Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:11:23 (1749)

1996-12-03 17:11:23# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:11]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta mál sem hér er til umræðu er að mínu mati afar athyglisvert og jafnvel eitt hið athyglisverðasta sem lagt hefur verið á borð hjá okkur á þessu þingi. Málefni Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafa mjög lengi verið áhyggjuefni þar sem fyrirkomulagið hefur verið í þeim búningi að skuldbindingar ríkisins hafa hlaðist upp og engan veginn verið tryggt hvernig með þær yrði farið. Það er mjög mikils virði að nú hefur tekist samkomulag milli launagreiðenda og launafólks um þetta mál.

Eins og ég skil þetta, þá er í rauninni ekki verið að auka réttindi opinberra starfsmanna umfram það sem þeir ávinna sér með meiri greiðslum í þann nýja sjóð sem stofnaður verður. Þ.e. þeir greiða af heildarlaunum í stað grunnlauna áður. Í því sambandi vil ég benda á að það er mjög mikils virði því að þar með verður auðveldara og fæst mjög mikilvæg stoð fyrir því að auka vægi dagvinnulauna í heildarlaunum. Það er nokkuð sem hefur verið um rætt lengi en verið mikil tregða að koma á, fyrst og fremst vegna þess að launagreiðendur hafa ekki viljað þurfa að taka á sig hærri lífeyrisgreiðslur. Þegar þessar lífeyrisgreiðslur verða af heildarlaunum þá er sá þröskuldur úr veginum.

Þær tillögur sem hér koma fram eru því í rauninni stuðningur við hugmyndir um styttingu vinnutíma án lækkunar dagvinnulauna í því sambandi sem jafnframt fengju aukið vægi í heildarlaunum.

Vitaskuld er það rétt að verði þetta frv. að lögum, þá greiða launagreiðendur hærri prósentu, stærri hlut í sjóðinn en þeir hafa gert. Það er að mínu viti aðeins annað form á þeim skuldbindingum sem nú eru tengdar sjóðnum og voru aðeins ávísanir á framtíðina. Það kerfi stefndi einfaldlega í glötun og varð að taka á því og ég tel að það kerfi sem hér er lagt til sé þess vegna mun farsælla en það sem nú gildir, það sé heilbrigðara og ábyrgara á flestan máta.

[17:15]

Menn gagnrýna við þetta væntanlega kerfi eins og núverandi fyrirkomulag að með því sé starfsmönnum hins opinbera tryggður meiri og betri réttur en á almenna markaðinum og það er rétt. Það er auðvitað álitamál hvort það sé réttara og betra og eðlilegra að allir hafi sömu réttindi og þá sömu skyldur í þessu tilliti. Ættu menn t.d. eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni heldur að sækja á um hærri laun og selja fyrir það lífeyrisréttindin sín að einhverju marki a.m.k., þ.e. betri réttindi en í almenna kerfinu. Mér var ekki alveg ljóst hvernig hv. 16. þm. Reykv. hugsaði sér það því að mér virtist hann vilja hafa þetta fullkomlega frjálst, þ.e. menn mættu velja um hærri laun eða meiri réttindi í lífeyrisgreiðslum. Það getur auðvitað ekki verið bundið við einstakling hverju sinni. Það hlýtur að þurfa heildarlausn í þessu máli. Þetta er álitamál og hefur alltaf verið það og það má færa rök fyrir því að þróunina í þá átt að betri lífeyrisréttindi séu hjá starfsmönnum ríkis og bæja megi rekja til afstöðu ríkisvaldsins sem hefur tregðast við að samþykkja hækkun launa en fremur fengist til að bæta það upp á öðrum sviðum, m.a. með lífeyrisréttindum, með fyrirframgreiðslu launa, betri kjörum í fæðingarorlofi en gildir á almenna markaðinum, með sérstökum ráðningarréttindum og með biðlaunum og fleiru eins og menn þekkja úr umræðunni á liðnum vetri og vori þegar við vorum að ræða breytingar á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. Þannig hefur þróunin verið og þess vegna voru átökin svo hörð á síðasta þingi um þessar lagabreytingar sem gerðar voru á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna.

