Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 15:49:12 (1728)

1996-12-03 15:49:12# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[15:49]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, vil ég taka fram að launahækkunarleiðin var í raun og veru ekki könnuð vegna þess að menn gengu út frá því í upphafi að lífeyrisréttindin yrðu jafnverðmæt og í því felst að ekki var hægt að breyta launum því að þá hefðu orðið launabreytingar sem ekki pössuðu inn í þetta starf, en um þær yrði hins vegar fjallað í kjarasamningum.

Í öðru lagi er spurt um áhrifin á almenna vinnumarkaðinn. Ég vil fyrst taka fram að nú fer fram starfsemi þar sem reynt er að breyta lögunum um almennu lífeyrissjóðina, þ.e. á markaðnum. Frumvarpsdrög liggja fyrir og vonandi tekst að gera einhverjar breytingar á næstunni. Ég tel að þetta frv. breyti í sjálfu sér ekki miklu á almenna markaðnum. Hér er aðeins verið að framkalla á gagnsæjan hátt þann mun sem hefur verið um langan aldur á þessum tveimur kerfum, þ.e. hver munurinn er á verðmæti réttindanna. Það getur hins vegar verið að almennu áhrifin verði óbein, þ.e. að aðilar á vinnumarkaði verði tilbúnir til þess að leggja meira til hliðar, semja um að stærri hluti launa eða launaígildis verði lagður til hliðar í lífeyrissjóði vegna þess að sparnaður er dyggð. Menn lifa lengur en áður og menn sjá að þjóðin eldist. Það eru færri vinnandi menn á bak við ellilífeyrisþegana og það er nauðsynlegt þess vegna og framtíðarinnar vegna að leggja meira til hliðar. Það getur verið að það gerist. En ég á ekki von á því til að mynda að þetta frv. verði til þess að launþegar á almennum vinnumarkaði muni krefjast atvinnurekenda\-ábyrgðar á lífeyrissjóðunum því að sú ábyrgð var alltaf hjá ríkinu. Ég tel að við séum að taka skref út úr því kerfi jafnvel þótt það verði ekki tekið fyrr en jafnvel eftir fimm eða tíu ár þegar við sjáum upphleðsluna eiga sér stað í þessum sjóði.

Ég vona, virðulegi forseti, að mér hafi tekist að svara þessum fáeinu spurningum sem til mín var beint.