Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:49:50 (1764)

1996-12-03 18:49:50# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:49]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á miðað við svör hæstv. ráðherra að það sé nokkur óvissa um hvort starfsmenn ýmissa sveitarfélaga, sem hafa átt aðild að lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, fái þessi réttindi vegna þess að hæstv. ráðherra bendir á að launagreiðandinn þurfi að samþykkja slíka aðild. Er ekki hugsanlegt að þeir gætu dregið sig út úr þessu þegar þeir eiga nú aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þegar búið er að breyta þessum réttindum?

Rétt í lokin af því að hæstv. ráðherra sagði áðan að þetta hlyti að leiða til þess að létt yrði af ríkissjóði til frambúðar skuldbindingum í almannatryggingakerfinu, er það ekki skilningur ráðherrans að ekki sé hægt að létta neinu af almannatryggingum fyrr en almenni markaðurinn er kominn með sambærileg réttindi og við erum hér að fjalla um? Ráðherrann nefndi að þetta hlyti að leiða til þess að það væri hægt að létta greiðslum af ríkissjóði út af almannatryggingakerfinu til framtíðar litið, en ráðherrann er þá væntanlega að meina að þá fyrst sé hægt að skoða það þegar réttindin á almenna markaðinum og hjá opinberum starfsmönnum eru orðin sambærileg.