis fjármagnaður með hærri samtímagreiðslum iðgjalda frá launagreiðendum og launþegum. Þannig verði tryggt að eignir og skuldbindingar haldist jafnan í hendur.

Annað helsta markmið frv. er að færa lífeyriskerfi ríkisstarfsmanna nær því sem gildir fyrir flesta aðra launþega í landinu. Í meginatriðum verði þetta gert með því að reikna réttindaávinning nýrra starfsmanna og núverandi starfsmanna sem það kjósa miðað við stigakerfi líkt og hjá almennu lífeyrissjóðunum þannig að réttindin ráðist af iðgjaldagreiðslum sem inntar hafa verið af hendi. Þá verða lífeyrisiðgjöldin ekki aðeins greidd af föstum launum heldur einnig af öllum öðrum launum, svo sem yfirvinnu. Jafnframt verður fallið frá því að miða lífeyrisgreiðslur við laun eftirmanns lífeyrisþega þar sem þær mundu nú ráðast af meðallaunum sem iðgjöldin voru greidd af. Í þeirri breytingu felst einnig að lífeyrisbæturnar verða verðtryggðar með neysluvöruvísitölu í stað þess að fylgja launabreytingum hjá eftirmönnum. Loks fer fram nokkur tilfærsla á réttindum frá makalífeyri yfir í elli- og örorkulífeyri.

Þótt reglur um lífeyrisréttindin verði þannig hliðstæðar þeim sem gilda hjá almennum lífeyrissjóðum verða verðmæti þeirra eftir sem áður talsvert meiri. Það birtist m.a. í því að hlutfall ellilífeyris af heildarlaunum yfir starfsævina verður hærri hjá Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna auk þess sem ellilífeyrisaldur verður lægri. Fyrirhugaðar breytingar á lífeyriskerfi ríkisstarfsmanna byggja á þeirri meginforsendu að þegar á heildina er litið verði lífeyrisréttindi samkvæmt frv. sambærileg við þau sem ákvörðuð eru í núgildandi lögum. Úttekt tryggingafræðinga í fylgiskjali með frv. bendir til að sú forsenda geti staðist. Ég hvet hv. alþm. til að kynna sér sérstaklega fylgiskjalið þar sem tryggingafræðingarnir gera samanburð á réttindum í nýja og gamla kerfinu.

[15:00]

Frumvarpið gerir ráð fyrir að hið nýja fyrirkomulag lífeyrismála verði starfrækt sem sérstök A-deild í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og gildi fyrir alla þá sem hefja störf hjá ríkinu eftir að það verður að lögum. Eldra fyrirkomulagið verður fellt undir B-deild sjóðsins og verður nær óbreytt frá því sem nú gildir. Núverandi sjóðfélagar geta valið um að halda áfram að ávinna sér lífeyrisréttindi þar eða að færa sig yfir í nýja fyrirkomulagið, án þess að glata þeim réttindum sem þeir hafa þegar áunnið sér. Sama verður látið gilda um sjóðfélaga Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna.

Rétt er að benda á að frumvarpið tekur ekki á því misvægi sem er á milli núverandi eigna LSR og þeirra lífeyrisskuldbindinga sem þegar eru áfallnar nema að takmörkuðu leyti. Sama gildir um skuldbindingar sem eiga eftir að myndast vegna þeirra ríkisstarfsmanna sem kjósa að eiga áfram aðild að B-deild sjóðsins.

Með frv. er eins og áður hefur komið fram lagt til, að núverandi réttindakerfum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna verði lokað fyrir nýjum starfsmönnum. Samhliða verði settar reglur um nýtt réttindakerfi sem nýráðnir starfsmenn greiði iðgjald til.

Í frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verði skipt í tvær fjárhagslega sjálfstæðar deildir sem kallaðar verða A-deild og B-deild. Nýir sjóðfélagar og þeir sem kjósa að færa sig úr eldra kerfi í nýtt greiði til A-deildar sjóðsins. Þeir sem aðild eiga að sjóðnum við gildistöku laga samkvæmt þessu frumvarpi verði hins vegar í B-deild sjóðsins, svo fremi þeir kjósi ekki að færa sig yfir í A-deildina.

