Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:33:50 (1737)

1996-12-03 16:33:50# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:33]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin en ég vænti þess að hann hafi ekki talið sig þar með vera búinn að svara öllum þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann sem voru miklu fleiri og mun auðvitað ganga eftir þeim síðar hér í umræðunni ef þeim verður ekki svarað, t.d. varðandi margfaldan lífeyri hjá ákveðnum hluta embættismanna o.s.frv. Ráðherrann svaraði því heldur ekki hvort það væru þá einhver áform uppi um það að tryggja betur réttarstöðu heimavinnandi fólks sem mér sýnist að sé verið að setja í verri stöðu með þessari breytingu heldur en áður.

Ég veit ekki hvernig á að skilja orð hæstv. fjmrh. þegar hann talar um að þetta sé launamismunur upp á 5,5% sem megi meta þessi réttindi. Gott og vel. (Fjmrh.: Að gefnum tilteknum forsendum.) Já, og hæstv. fjmrh. segir þá: Ef á að semja um þetta á almennum markaði, þá verða þeir að leggja meira til hliðar. Er hæstv. ráðherra að segja að ef þeir á almenna markaðnum eigi að tryggja að fá sömu lífeyrisréttindi og hér er verið að fjalla um fyrir opinbera starfsmenn, þá samsvari það því að þetta fólk verði að lækka í launum sem þessu nemur? Mér fannst erfitt að skilja orð ráðherrans þannig að ég bið um frekari skýringu á þessu.