Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:49:59 (1753)

1996-12-03 17:49:59# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:49]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin við spurningum mínum. Hv. þm. náði ekki að svara því hvaða mat hann leggur á það hve margir mundu flytjast úr gamla kerfinu yfir í hið nýja.

Skýringin og rökin sem þingmaðurinn setur fram varðandi það að sparast hafi tugir milljarða í almannatryggingakerfinu er að með réttindum og þá hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skertist rétturinn hjá almannatryggingakerfinu. En við hvað var þá miðað, réttindin í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eða þar sem hann er lakari, þ.e. hjá SAL-sjóðunum eða í almannatryggingakerfinu? Hefur þetta þá ekki bitnað á félögunum í almannatryggingakerfinu ef viðmiðið hefur verið Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins?

Síðan veit ég ekki hvað á að nefna það, ábyrgð, ríkis\-ábyrgð eða hvað á að kalla það. Alla vega er það klárt að lífeyrisréttindin eru tryggð, fest með þessu frv. ef að lögum verður. Ef það vantar jafnvægi í stöðu sjóðsins þá er það gert með auknu framlagi atvinnurekandans, þ.e. ríkisvaldsins. SAL-sjóðirnir hafa þurft að búa við það að til þess að ná jafnvægi í stöðu sjóðsins þá eru réttindin skert hjá félögunum. Það hefur verið gert t.d. með makalífeyrinn. Hann hefur verið skertur án þess að bættur hafi verið barnalífeyrir eða makalífeyrir þannig að tryggingin er allt önnur í þessum sjóði heldur en í hinum sjóðnum þannig að ég skildi ekki nákvæmlega hvað þingmaðurinn meinti með því að það væri verið að afnema þessa ríkisábyrgð. Ég tel að hún sé þegar það er atvinnurekandans að bæta það ef sjóðurinn stendur sig ekki eða vantar fjármagn í hann en félagarnir í lífeyrissjóðnum þurfa ekki að búa við skert réttindi þar á móti.