Réttindareglur í B-deildinni verða að meginstofni til óbreyttar frá gildandi lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þó verða gerðar nokkrar breytingar á lögum sjóðsins að því er varðar deildina. Breytingar þessar eiga það flestar sammerkt að þær eru til þess fallnar að taka á ýmsum framkvæmdarörðugleikum og túlkunarvandkvæðum sem komið hafa upp við framkvæmd núgildandi laga sjóðsins.

Helsta breyting, sem í frumvarpi þessu er lögð til á réttindum í B-deildinni, lýtur að framkvæmd svokallaðrar eftirmannsreglu. Lagt er til að í stað þess að miða lífeyri við þau laun sem á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er sjóðfélagi gegndi síðast verði breytingar á lífeyri miðaðar við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Lífeyrisréttur við upphaf lífeyristöku verði eftir sem áður reiknaður samkvæmt launum við starfslok. Á þennan hátt verður þessi breytta regla jafnverðmæt fyrir sjóðfélaga þegar á heildina er litið. Núverandi sjóðfélögum verði þó gefinn kostur á að velja um óbreytta eftirmannsreglu.

Samhliða þessum breytingum er lagt til að gerðar verði ráðstafanir til að styrkja B-deildina þannig að hún verði betur í stakk búin til þess að mæta skuldbindingum sínum. Í fyrsta lagi er lagt til að eftir að iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga falla niður samkvæmt 32 ára eða 95 ára reglu muni launagreiðendur greiða 10% iðgjald til sjóðsins. Samkvæmt gildandi lögum hefur iðgjald launagreiðanda hins vegar fallið niður samtímis niðurfellingu iðgjalda sjóðfélaga. Í öðru lagi er lagt til að sú grein í lögum sjóðsins verði felld brott sem kveður á um að sjóðurinn eigi að verja hluta af ávöxtun sinni til greiðslu á lífeyrishækkunum sem launagreiðendur væru ella krafðir um. Báðar þessar breytingar eru til að styrkja B-deildina. Gagnvart launagreiðendum hefur breytingin hins vegar fyrst og fremst þau áhrif að flýta greiðslum til sjóðsins.

Það er auðvitað galdurinn í þessu öllu saman að geta greitt inn meira samtímis af hálfu launagreiðendanna til þess að koma í veg fyrir þá uppsöfnun skuldbindinga sem ella verður og hefur orðið í tímans rás.

Eins og að framan greinir er með frumvarpinu lagt til að Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna verði lokað fyrir nýjum sjóðfélögum á sama hátt og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Nýráðnir hjúkrunarfræðingar fara samkvæmt frumvarpinu í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Jafnframt verður núverandi sjóðfélögum gefinn kostur á að flytja sig úr Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Samhliða þessu er lagt til að lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna verði breytt til samræmis við ákvæði sem gilda munu áfram um B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna hefur nánast ekkert verið breytt síðan árið 1965. Ýmsar breytingar, sem gerðar hafa verið á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins á undanförnum árum, hafa fram að þessu ekki verið gerðar til samræmis á lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna. Með þessu frumvarpi er lagt til að reglur sjóðanna verði samræmdar að þessu leyti.

Við gerð tillagna í frumvarpi þessu um nýtt réttindakerfi, þ.e. A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, var það meginsjónarmið haft að leiðarljósi að verðmæti réttinda í A-deild sjóðsins væru þegar á heildina er litið sambærileg réttindum samkvæmt núgildandi lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hins vegar eru reglur um A-deildina í verulegum atriðum frábrugðnar eldri réttindareglum.

Ég tel ástæðu í þessu sambandi enn á ný til að vísa til fylgiskjals II þar sem þessu er lýst m.a. í yfirliti þeirrar skýrslu sem skrifuð er af fulltrúum Talnakönnunar og Bjarna Guðmundssyni tryggingastærðfræðingi, en þar eru sýndar forsendur og útreikningar sem benda til þess að þessi niðurstaða sé rétt.

