Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:58:25 (1810)

1996-12-04 14:58:25# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:58]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir afstöðu minni hluta efh.- og viðskn. í 146. máli, þ.e. stjfrv. um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt, en hv. formaður efh.- og viðskn. gerði áðan grein fyrir áliti meiri hluta. Þetta minnihlutaálit er á þskj. 252. Ég hvet hv. þingmenn að kynna sér það því þar er ítarlega farið yfir málið og afstaða okkar í minni hlutanum dregin vel fram. Að álitinu standa auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk þessu minnihlutaáliti.

Þetta frv. sem er nú til 2. umr. er einn meginþáttur í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, en hún markast af nokkuð mörgum frv. nú á haustdögum. Þar ber vitaskuld hæst frv. til fjárlaga og til lánsfjárlaga. En fleiri frv. koma að efnahagsstefnu stjórnvalda eins og frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þ.e. bandormurinn svokallaði. Önnur frv. sem við erum að fjalla um í dag að nokkru leyti eru frv. um tekjuskatt og eignarskatt, síðan er frv. um tryggingagjald og vörugjald, tvö mál sem reyndar ríkir víst ágreiningur um enn þá innan stjórnarliðsins, þ.e. um tryggingagjaldið þannig að það mál er ekki fullafgreitt í efh.- og viðskn. Jafnframt er frv. um virðisaukaskatt sem verður gert að umtalsefni á eftir.

Ég sé ástæðu til þess að drepa á nokkur atriði í tengslum við þetta frv. Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki brtt. við 1. gr. frv. en þar eru ákvæði sem tengjast staðgreiðslu á fjármagnstekjur en það er sérstakt frv. sem verður til umræðu síðar í dag. Hér um að ræða samræmingu á ákvæðum í lögum um staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og í tekjuskattalögum. Það er eðlilegt að samræming sé á milli laga í þessum efnum. En þessi grein sem þarna er til breytinga í lögum um tekjuskatt og eignarskatt staðfestir hins vegar mjög vel það sem við í stjórnarandstöðunni sögðum á vordögum þegar var verið að lögfesta fjármagnstekjuskatt, að það mál krefðist allt meiri undirbúnings en lagt var upp með þá. Og nú er verið að leiðrétta hluta af því máli og eru boðaðar frekari leiðréttingar. Sú sorgarsaga sem við eigum vafalítið eftir að ræða nokkuð oft í vetur á hinu háa Alþingi í tengslum við fjármagnstekjuskattinn mun sjálfsagt halda áfram.

Eitt meginatriðið í þessu frv. er sú breyting sem gerð er á skattalögum, þ.e. að taka upp vísitölu neysluverðs í stað byggingarvísitölu í tilteknum þáttum skattalaganna. Nú er það ekki svo að hæstv. ríkisstjórn hafi séð ljósið eða meiri hluti efh.- og viðskn. eða fjmrn. sjái að allt í einu sé orðið nauðsynlegt að breyta um visitöluviðmiðun. Það er ekki svo heldur er þetta ákvæði frv. byggt á því að í vor þegar ríkisstjórnin þurfti að fjármagna vörugjald fann hún ekki annan tekjustofn en að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti hjá einstaklingum í tengslum við íbúðarhúsnæði. Að vísu tókst ekki alveg vel til með framkvæmd þeirrar lagasetningar af hálfu meiri hlutans og eitt af þeim frumvörpum sem við fjöllum um í dag er einmitt lagt fram til að tryggja betur þá stefnu sem var að mati minni hlutans alröng varðandi fjármögnun á lækkun vörugjalds á sínum tíma. Þessi breyting á endurgreiðslu virðisaukaskatts hafði ekki einungis það í för með sér að gjöld hækkuðu á einstaklingum og skattsvik hafa líklega aukist í kjölfar þessa, heldur leiddi þetta til mjög mikillar hækkunar á byggingarvísitölu, mun meiri hækkunar á byggingarvísitölu en nam verðlagsbreytingum.

