Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:37:29 (1739)

1996-12-03 16:37:29# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:37]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er að leggja línurnar fyrir komandi kjarasamninga með orðum sínum áðan þegar hann talaði um að það mætti hugsa sér að aukin lífeyrisréttindi á almenna markaðnum kæmu í stað launahækkana. En mér finnst, herra forseti, að hæstv. fjmrh. geti ekki sloppið við að svara því hvort hann vilji beita sér fyrir því að taka á margföldum lífeyrisréttindum toppanna í kerfinu og vísað bara til þess að Alþingi geti endurskoðað lífeyriskjör alþingismanna. Það nægir ekki. Við tökum ekki hér í gegnum lög um lífeyrisréttindi alþingismanna á margföldum lífeyriskjörum bankastarfsmanna svo dæmi sé tekið. Ég vil því fá skýrari svör við því þó síðar verði í þessari umræðu hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að taka á margföldum lífeyri þessara manna. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að sumir séu með 300--400 þús. í lífeyrisgreiðslur á mánuði á meðan aðrir fái 20--40 þús. Það er óþolandi misrétti sem misbýður réttlætiskennd fólksins.

Varðandi heimavinnandi fólk, þá hafa margoft komið fram tillögur hér um að taka á því máli. Hæstv. ráðherra vísar í að það þurfi að skoða þetta í samhengi við lífeyri almannatrygginga. Ég er ekkert að segja að það þurfi ekki. Það má vel vera að það þurfi að skoða þetta saman, þetta spilar að mörgu leyti saman. En þá er spurning mín: Er verið að vinna að því og verður á því tekið? Það sem skiptir máli er hvort þessu fólki verði tryggð lífeyrisréttindi, til dæmis að hægt sé að skipta lífeyrisréttindum þannig að litið verði á þetta sem sameign og ef annað hjóna fellur frá þá séu það lífeyrisréttindi þess sem meira hefur sem gildi. Mér finnst hæstv. ráðherra skauta mjög létt fram hjá því að svara þessum spurningum.