Þannig eru útreikningsreglur lífeyris í þessum tveimur kerfum mismunandi. Samkvæmt gildandi lögum fer lífeyrisréttur sjóðfélaga eftir því hversu lengi þeir hafa greitt iðgjald til sjóðsins, í hvaða starfshlutfalli þeir hafa verið á hverjum tíma og því starfi sem þeir gegna við starfslok. Hafi þeir fyrr á iðgjaldagreiðslutíma sínum verið í hærra launuðu starfi en því sem þeir gegndu síðast eru lífeyrisgreiðslur reiknaðar samkvæmt því starfi, enda hafi viðkomandi gegnt því í a.m.k. í 10 ár. Eftir að taka lífeyris hefst taka lífeyrisgreiðslur síðan þeim breytingum, sem verða á launum fyrir viðmiðunarstarf.

Eins og heyra má á þessu er hér ekki um raunverulegan lífeyrissjóð í venjulegum skilningi að ræða heldur kannski frekar eftirlaunasjóð þar sem eftirlaunin taka mið af launum eftirmanns þess sem lætur af starfi.

Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að lífeyrisréttur í A-deild verði reiknaður eftir stigakerfi, þar sem réttinda\-ávinningur ársins fari eftir fjárhæð iðgjalda á hverjum tíma. Eftir að taka lífeyris hefst er síðan lagt til að hann breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs eins og gerist hjá öðrum sjóðum. Samhliða þessari breytingu er lagt til að sjóðfélagar í A-deild greiði iðgjald af öllum launum alla starfsævi sína.

Í frumvarpinu er lagt til að réttur til elli-, örorku- og makalífeyris ásamt rétti til barnalífeyris verði ákveðinn í lögum sjóðsins. Jafnframt er iðgjaldahluti launþega lögbundinn 4% samkvæmt frumvarpinu. Hins vegar er lagt til að iðgjald launagreiðenda verði breytilegt og endurskoðað árlega. Samkvæmt frumvarpinu á iðgjald launagreiðenda á hverjum tíma að vera við það miðað að iðgjöld til sjóðsins dugi til að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu er lagt til að iðgjaldaprósenta launagreiðenda --- þeir eru fleiri en einn og ríkið sífellt að verða minni og minni hluti þeirra --- verði 11,5% af heildarlaunum sjóðfélaga á árinu 1997. Með greiðslu iðgjalda samkvæmt þessu hafa launagreiðendur þá staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart sjóðnum.

Nokkur umræða hefur átt sér stað um rekstrarábyrgðina og meira að segja hefur því verið haldið fram að verið sé að hverfa frá rekstrarábyrgð á sjóðnum, að verið sé að leggja á ríkið aukna rekstrarábyrgð á sjóðnum. Þetta er auðvitað ekki rétt því ef eitthvað er þá er rekstrarábyrgð sjóðsins aukin stórlega, a.m.k. miðað við það sem nú er. Það er t.d. um það fullt samkomulag að eignir sjóðsins verði ávaxtaðar eins og gerist hjá öðrum lífeyrissjóðum og það er fyrirhugað að staðfesta það í samþykktum sjóðsins. Því til viðbótar verða sömu vísitöluviðmiðanir notaðar á eignir og skuldbindingar um leið og horfið verður frá svokallaðri eftirmannsreglu. Þannig má halda því fram ef eitthvað er að það sé verið að færa meiri ábyrgð yfir á sjóðinn frá ríkinu þótt vissulega sé það svo að ríkið beri að lokum eins og hingað til, endanlega ábyrgð. Það verður að segjast eins og er að það var ekki samningsgrundvöllur fyrir því á þessu stigi. En með því að fara þá leið sem hér er valin má gera ráð fyrir því að á síðari stigum verði auðveldara að semja um slíkt þannig að sjóðurinn verði sambærilegur í alla staði öðrum sjóðum þótt hjá því verði að sjálfsögðu ekki komist að viðurkenna að í gegnum tíðina hefur það verið svo að sjóðurinn er mun verðmætari en aðrir sjóðir. Eins og kemur fram má áætla að verðmæti lífeyristrygginga sjóðsins séu 55% meiri en hjá öðrum sjóðum. Það skýrist með því að greitt er 15,5% af launum í stað 10% venjulegast hjá öðrum sjóðum. Það er ekki neitt nýtt. Það eru hlutir sem hafa verið í gangi í mörg undanfarin ár og það er ekki verið að gera neinar breytingar. Það er fyrst og fremst verið að gera þetta gagnsærra þannig að það sé ljóst hvað þarf að greiða inn samtímis til að menn haldi þeim réttindum sem þeir hafa fengið í dag. Réttindaaukningin sem verður hins vegar nú er fólgin í því að starfsmenn leggja 4% af launum sem þeir fá fyrir yfirvinnu, til hliðar en það hafa þeir ekki gert hingað til. Það er að sjálfsögðu þeirra eign og það er fagnaðarefni að þar verður til sparnaður sem ég held að sé hagkvæmur fyrir þjóðfélagið og það veitir auðvitað meiri réttindi en áður enda er þar um að ræða ráðstöfun á fjármagni sem er af hreinum launum launþegans og kemur ríkinu að sjálfsögðu lítið við.