Ég sé enga skilyrðislausa ástæðu fyrir því að kjör og réttindi alls launafólks í landinu eigi að vera nákvæmlega ein og hin sömu þótt það væri út af fyrir sig þægilegt og auðveldaði t.d. allan samanburð. En ég er ansi hrædd um að slíkt næðist ekki um sinn því hætt er við að alltaf nái ákveðnar stéttir eða hópar að tryggja sitt umfram aðra, þó ég taki sannarlega undir það með hv. 13. þm. Reykv. að ýmislegt í því efni er óþolandi og þarf skoðunar við.

Hvort það samkomulag sem er undirstaða þessa frv. hefur fordæmisgildi gagnvart almenna markaðinum skal ekkert fullyrt en ég skil ekki hvers vegna svo ætti að vera frekar en með núgildandi kerfi. Ég sé ekki að þetta breyti eiginlega neinu. Við skulum ekki gleyma einu í þessu sambandi, sómasamleg kjör ellilífeyrisþega eru ríkissjóði afar verðmæt. Þau eru ríkissjóði mjög verðmæt. Formúlan er í megindráttum sú að búi menn við sæmileg kjör á elliárunum er þeim mun ólíklegra að þeir þurfi stuðning ríkisvaldsins vegna bágra aðstæðna, en eins og við vitum þá leiða bágar aðstæður og léleg kjör oft til erfiðleika. Þau geta leitt til sjúkdóma og annars og þá kemur til kasta hins opinbera, þá kemur til kasta heilbrigðis- og tryggingakerfisins og félagslega kerfisins þannig að ég legg áherslu á það aftur að það skiptir máli og er ríkissjóði beinlínis mikils virði og hagkvæmt að aldraðir búi við góð lífeyriskjör.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta frv. Þetta mál verður yfirfarið mjög rækilega í nefnd og þar með talin öll þau atriði sem hv. 13. þm. Reykv. ræddi um áðan og ég ætla ekki að fara að endurtaka. Ég vil þó sérstaklega taka undir það sem hún nefndi um börn einstæðra foreldra sem missa foreldri sitt. Þessi dæmi verður að skoða rækilega og athuga hvort þessu er fyrir komið eins og réttmætt er. Hún ræddi líka um stöðu heimavinnandi fólks, sem er sjálfsagt að athuga líka hvort sem það verður leyst í sambandi við þetta mál eða ekki. Þó vil ég benda á það sem stendur í fylgiskjalinu þar sem skýrsluhöfundar fara yfir og gera samanburð á núverandi réttindum og réttindum fyrirhugaðrar A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þar segja þeir undir lokin:

,,Það er skoðun skýrsluhöfunda að reglur fyrirhugaðrar A-deildar um lífeyrisréttindi veiti sjóðfélögum góð réttindi og vægi lífeyristegunda sé eins og nú er algengast hérlendis. Ef maki sjóðfélaga er heimavinnandi geta ráðstafanir til að tryggja makanum sjálfstæðan lífeyrisrétt verið nauðsynlegar vegna þess að makalífeyririnn í A-deildinni er tímabundinn.``

Ég vil sérstaklega beina því til hv. efh.- og viðskn. að taka þau atriði fyrir sem hér hafa verið nefnd og skoða þau rækilega. Það verður að gera það, það verður að sækja upplýsingar í nefndina og dæmi og leita leiða til lausnar. Nú er ábyrgðin komin til Alþingis. Ég tel þetta mál í heild sinni gott og það er ákaflega mikils virði hvernig að því hefur verið staðið, þ.e. að það skuli hafa verið unnið og sé byggt á samkomulagi við samtök þess launafólks sem það varðar. Mér virðist að fyrirkomulagið sem hér er lagt til tryggi á viðunandi hátt hag bæði launafólks og launagreiðenda og gæti orðið fyrirmynd af víðtækari sátt í þessu efni.

Það eru margir þeirrar skoðunar að æskilegt sé að auka sparnað í þjóðfélaginu og þá er ekki síst litið til lífeyrissjóðanna. Hér er vissulega stigið skref á þeirri braut. Ég tel þetta kerfi miklu ábyrgara en núgildandi kerfi en eins og ég hef sagt, má vel vera að finna megi á því hnökra sem megi sníða af í meðförum þingsins.