Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:31:32 (1736)

1996-12-03 16:31:32# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt að það komist til skila að hér er ekki um að ræða neina kúvendingu af hálfu stjórnvalda. Það hefur aldrei staðið til, og ég hef margoft lýst því í þessum ræðustól, líka á síðasta þingi, að hafa lífeyrisréttindi af opinberum starfsmönnum. Það sem gerðist á sl. vetri var ósköp einfaldlega það að lagt var af stað með breytingar. Þegar þær lágu fyrir kom í ljós að þær voru ekki jafnverðmætar en það stóð aldrei til annað en að breyta þeim þannig að um jafnverðmæt lífeyrisréttindi væri að ræða. Margoft var þessi yfirlýsing gefin úr þessum ræðustól.

Í öðru lagi tel ég að almennu áhrifin af þeirri breytingu sem hér er verið að gera séu fyrst og fremst þau að það er hvatning til þess að þeir sem semja um þessi mál í kjarasamningum leggi meira til hliðar. Við megum ekki gleyma því að hvert prósent sem fer í lífeyrissjóð er jafngildi launaprósentu, menn mega ekki gleyma þessu. Kerfin eru núna sambærileg, gagnsæ en þau eru ekki eins. Hv. þm. spurði: Hver er þá launamunurinn? Hann kemur auðvitað fram í því núna miðað við gefnar forsendur þegar fólk er á svipuðum aldri, tiltölulega ungt og gengur í sinn sjóðinn hvort að þá er launamunurinn augljóslega um 5,5%. Þetta er ekkert flóknara. Við skulum segja fólk tæplega þrítugt eða eitthvað þar um bil, þá er það u.þ.b. munurinn. Það væri sem sagt hægt að borga 5,5% eða þar um bil.

Hér er ekki verið að taka á vandamálum heimavinnandi fólks vegna þess einfaldlega að hér er verið að tala um lífeyrissjóð þar sem iðgjaldagreiðslur standa undir réttindum. Það er aðalatriðið í þessu. Og vegna sameignaraðila skal það tekið fram að það hefur verið í lögum um langt skeið hjá Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna að þegar sjóðþegi fellur frá, þá skiptast lífeyrisréttindin á milli eftirlifandi maka.