Þessu skaut ég inn vegna þess að nokkuð hefur borið á því hjá sumum, meira að segja þeim sem ég veit að hv. þm. hafa skammað mig mest fyrir að vera fulltrúi fyrir --- síðast þegar ég var í ræðustólnum að ræða önnur mál stóð hver hv. þm. upp á fætur öðrum og sagði að ég væri fulltrúi ákveðinna afla í þjóðfélaginu, nánar tiltekið Vinnuveitendasambandsins. En nú er ég að vitna til þeirra og sýnir þetta kannski ágæta vel að sá sem hér stendur er ekki alltaf fulltrúi sömu aflanna í þjóðfélaginu eins og sumir hv. stjórnarandstæðingar vilja vera láta. Vona ég að ræður þeirra breytist eitthvað í þessari umræðu frá því sem var í umræðunni sem við áttum hér fyrir hlé sem varð vegna nefndastarfa í þinginu. (SJS: Ráðherrann er fjölhæfur.) Bregður sér í alla kvikinda líki, sá ég á þingmanninum að hann vildi sagt hafa, virðulegi forseti.

Í frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á útreikningsreglum elli-, örorku- og makalífeyris hjá A-deildinni miðað við núgildandi lög sjóðsins. Að hluta til eru þessar breytingar til komnar vegna útreiknings samkvæmt stigakerfi, en að hluta til er um tilfærslu á milli einstakra tegunda lífeyris að ræða. Þannig má almennt segja að réttur til elli- og örorkulífeyris sé aukinn samkvæmt frumvarpinu, en á móti dregið úr makalífeyrisréttindum. Fyrir því eru fyrst og fremst tryggingafræðileg rök.

Á undanförnum áratugum hafa orðið miklar breytingar á starfsemi lífeyrissjóða, ýmist í kjölfar lagasetningar um lífeyrismál eða vegna breytinga á lögum og reglugerðum einstakra lífeyrissjóða. Mikil breyting hefur einnig orðið hjá lífeyrissjóðnum í fjárhagslegum efnum og á starfsumhverfi. Þá hefur á síðustu árum verið tekinn upp sá háttur að gjaldfæra og skuldfæra lífeyrisskuldbindingar í reikningum opinberra aðila, fyrst og fremst ríkisins þó en einnig ríkisfyrirtækja. Þrátt fyrir þetta hafa þó litlar breytingar verið gerðar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna á undanförnum árum.

Samkvæmt gildandi lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna hvílir sú ábyrgð á launagreiðendum sem tryggt hafa starfsmenn sína í sjóðunum að endurgreiða lífeyrissjóðunum hluta af lífeyrisgreiðslum. Framlag launagreiðenda samkvæmt þessu fer eftir hækkunum, sem verða á lífeyrisgreiðslum og hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eftir tekjum sem sjóðurinn hefur af skuldabréfum sem keypt hafa verið af ríkinu.

