Afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:24:35 (1798)

1996-12-04 14:24:35# 121. lþ. 34.6 fundur 170. mál: #A afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla öðlast gildi 1. janúar nk. Reglugerðin er að stærstum hluta útfærsla á reglum um framkvæmd samræmdra prófa eins og lögin ætla en það skýtur skökku við þegar kemur að 13. gr. reglugerðarinnar en þar segir, með leyfi forseta:

,,Láta skal öðrum aðilum í té upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa ef þeir óska þess en ætíð skal gæta trúnaðar gagnvart einstökum nemendum.``

Já, láta skal öðrum aðilum í té upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa úr einstökum skólum. Þess vegna spyr ég hæstv. menntmrh.:

Hver er tilgangur þess að heimila öðrum en skólayfirvöldum, nemendum og forráðamönnum þeirra aðgang að niðurstöðum prófanna?

Þegar niðurstöður einstakra skóla verða birtar, og það verða birtir listar yfir bestu og verstu skólana eins og fréttamaður Stöðvar 2 orðaði það, þegar sá stóridómur liggur fyrir um skólana, byggður á niðurstöðum á skriflegu prófi í íslensku og stærðfræði 9 og 12 ára barna t.d., þá spyr ég hæstv. menntmrh. aftur:

Gerir ráðherra ráð fyrir að foreldrum verði gert kleift að flytja börn sín milli skóla eða skólahverfa og það jafnvel í önnur sveitarfélög eftir að almenningsálitið hefur flokkað skólana eftir þessum þrönga mælikvarða?

Niðurstöður samræmdra prófa úr 10. bekk hafa verið birtar eftir fræðsluumdæmum. Sömu umdæmi hafa ítrekað komið lakast út. Ástæður þess hafa m.a. verið taldar tíð kennaraskipti og skortur á sérmenntuðum kennurum vegna fámennis. Auðvitað hefur verið reynt að bregðast við en gengið misjafnlega og ekki með sýnilegum árangri hvað varðar niðurstöður úr prófum.

Það þarf ekki að taka það fram, herra forseti, að þetta eru þau svæði landsins sem mestur fólksflótti hefur verið frá. Hvernig halda menn að einstökum bæjum og þorpum gangi eftir að niðurstöður verða birtar úr stærðfræði og íslensku 12 og 9 ára gamalla barna og skólinn dæmdur og samfélagið eftir því? Ég fullyrði, herra forseti, að þetta var aldrei hugsunin þegar ákvæðið um fjölgun samræmdra prófa var sett í grunnskólalögin.

Hlutverk grunnskólans samkvæmt 2. gr. eða markmiðsgrein laganna er, með leyfi forseta: ,,að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun ... temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið.``

Hvar er þetta prófað? Ráðherrann segist byggja reglugerð sína á 46. gr. grunnskólalaga. Þar segir einungis að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa. Ekkert um hverjum skuli afhenda niðurstöður. Það sem ráðherra er að gera með reglugerð sinni er að mínu mati ekki í anda grunnskólalaganna og þá ekki heldur 46. gr. laganna.