Nú gengur byggingarvísitalan inn í skattalögin sem segir okkur að hækkun á byggingarvísitölu umfram verðlagsbreytingar kemur mjög þungt fram á lið í uppgjörum fyrirtækja sem kallast verðbreytingafærsla. Verðbreytingafærsla er bókhaldsfærsla í rekstrarreikningi fyrirtækja þar sem leitast er við að endurspegla verðlagsþróun innan ársins hvað varðar skuldir og eignir, peningalegar skuldir og eignir fyrirtækja. Það má segja eiginlega að verðbreytingafærslan sé grundvallaratriði í því sem við köllum verðbólgureikningskil sem við erum með hér á landi og byggist á því að við erum að mæla áhrif verðbólgunnar inni í bókhaldslögum og í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Nú var þetta mjög réttmætt á tíma óðaverðbólgu. Við Íslendingar höfum gengið lengra í notkun á slíkum verðmælingum í uppgjörum fyrirtækja og í skattalögum en aðrar þjóðir. Það er hins vegar ekki verið að fjalla um grundvallaratriði í sambandi við verðbreytingafærslu og verðbólgureikningsskil með þessu frv. og breytingartillögum meiri hlutans, heldur er verið að fást við þá staðreynd að byggingarvísitalan hækkaði um 6% út af þessu klúðri ríkisstjórnarinnar sem ég nefndi áðan, en neysluverðsvísitalan sem mældi mun betur verðbólgu hækkaði ekki um nema 2%. Þá sáu menn að þetta mundi leiða til mjög mikillar tekjufærslu hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Nú getur þetta að vísu virkað í báðir áttir og það getur verið um að ræða gjaldfærslu en ekki er óalgengt í íslenskum fyrirtækjum, sem skulda nokkuð mikið og fer það vitaskuld nokkuð eftir samsetningu þeirra skulda, að þessi verðbólgufærsla komi út í formi tekjufærslu. Þetta hefði leitt til þess að íslensk fyrirtæki, ef ekkert hefði verið að gert, hefðu sýnt mun meiri skattskyldar tekjur á þessu ári en e.t.v. hefði verið sanngjarnt miðað við það upplegg að mæla hinar raunverulegu verðlagsbreytingar innan ársins. Það mælir því svo sem ekkert á móti því í grundvallaratriðum að í stað þess að miða við byggingarvísitölu að taka frekar inn í skattalögin breytingar á vísitölu neysluverðs. Það má benda á að við höfum þegar tekið út byggingarvísitölu sem mælikvarða í sambandi við verðtryggingu lána. Byggingarvísitalan er gallagripur í okkar þjóðfélagi og hefur verið það lengi vegna þess að hún er e.t.v. ekki að mæla breytingar mjög skýrt heldur ganga inn í hana breytingar á t.d. uppmælingu og öðru slíku sem byggist á fornum reiknigrunni ef svo má að orði komast.

Ég hefði viljað skoða með ríkisstjórninni, fyrst hún vildi breyta þessum lið, að gera þetta þannig að byggingarvísitalan yrði tekin út úr íslensku skattkerfi, að hún yrði ekki notuð lengur sem verðmælir í viðskiptum sem tengjast lögum. En ekki er farin sú leið heldur einungis kippt út úr þáttum sem hefðu haft veruleg íþyngjandi áhrif á uppgjör eða álagningu fyrirtækja á næsta ári. Það var svo sem augljóst hvar verið var að bera niður og eftir hvaða óskum verið var að fara varðandi þennan þátt.

Ég sé hins vegar ástæðu til þess, herra forseti, að vitna til einnar umsagnar sem barst efh.- og viðskn. um þetta mál vegna þess að hún kemur að nokkru leyti inn á það sem ég hef verið að fjalla um, um verðbólgureikningskil og umræðu um þann þátt. Hv. efh.- og viðskn. ákvað að óska eftir umsögn frá Stefáni Svavarssyni, dósent við Háskóla Íslands, sem er fyrrv. formaður reikningsskilaráðs og fyrir utan að vera aðalkennari Íslendinga í endurskoðun og reikningsskilafræðum, býr hann yfir mikilli reynslu og er einn þekktasti fræðimaður okkar Íslendinga á þessu sviði. Þegar hann er búinn að fara aðeins yfir frv. í sinni umsögn vill hann vekja athygli á öðrum þáttum málsins og segir, með leyfi forseta:

,,Hitt er svo annað mál að tímabært er að mínum dómi að ræða hvort ekki séu efni til að gera þá breytingu á skattalögunum að fella brott verðleiðréttingar, þ.e. framreikning á kostnaðarverði fastafjármuna en afskriftir eru teknar af því verði og verðbreytingafærslu, enda eru breytingar á almennu verðlagi hér á landi ekki lengur meiri en í nágrannalöndunum og þar eru slíkar verðleiðréttingar ekki gerðar. Fyrir vikið er erfitt að gera raunhæfan samanburð á afkomu og efnahag íslenskra fyrirtækja og erlendra fyrirtækja. Í þessu sambandi má benda á að afleiðing þess að nota verðleiðrétt reikningsskil er m.a. sú að arðsemi íslenskra fyrirtækja sýnist vera miklu verri en fyrirtækja, t.d. í OECD-löndunum. Óráðlegt er að hætta verðleiðréttingum í íslenskum reikningsskilum, þó að verðbólgan sé lítil, þar sem ákvæði skattalaga gera enn ráð fyrir verðleiðréttingum. Verðleiðréttingar hófust með breytingum á skattalögunum 1979 og þeim verður ekki bætt við gerð reikningsskila að óbreyttum skattalögum. Rétt þykir að taka fram að einnig má færa rök fyrir því að skynsamlegt geti verið að hætta ekki verðleiðréttingum í íslenskum reikningsskilum en því máli verða ekki gerð skil hér.``

Þetta eru merkileg ummæli og vel hugsuð. Við verðum að hafa í huga í fyrsta lagi að munur er á skattalögum og lögum um reikningsskil fyrirtækja. Samræming er náttúrlega á velflestum sviðum, en ekki á öðrum þannig að ef menn vilja hætta við verðbólgureikningsskil eins og við þekkjum þau, ætti vitaskuld að gera það á báðum vígstöðvunum, þ.e. í skattalögum og í lögum um reikningsskil.

Ég hef áður vakið athygli á þessu máli og mér finnst vera tímabært fyrir Íslendinga að færa sig út úr verðbólgureikningsskilunum sem eru barn síns tíma þó reyndar megi færa bæði praktísk og fræðileg rök fyrir hinu gagnstæða. En allur samanburður við útlönd sýnir að verðbólgureikningsskil þekkjast í mjög litlum mæli og nú þegar verðbólga hefur um nokkur ár verið hér jafnvel flest árin minni en í nágrannalöndunum, er ástæðulaust fyrir okkur annað en samræma löggjöf á þessu sviði því sem gerist í nágrannalöndunum. Það er full ástæða til að taka þetta til nánari skoðunar.

Ég varpaði því fram, herra forseti, á síðasta þingi þegar var verið að ræða frv. um fjárreiður ríkisins hvort ekki væri athugandi fyrir ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi á þessu sviði og hætta verðbólgureikningsskilum. Uppgjör ríkisins eru með nokkuð öðrum hætti og þarna væri ákveðið tilefni og tiltölulega auðvelt mál að ganga fram fyrir skjöldu og hætta verðbólgureikningsskilum á þeim vettvangi. Í kjölfarið mundi síðan almenni markaðurinn fylgja á eftir því að vitaskuld þarf mikla athugun og skoðun við útfærslu á þessari breytingu. Þetta sjónarmið náði ekki fram að ganga í vor en frv. kemur til skoðunar aftur. Hins vegar eru menn opnari mjög fyrir umræðu um þennan þátt en var fyrir nokkrum árum.