Vegna þessa hvíla verulegar skuldbindingar á ríkissjóði og öðrum launagreiðendum sem greitt hafa iðgjöld til þessara sjóða. Samkvæmt ársreikningi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir árið 1995 voru skuldbindingar alls metnar vera 123 milljarðar króna ef miðað var við 2% ávöxtun umfram launahækkanir. Í efnahagsreikningi sjóðsins kemur hins vegar fram að bókfærðar eignir voru á sama tíma 22,2 milljarðar kr., en samkvæmt endurmati voru eignirnar 24,7 milljarðar króna eða 20% af skuldbindingum reiknað á þessum grunni. Það skal tekið fram strax að það hefur auðvitað úrslitaþýðingu hvaða upphæð kemur út úr dæminu eftir því hver ávöxtunin verður. Auðvitað er þessi tala afskaplega næm fyrir vaxtabreytingum í framtíðinni. Það skiptir t.d. tugum milljarða hvort ávöxtunin breytist um 0,5% til eða frá.

[15:15]

Samkvæmt ársreikningi Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna fyrir árið 1995 voru skuldbindingar sjóðsins metnar vera 13,4 milljarðar króna ef miðað var við 2% ávöxtun umfram launahækkanir. Samkvæmt efnahagsreikningi sjóðsins voru bókfærðar eignir á sama tíma 3,5 milljarðar króna, en samkvæmt endurmati voru eignirnar 4 milljarðar króna eða u.þ.b. 30% á þennan mælikvarða.

Við skoðun á þessum fjárhæðum eigna og skuldbindinga lífeyrissjóðanna verður að líta til þess að við mat á eignum sjóðsins hefur ekki verið tekið tillit til krafna sjóðsins á hendur launagreiðendum um að þeir endurgreiði lífeyrissjóðnum í framtíðinni hluta af lífeyrisgreiðslum. Þó svo launagreiðendur hafi á undanförnum árum í auknu mæli tekið upp þá reglu að bókfæra skuldbindingar sínar í ársreikningum, eins og t.d. er gert í ríkisreikningi, hafa Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna og Lífeyrisjóður hjúkrunarkvenna ekki fært þessar kröfur til eignar í sínum reikningum.

Eins og að framan greinir fer greiðsla launagreiðenda á hverjum tíma vegna þessara skuldbindinga annars vegar eftir þeim hækkunum sem verða á lífeyrisgreiðslum og hins vegar eftir tekjum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins af skuldabréfum sem keypt hafa verið af ríkinu. Greiðsla launagreiðenda á hverju ári umfram iðgjaldagreiðslu fer því hvorki eftir raunverulegri þörf sjóðanna fyrir fé til greiðslu lífeyris né heldur eftir þeim skuldbindingum sem myndast hjá sjóðunum á hverjum tíma.

Þær skuldbindingar, sem rætt er um hér að framan, hvíla að hluta til á ríkissjóði vegna núverandi og fyrrverandi starfsmanna hjá A-hluta ríkisstofnunum, að hluta til hjá B-hluta ríkisstofnunum og að hluta til hjá ýmsum öðrum launagreiðendum sem fengið hafa aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna samkvæmt heimild í lögum sjóðanna þar að lútandi. Meðal síðastgreindu launagreiðendanna má nefna rúmlega 50 sveitarfélög, nokkur samtök sveitarfélaga, stéttarfélög, líknarfélög, sjálfseignarstofnanir o.fl. Á öllum þessum launagreiðendum hvíla verulegar skuldbindingar gagnvart sjóðunum.

Það er ástæða til þess að benda á þetta og reyndar var gerð úttekt á sjóðnum á sínum tíma í vor, sem ekki er birt sem fylgiskjal en nefndin getur auðvitað fengið aðgang að, þar sem farið var mjög rækilega yfir hvernig staða sjóðsins var.

Eftir flutning grunnskólans til sveitarfélaganna hefur öðrum launagreiðendum en ríkissjóði, sem greiða iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fjölgað verulega. Sú breyting undirstrikar því enn frekar nauðsyn þess að breyta reglum um ábyrgð launagreiðenda á skuldbindingum sjóðsins.

