Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:20:57 (1760)

1996-12-03 18:20:57# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:20]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessu frv. og því samkomulagi sem býr að baki á milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisins og BHMR þannig að ég mun auðvitað styðja þetta frv. Ég tel mikilvægt að menn nái á sem flestum sviðum samkomulagi og dragi úr óvissu á sem flestum sviðum. Það er enginn vafi að á tímabili óttuðust menn mjög stöðu lífeyrissjóðanna og töldu að þar væri hrikaleg vá fyrir dyrum. Við gerum okkur grein fyrir því að á síðustu 10 árum, en á þeim tíma hafa vextir verið mjög háir vextir á Íslandi, hafa sjóðirnir náð að fá vind í sín segl og eru nú margir á hinum almenna markaði orðnir sterkir og stærsti og jafnvel eini sparnaður landsins liggur í gegnum lífeyrissjóði.

Ég gat þess í mínum þingflokki þegar þetta mál var þar til umræðu að ég saknaði eins við þetta samkomulag. Ég hefði viljað sjá svolítið aðra niðurstöðu hvað eitt atriði varðar. Ég ætla að nefna það í þessari umræðu og biðja nefndina að íhuga það atriði. Ég vil segja það fyrst að helst hefði ég kosið að við Íslendingar hefðum náð allsherjarsamkomulagi í lífeyrissjóðsmálum þar sem við sætum allir við sama borð. Því hver maður kemur nakinn í þennan heim og fer nakinn úr honum aftur.

En það atriði sem ég ætlaði að minnast á og sakna að skuli ekki vera í þessu samkomulagi og frv. er þá atriði númer tvö sem mér finnst skipta miklu máli. Ég held að skipti afskaplega miklu máli að einstaklingurinn hafi það á tilfinningunni að hann eigi sjóðinn og beri ábyrgð á honum og að honum sé fljótlega í lífinu kennt að spara peninga. Þess vegna hefði ég kosið að sjá að hluti af þeim viðbótargreiðslum sem nú renna í þetta hefði farið í eigin eftirlaunasjóði eða séreignarsjóði eins og þeir eru nefndir nú.

Ég hef margsinnis flutt í þinginu mál um þetta atriði og sé það fyrir mér að þetta er að gerast í þjóðfélaginu hjá mörgum aðilum að þessir séreignarsjóðir, þ.e. þeir sem iðgjaldið er greitt af, eru eigendur þessara peninga og fara þannig með þá og vaka þannig yfir þeim undir ákveðnum reglum. Ég hygg að t.d. ýmsir aðilar eins og sparisjóðirnir, Íslandsbanki o.fl. hafi leyst sín lífeyrissjóðsmál með þessum hætti, að um leið og þeir reyndu að auka öryggi síns starfsfólks þá mynduðu þeir slíka séreignarsjóði. Og þetta hefur gerst víðar í þjóðfélaginu. Ég hefði kannski talið æskilegt að 3--4 % af þessum 15,5% hefðu runnið í séreignarsjóð á nafn viðkomandi manns og verið hans eign. Ég flutti að vísu mínar tillögur hér um að skoða það hvort þetta væri ekki kerfið sem menn ættu að taka upp í landinu, en get vel fallist á að blandað kerfi með þessum hætti geti verið heppilegt. Þetta er það sem ég vildi minnast á við þessa umræðu, hæstv. forseti, og biðja nefndina að íhuga því þegar til lengri tíma er horft þá held ég að fleiri muni vilja fara þessa leið. Ég er sannfærður um að hún er gagnleg fyrir þjóðfélagið í heild því að hvar í flokki sem við erum þá þykir okkur nú mjög vænt um okkar eigið veski --- og það er mikill kennari veskið. Þetta er sú framtíðarmúsík sem mér finnst að hljóti að blasa við innan einhvers tíma í þessum málum.

Auðvitað ber að fagna því við þessar aðstæður, bæði hvað ríkið varðar og atvinnulífið, að sú svarta spá sem var á þann veg að til þess að mæta vanda lífeyrissjóðanna þyrfti að taka 18--22% af launum til þess að greiða inn í sjóðina. En menn eru í lægri tölum í dag sem er vegna þess að staða lífeyrissjóðanna hefur batnað vegna vaxtatöku og ekki síður af hinu að þeir hafa hagrætt mjög í sínum rekstri. Rekstrarkostnaðurinn er minni sem er mjög mikilvægt og þessu ber að fagna. En ég lýsi því yfir, hæstv. forseti, að ég mun styðja þetta frv. og þessa niðurstöðu og fagna henni.