Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:47:41 (1763)

1996-12-03 18:47:41# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi ber að skilja orð mín þannig að þessi samningur sem hér er gerður byggir á gömlum kjarasamningum, síendurteknum kjarasamningum milli aðila og reyndar yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar á þeim tíma áður en opinberir starfsmenn fengu samnings- og verkfallsrétt. Þegar rætt er um ASÍ-fólkið, þá er ég ekki að bjóða upp á aðild þeirra að þessum sjóði. Ég er einungis að segja að ég er ekki að loka leiðum til þess að gerðir verði samningar milli ríkisins eða hvers annars launagreiðanda og viðkomandi ASÍ-fólks sem starfar hjá þeim launagreiðendum, þar á meðal ríkinu, að í stað launabreytinga komi breytingar á iðgjöldum í lífeyrissjóð. Ég tel það vera jafngilt.

Varðandi alla þá sem eru starfsmenn launagreiðenda sem eiga aðild að sjóðnum, þá halda þeir áfram aðild sinni að sjóðnum. Það gildir um kennara og alla aðra.

Varðandi nýja kennara minni ég á að til þess að þeir geti orðið aðilar að sjóðnum þarf launagreiðandinn að samþykkja slíka aðild. Það var í lögunum á sínum tíma ef ég skildi það rétt. Það var að vísu loforð um að þeir yrðu áfram í sjóðnum og kennararnir geta verið áfram í sjóðnum, en þá þurfa sveitarfélögin auðvitað að greiða í sjóðinn með sama hætti og ríkið þarf að gera. Af því að það var spurt beint um sveitarfélögin, þá á ég von á því að þau hafi fylgst með gangi mála en þau hafa í sjálfu sér ekki haft mikil áhrif á þau lög sem hér er verið að setja, enda megum við ekki gleyma því að þessi lög eru lög um lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hjúkrunarkvenna sem eru fyrst og fremst sjóðir sem urðu til í samningunum milli ríkisins og starfsmanna ríkisins en aðrir hafa fengið aðild að með einhvers konar leyfi eða sérstökum lögum.