Mér er sagt að það séu u.þ.b. 3.700 grunnskólakennarar sem fara þá úr ábyrgð ríkisins, þ.e. frá þessum tímapunkti. Auðvitað ber ríkið ábyrgð á þeim hluta sem nú þegar eru orðnir. Starfsmenn Pósts og síma eru 2.000 og ekki ljóst hvar þeir lenda. Eftir næstu áramót, þegar þessir aðilar hverfa úr ábyrgð ríkisins, þá verða einungis 50--55% af rúmlega 21.000 iðgjaldagreiðendum til sjóðsins starfsmenn hjá ríkinu. Með öðrum orðum verða 45--50% virkra sjóðfélaga starfsmenn annarra launagreiðenda en ríkissjóðs. Það er mikilvægt að þetta komi fram því þetta undirstrikar nauðsynina á því að breyta lögunum til þess að aðrir launagreiðendur en ríkið geti greitt inn samtímis og því farið að safna upp í þessum sjóð og komið í veg fyrir skuldbindingaupphleðslu.

Þegar gerð hefur verið breyting á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga hafa iðulega komið upp vandkvæði vegna gildandi reglna um útreikning lífeyris. Til dæmis komu þau berlega í ljós við verkaskipti sem urðu á árunum 1990 og 1991 samkvæmt lögum nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, og lögum nr. 75/1990, um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu. Ýmsum spurningum, sem fram komu um lífeyrisréttindi starfsfólks við þau verkaskipti, er í raun enn ósvarað.

Samsvarandi vandamál hafa komið upp í tengslum við einkavæðingu og verkefnaflutning til einkaaðila. Einstaklingar, sem skipta um starf, koma til starfa hjá ríkinu eða hefja starf hjá öðrum launagreiðanda eftir að hafa unnið hjá ríkinu, hafa einnig orðið fyrir óþægindum og tapað eða misst af réttindum.

Verði þetta frv. samþykkt auðveldar það allar tilfærslur milli ríkis og annarra aðila.

Loks má benda á erfiðleika við túlkun á svokallaðri eftirmannsreglu. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna gildir sú regla að lífeyrisréttur sjóðfélaga er reiknaður sem tiltekinn hundraðshluti af launum sem greidd eru fyrir það starf, sem sjóðfélagi gegndi síðast. Eftir að taka lífeyris hefst fylgja lífeyrisgreiðslur þeim breytingum sem verða á launum fyrir þetta tiltekna starf. Lífeyrisgreiðslur breytast þannig í hlutfalli við breytingar á launum eftirmanna í starfi.

Þessi regla er mjög erfið í framkvæmd og í raun illframkvæmanleg. Störf breytast og verkefni launagreiðenda breytast. Gerðar eru sífellt meiri kröfur til manna í eftirmannsstörfunum sem skekkja grundvöllinn. Í mörgum tilfellum er því erfitt að segja til um hver sé eftirmaður viðkomandi lífeyrisþega. Þá er samkvæmt verklagsreglum lífeyrissjóðanna leitast við að láta lífeyrisgreiðslur fylgja launaþróun hliðstæðra starfa. En slíkt mat verður alltaf erfitt í framkvæmd.

Ég hef nú minnst á nokkrar ástæður þess að nauðsynlegt er að breyta gildandi lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna. Nánar verður fjallað um þessi atriði í greinargerð með frv.