Ég geri þetta að sérstöku umtalsefni við 2. umr. þessa máls af því að ég tel að ástæða sé að skoða þessi mál í fullri alvöru. Ríkisstjórnin eða meiri hluti efh.- og viðskn. kaus í þetta sinn að hlusta ekki á nein yfirveguð rök eða mótrök í þessu máli heldur einfaldlega breiða yfir sitt klúður með einfaldri breytingu og taka byggingarvísitölu út úr hluta skattalaganna. En það má benda á að byggingarvísitala er víða notuð og mun hafa veruleg áhrif á þessu ári eins og t.d. við leigu á atvinnuhúsnæði. Það er mjög algengt að miðað sé við breytingar á byggingarvísitölu og víst er að margir leigjendur atvinnuhúsnæðis eiga eftir að verða hæstv. ríkisstjórn lítið þakklátir þegar þeir fá reikning fyrir hækkun leigu. Jafnframt má benda á að mjög algengt er að verksamningar eru tengdir byggingarvísitölu og mun það sama verða uppi á teningnum því að það er alveg ljóst að með þessari klaufalegu breytingu í vor um endurgreiðslu söluskatts, var byggingarvísitalan gerð enn galnari en hún var fyrir og hækkaði langt umfram verðlagsþróun.

[15:15]

Eitt meginatriði í uppleggi ríkisstjórnarinnar við öll þessi frumvörp kemur vel fram í tengslum við frv. sem við erum að ræða hér, þ.e. að hvers ósk þessi frumvörp eru lögð fram. Það kemur skýrt fram í greinargerðinni og sagt beinlínis að fulltrúar atvinnurekenda hafi um nokkurt skeið óskað eftir þessari og þessari breytingu. Við gerðum þetta að sérstöku umtalsefni við 1. umr. málsins vegna þess að okkur í minni hlutanum fannst þessi blygðunarlausa tilvísun til hagsmuna atvinnurekenda við gerð og framlagningu frumvarpa hér á hinu háa Alþingi skjóta skökku við. Það er nefnilega svo, herra forseti, að stéttarfélögin í landinu hafa líka samþykkt skattastefnu. Það er ekki bara Vinnuveitendasambandið sem hefur útfært skattastefnu heldur líka launþegasamtökin, en það er hvergi í neinni grein í þessu frv., né öðrum í tengslum við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, komið inn á eitthvað af skattamálum launþegahreyfingarinnar, hvergi nokkurs staðar. En mjög víða má lesa út úr stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum frumvörpum stefnu Vinnuveitendasambandsins og ef menn gera sér það nú til dundurs að lesa skattastefnu Vinnuveitendasambandsins sem öllum þingmönnum var send ekki alls fyrir löngu, skýrt plagg og margar góðar ábendingar, þá kemur í ljós að mikill hluti þeirrar stefnu endurspeglast í frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Hér er um að ræða einfalda breytingu með 2. gr. frv. Það tókst að leggja á einstaklinga skattahækkanir í vor við fjármögnun á vörugjaldi. Síðan kom í ljós að það leiddi óvart til skattahækkana á fyrirtæki sem ég hef verið að lýsa með áhrifum byggingarvísitölunnar. Þá voru höfð snar handtök við að kippa byggingarvísitölunni út úr reikningsskilum fyrirtækja þannig að þau þurftu ekki að blæða fyrir þessi mistök sem höfðu átt sér stað af hálfu stjórnvalda. Það var ekki verið að bíða neitt með framkvæmd þessa máls. Ríkisstjórnin veit ósköp vel hvaða hagsmuni hún er að verja hverju sinni.

Ein af breytingartillögum meiri hlutans, sem hv. formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson, gerði ágætlega grein fyrir áðan, er varðandi afnám á afslætti við hlutafjárkaup. Við í minni hlutanum viljum benda á að í umræðu um málið kom strax fram það sjónarmið hvort ekki væri rétt að þrepa þetta niður. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Minni hlutinn tók undir að það yrði að skoða svona niðurþrepun og eru e.t.v. þrjár ástæður fyrir því.

Vitaskuld er afnám þessa afsláttar í okkar huga skattahækkun á einstaklinga.

Í öðru lagi komu fram ábendingar sem verður að taka mark á, að hugsanlega varðar þetta bann við afturvirkni á skattalögum þannig að óþarfi er fyrir ríkisvaldið að kalla á málssókn á hendur sér út frá ekki stærri lið í skattalögum en hér er verið að ræða.

