Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:56:20 (1756)

1996-12-03 17:56:20# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvort forsvarsmenn í samtökum opinberra starfsmanna hafi ekki treyst félagsmönnum til að taka ákvörðun, þá vil ég upplýsa um það að á undanförnum árum hefur verið mjög mikil umræða um lífeyrismál innan samtaka opinberra starfsmanna. Það á við um BSRB, það á við um BHMR, það á við um Kennarasamband Íslands, það á við um hjúkrunarfræðinga sem hafa átt aðild að sjálfstæðum sjóði og þar hefur verið farið mjög rækilega yfir það hvernig menn vildu standa að breytingum á lífeyriskerfinu þannig að þetta eru ekki umræður sem hafa orðið til í einhverju tómarúmi, síður en svo.

Hvort menn vilji fá góð réttindi og léleg laun? Ég held að þetta sé ekki uppstilling sem menn séu vanir að setja fram. Menn vilja hvort tveggja. Menn vilja góð réttindi og menn vilja góð laun og fyrir því ætlum við að berjast í komandi kjarasamningum.

Um þessa útreikninga sem hv. þm. setti fram og eru gamlar tölur um hvernig eigi að verðleggja sjóðinn, þá er rétt að þetta var verðlagt upp á 27% reyndar þegar reiknað var af dagvinnulaunum og vaktaálagi. Síðan hafa menn verið að snúa þessu yfir í aðrar stærðir þegar tekið er mið af allri launasummunni. Það sem menn hafa verið að gera í leiðinni er að gera ýmsar tiltektir í þessu lífeyriskerfi, færa það í nútímalegt horf, tryggja samtímagreiðslur inn í kerfið en mönnum hefur auðnast að búa til lífeyriskerfi þar sem lífeyrisréttindin eru jafnverðmæt þegar á heildina er litið. Ég hélt sannast sagna að það yrði fagnaðarefni hjá þingmönnum eins og það er annars staðar í þjóðfélaginu en menn mundu ekki leita allra leiða til að rífa þetta ágæta verk niður.