Ég vil þó áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, nefna það að forsendur fyrir fjármögnun á lífeyrisréttindum grunnskólakennara og skólastjórnenda hafa breyst nokkuð frá því gengið var frá samkomulagi við sveitarfélög um þau atriði sl. sumar. Skýrist það af því að þau frumvarpsdrög sem þá var miðað við gerðu ráð fyrir að breytingar á lögum um LSR yrðu með öðrum hætti en stefnt er að með þessu frv. Þar má t.d. nefna að ekki var gert ráð fyrir að hluti sjóðfélaga gæti áfram átt aðild að núverandi lífeyriskerfi og að iðgjaldaþörf var metin miðað við 5,5% raunvexti í stað 3,5% nú. Að teknu tilliti til breyttra forsendna er nú miðað við að iðgjöld sveitarfélaga vegna þessara starfsmanna verði 15,5% af föstum launum í stað 6% áður til þess að þau standi að fullu undir áunnum réttindum með samtímagreiðslum. Talið er að færa þurfi nærri 380 millj. kr. úr tekjuskatti yfir í útsvar til að mæta þessum útgjaldaauka hjá sveitarfélögunum. Á móti kemur að samkvæmt frv. dregst viðbótarframlag sveitarfélaganna frá ábyrgð ríkissjóðs á greiðslu uppbóta á lífeyrinn. Þessar breytingar ættu ekki að valda útgjöldum hjá ríkissjóði fyrr en þessir sjóðfélagar hefja töku lífeyris.

Virðulegi forseti. Það má fjölyrða margt um þetta frv. Reyndar hefur það verið kynnt í fjölmiðlum og um það hafa orðið nokkrar umræður. Það hefði að sjálfsögðu verið freistandi að fjalla um fleiri atriði. Ég hef aðeins minnst á ábyrgð launagreiðenda og bent á að í raun og veru er verið að auka ábyrgð sjóðsins sjálfs þó að sjálfsögðu sé endanleg ábyrgð hjá ríkinu. Það er ljóst að ekki hefði orðið um það samkomulag á þessu stigi, að hverfa frá þessari ábyrgð, en ég bendi á að með því að færa sjóðinn í þennan búning sem að er stefnt ætti slíkt að verða auðveldara á síðari stigum ef samningar takast.

Ég vil einnig taka fram að það hefur alltaf verið litið á það af hálfu ríkisvaldsins, a.m.k. hjá þeim sem hér stendur, að hér sé um að ræða mál mjög tengd kjaramálum sem ekki sé hægt að gera verulegar breytingar á án þess að bera undir okkar samningsaðila. Auðvitað er mér ljóst að Alþingi hefur löggjafarvaldið og Alþingi getur að sjálfsögðu breytt þessu frv. eins og Alþingi telur hentast. En afleiðingarnar kunna þá að verða þær að slík mál verði tekin upp í kjarasamningum á milli aðila sem annaðhvort leiðir til þess að fram komi óskir um nýjar breytingar á lögum um sjóðinn, eins og við þekkjum frá fyrri tíð, eða þá að fram komi kröfur um breytingar á launakjörum til að vega upp þær breytingar sem gerðar verða á reglum um sjóðinn.

Mér er þó ljóst að sum atriði í frv. eru þess efnis að auðvitað er hægt að breyta þeim án þess að það raski þeim samningum sem viðkomandi aðilar hafa náð. Það verður auðvitað að meta það og nefndin verður að gera það hverju sinni. Ég treysti því að nefndin muni hafa gott samstarf við bæði fjmrn. annars vegar og þá fulltrúa opinberra starfsmanna sem að þessu máli vinna.

Það hefði verið ástæða til þess, virðulegi forseti, að fjalla einnig um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda en það er gert ráð fyrir því að þeir sem eru í BHM og BSRB verði fluttir úr söfnunarsjóðnum yfir í A-deildina. Það á ekki að vera óhentugt fyrir A-deildina því þarna er yfirleitt um yngra fólkið að ræða sem er verðmætt fyrir sjóðinn sjálfan en auðvitað er það alltaf spurning hvernig með á að fara ekki síst þegar um viðkvæm réttindi eins og lífeyrisréttindi er að ræða. Ég hef ekki komið að því hér, ekki haft tíma til þess í minni ræðu. Mér skilst, virðulegi forseti, að tímanum sé u.þ.b. að ljúka. Það hefði einnig verið fróðlegt að fara frekar yfir fjárfestingarstefnu sjóðsins. Um val einstakra aðila að fara á milli deilda o.s.frv. En til þess vinnst ekki tími að þessu sinni en vonandi kem ég þeim sjónarmiðum á framfæri síðar í umræðunni.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, óska eftir því að þetta mál verði afgreitt til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.