Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 19:04:52 (1772)

1996-12-03 19:04:52# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[19:04]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Eftirfarandi liggur þá ljóst fyrir. ASÍ-félagar hafa lakari lífeyriskjör hjá ríkinu en opinberir starfsmenn. ASÍ-félagar hafa fengið minni kauphækkanir að raungildi frá árinu 1990 en opinberir starfsmenn. Þensla er fram undan á næsta ári. Með öðrum orðum er hæstv. ráðherra búinn að segja að þeir eigi að fá meiri kauphækkanir í komandi kjarasamningum en opinberir starfsmenn til að vega upp misgengið á undanförnum sex árum. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá hreinskilni að segja það með svo berum orðum að það beri að hækka kaup ASÍ-félaga sem starfa hjá ríkinu um þennan mun sem myndast hefur á undanförnum árum.