Í þriðja lagi má vitaskuld færa rök fyrir því að e.t.v. eru svona breytingar betur gerðar í áföngum heldur en í einum spretti vegna áhrifa á hlutabréfamarkað. Hins vegar eru full rök fyrir því að fella þennan afslátt niður. Við styðjum það, en líka að hann sé felldur niður í áföngum, þannig að sú útfærsla sem hér er lögð til er okkur að skapi, enda að hluta til komin vegna ábendingar af hálfu minni hlutans auk fjölmargra umsagnaraðila.

Hins vegar er ástæða til að draga fram varðandi þennan lið, að röksemdin fyrir því að fella niður hlutafjárafsláttinn var ekki nein sérstök manngæska af hálfu ríkisstjórnarinnar eða stór stefnubreyting, heldur fyrst og fremst leið til að afla tekna til að lækka jaðarskatta. Ekki ætlum við að hafa á móti því að haft sé borð fyrir báru varðandi jaðarskatta. Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar minni hlutans í nefndinni og við önnur tækifæri, hefur ekkert verið upplýst af hálfu meiri hlutans hver stefna hennar er varðandi jaðarskatta. Það hefur hins vegar komið í ljós að nefnd er starfandi á vegum stjórnarflokkanna með aðild fulltrúa á vinnumarkaði sem er að vinna að breytingum á jarðarsköttum. Við fáum ekki að vera þátttakendur í þessu, stjórnarandstaðan. Látum það vera. Ríkisstjórnin verður að gera það upp við sig hvernig hún vill vinna sína stefnu. En við hefðum gjarnan viljað vita hvað er í farvatninu. Þessar breytingar þarf væntanlega að gera strax eftir áramót. Það var sagt að ekkert væri hægt að upplýsa. Hvort það þýðir að engar tillögur séu til eða menn vilja ekki sýna spilin veit ég ekki um, en okkur í minni hlutanum finnst forgangsröðun ríkisstjórnarinnar koma mjög skýrt fram. Það hefur ekki staðið á henni að útfæra lög og lagabreytingar sem ívilna fyrirtækjum þessa lands. En þegar kemur að einstaklingunum er farvegurinn allur lengri og erfiðari og ekkert uppi á borðinu hvernig eigi að útfæra hlutina, á sama tíma og fyrirtækjaumhverfið, sem er alls góðs maklegt, þarf ekki að bíða lengi eftir úrbótum af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Minni hlutinn leggur sérstaka áherslu á að jaðarsköttum hér á landi verði breytt og ég vil benda á að minni hlutinn hefur þegar lagt fram frv. um þetta efni. Þar er ég að vísa til frv. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram og bíður umræðu á hinu háa Alþingi. Einnig má benda á að verið er að vinna í þingflokki jafnaðarmanna þar sem ég þekki til, að útfærslu á frv. sem tekur á jaðarsköttum og sköttum einstaklinga. Þannig er það meira forgangsverkefni í okkar huga en fyrirtækjaumhverfið, að fara skipulega yfir skattamál einstaklinga.

Eitt meginatriðið í frv. sem meiri hlutinn breytti ekki, var rýmkun heimilda til að færa tap á milli ára. Gildandi lög gera ráð fyrir að það sé heimilt að færa tap milli ára í allt að fimm ár. Breytingartillögu ríkisstjórnarinnar, sem kom fram í frv., og var ekki breytt af hálfu meiri hlutans í nefndarstarfinu þrátt fyrir mikla umræðu, er sú að lengja þennan tapsfrádrátt í átta ár, eða möguleika á að draga tap frá í átta ár. Þetta er mjög mikilvæg breyting því að þessi ákvæði hefðu bitið harkalega einmitt um næstu áramót. Þannig var mjög mikilvægt að það yrði lagt gott mat á þetta af hálfu ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar og þá nefndarinnar, til að hægt væri að átta sig vel á hvaða áhrif þetta hefði á tekjur ríkisins. Það var enginn útreikningur sem fylgdi þessu frv., herra forseti, og hæstv. fjmrh. var margspurður í 1. umr. um þennan lið og kunni fá svör. Það var ekki fyrr en að kröfu minni hluta efh.- og viðskn. að embættismenn fjmrn. skiluðu inn til nefndarinnar skýrslu eða mati á áhrifum ýmissa þeirra breytinga sem hér er verið að gera á lögum um tekjuskatt. Það var fyrst þá, þegar minni hluti nefndarinnar knúði á um svör um áhrif þessa á tekjur ríkisins, að orðið var við þeim sjálfsögðu óskum að menn glöggvuðu sig á áhrifum þessa á tekjur ríkisins.

