Fornminjarannsóknir í Reykholti

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 13:57:42 (1784)

1996-12-04 13:57:42# 121. lþ. 34.4 fundur 168. mál: #A fornminjarannsóknir í Reykholti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í Morgunblaðinu 10. nóvember sl. birtist frétt með yfirskriftinni: ,,Snorragöng að hruni komin``. Inni í blaðinu sama dag er viðtal við staðarhaldarann í Reykholti, séra Geir Waage, þar sem hann segir að göng sem talið er að hafi legið frá Snorralaug inn í kjallara bæjar Snorra Sturlusonar á fyrri hluta 13. aldar voru grafin upp á um tveggja metra kafla á fjórða áratugnum. Þau eru nú að hruni komin og troðningar hafa myndast umhverfis laugina vegna ágangs ferðamanna. ,,Staðarhaldarinn í Reykholti, Geir Waage,`` segir orðrétt, með leyfi forseta, ,,er harðorður í garð Þjóðminjasafns og segist hafa talað fyrir daufum eyrum um lagfæringar og frekari upppgröft á þessu helsta höfuðbóli Vesturlands í mörg ár. ...

Í skýrslu sem Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur vann sl. sumar þar vestra segir m.a. að ástand fornminjanna sé svo slæmt að það sé Þjóðminjasafni og Reykholtsstað til vansa.`` Síðar í sömu grein í Morgunblaðinu þann 10. nóvember sl. er, með leyfi forseta, vitnað í Þór Magnússon þjóðminjavörð. Hann segir:

,,Næsta vor verður það lagað sem úr lagi er gengið í göngunum.`` Síðan er það rakið nokkuð hvernig þessi göng eru tilkomin og hvaða þýðingu þau í raun og veru hafa í menningarsögu lands og þjóðar. Geir Waage, staðarhaldari, bætir um betur í sama viðtali síðar og segir, með leyfi forseta:

,,Algert metnaðarleysi virðist vera ríkjandi innan Þjóðminjasafnsins um fornleifarannsóknir í Reykholti og fleiri höfuðbólum á Íslandi eins og t.d. Hrafnseyri við Arnarfjörð þar sem ekkert hefur verið gert með rannsókn á gamla kirkjustæðinu og rústum virkis og bæjar Hrafns Sveinbjarnarsonar. Nefna mætti Skálholt á seinni árum, Hóla í Hjaltadal, Odda á Rangárvöllum og nánast alla sögustaði landsins.``

Í framhaldi af þessu kemur það fram að það muni kosta 10--15 millj. kr. að ljúka uppgreftri á bæjarhólnum í Reykholti. Svo mikið er haft við þessi mál í Morgunblaðinu að um þau er skrifaður sérstakur leiðari í blaðinu 14. nóvember þar sem lögð er á það áhersla að fjármagn til fornleifarannsókna, sem standi í raun og veru afar illa að mörgu leyti fyrst og fremst vegna fjárskorts, verði aukið verulega hér á landi. Þeir sem hafa farið yfir þessi mál með einhverjum hætti á undanförnum árum kannast við að fornleifarannsóknir hafa verið dálítil hornreka í menningarstarfsemi okkar, því miður, og úr því þarf að bæta. Af þessum ástæðum hef ég, hæstv. forseti, flutt fyrirspurn til hæstv. menntmrh. á þskj. 185 í þremur liðum, um fornminjarannsóknir í Reykholti.