Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:41:35 (1741)

1996-12-03 16:41:35# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Af því að síðasti ræðumaður er mjög góður með reiknivélina, þá vil ég spyrja hv. þm. hvort hann hafi reiknað það út að ef afnumin yrðu margföld réttindi hér í kerfinu, þar sem sumir þiggja 300--400 þús. í lífeyrisgreiðslur en aðrir 30 þús., og þetta yrði jafnað út, hvað það mundi spara til þess að jafna lífeyrisréttindin í landinu. Hefur hv. þm. reiknað það út þegar hann spyr um hvar eigi að ná í tekjur til þess að bæta réttindi þeirra sem hafa hvað minnst?

Varðandi dæmið um einstæðu móðurina með barnið, ef einstæða móðirin fellur frá og barnið fær einungis 10 þús. kr., mér finnst ekkert réttlæti í því þegar hún er búin að borga 2 millj. kannski inn í kerfið, sama og kona sem stendur við hliðina á henni sem tryggir sína fjölskyldu, kannski þrisvar sinnum meira fyrir 40 þús. kr. á mánuði falli hún frá. Mér finnst þetta dæmi sem sé vert að skoða og ég hef orðið vör við það þegar ég hef rætt þetta við fólk í lífeyriskerfinu sem þekkir vel til þessara hluta, skoðar það af fyllstu sanngirni að það telur mjög rétt og áhugavert að skoða hvort ekki sé hægt að gera hér breytingar á.