Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:44:12 (1743)

1996-12-03 16:44:12# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:44]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Ég lít á það svo, herra forseti, að með lífeyrisgreiðslum og lífeyristryggingum séu fjölskyldurnar líka að hugsa um þá sem eftir standa ef sá sem greiðir inn í lífeyrissjóðinn fellur frá. Einstæða móðirin er auðvitað að hugsa um sitt barn eða sín börn, hvernig staða þeirra verður ef hún fellur frá. Hún hefur til einskis að horfa þó að hún borgi 4% af sínum launum inn í lífeyriskerfið nema það að þau fá barnalífeyri með sama hætti og greitt er fyrir önnur börn, hverra fjölskyldur fá líka makalífeyri.

Mér finnst réttlæti hv. þm. mjög sérkennilegt í þessum efnum, mjög sérkennilegt vegna þess að með lífeyriskerfinu er einnig verið að tryggja stöðu þeirra sem eftir standa. Réttarstaða barna einstæðra foreldra í lífeyriskerfinu er margfalt verri þannig að börn einstæðs foreldris standa uppi með þrisvar sinnum minni framfærslu heldur en börn þeirra ef makinn er eftir. Mér finnst þetta mjög sérkennileg röksemdafærsla. Og þegar verið er að tala um mörg börn eins og hv. þm. gerði, að það sé verið að tryggja það. Jú, en makalífeyririnn kemur. Síðan kemur barnalífeyrir með hverju barni samkvæmt þessu kerfi, 10 þús. kr. með hverju barni og það er alveg óháð því hvort um er að ræða einstætt foreldri eða hvort sá sem eftir stendur hefur einnig makalífeyri. Ég heyri að þetta er mál sem þarf frekari umræðu við á Alþingi og full ástæða er til að huga að því hvort ekki sé rétt að flytja þingmál um þetta mál eða jafnvel að gera brtt. við það frv. sem hér er til umræðu.