Það kom nefnilega í ljós, þegar tölurnar sem við báðum um lágu fyrir, að ónotað tap í íslensku fyrirtækjaumhverfi eða fyrirtækjaflóru er 80 milljarðar. Og 80 milljarðar er engin smátala. Fjárlögin okkar eru 125 milljarðar, landsframleiðsla eitthvað rúmir 450 milljarðar, en það er ónotað tap í íslensku fyrirtækjaumhverfi upp á 80 milljarða. Öll meðhöndlun á þessu mikla tapi er vitaskuld stórmál. Tölurnar eru það stórar að það þarf að velta fyrir sér nákvæmlega hvaða áhrif breytingar á þessum lið hafa.

Það kom í ljós eftir þeim gögnum sem minni hlutinn gat knúið fram varðandi þennan þátt, að ef ekki hefði verið gerð nein lagabreyting, hefðu klippst af þessum 80 milljörðum um það bil 30 milljarðar. Það klippist aftan af þessu árlega. Nú kemur hins vegar tillaga stjórnarinnar, sem er ekki breytt í meðförum nefndarinnar, um að lengja þann tíma sem menn mega flytja tap úr fimm árum í átta ár, sem sagt bæta við þremur árum sem menn geta dregið tapið lengur með sér. Mat fjmrn. var að þegar þetta verður að lögum mundu 22--24 milljarðar falla niður um áramót í stað 30. Þessi lagabreyting þýðir að íslensk fyrirtæki geta flutt með sér 6--8 milljörðum meira í tapi um næstu áramót, heldur en núgildandi lög gera ráð fyrir. Ef þessar taptölur væru allar raunverulegar og þetta þýddi lækkun skatta íslenskra fyrirtækja, kannski ekki á næsta ári heldur á þar næsta ári, þetta færist á milli, þá væri hér verið að tala um skattalækkun fyrirtækja upp á 2--2,5 milljarða, ef maður tæki einfaldlega skattprósentuna af þessari tölu. Fjmrn. mat þetta ekki svona. Fjmrn. mat að hér gæti verið um að ræða skattalækkun hjá fyrirtækjum upp á 300--500 millj. kr. Ég skildi það svo að það væru skammtímaáhrif af þessu. Það er mjög erfitt að leggja mat á þetta og ég ætla ekki hér, herra forseti, í þessum ræðustól, að halda því fram að þetta sé skattalækkun fyrirtækja upp á 2--2,5 milljarða. Ég get ekki fullyrt það. Ég get hins vegar sagt að álit fjmrn. upp á 300--500 millj. finnst mér vera mjög varlegt. Við erum því að tala um umtalsverða skattalækkun hjá fyrirtækjum á næsta og næstu árum miðað við núgildandi lög. Vitaskuld er hægt að færa rök fyrir því. Það voru erfið ár. Menn þurfa lengri tíma til að ná sér upp úr niðursveiflunni og við eigum ekki að íþyngja fyrirtækjum um of sem eru að rétta úr kútnum. Menn tilgreina sjávarútvegsfyrirtæki sérstaklega sem gengu inn í erfiðan tíma fyrir nokkrum árum. Allt má það vera rétt í þessari umræðu og ég ætla ekki að útiloka að skynsamlegt geti verið að lengja svigrúm á tapi í fyrirtækjum. Við höfum fjölmörg dæmi um það, það er gert víða. Það eru fimm ár hér. Það eru fimm ár í Frakklandi og í Danmörku alveg eins og hjá okkur. Þetta eru 10 ár í Noregi, þetta er ótakmarkað hjá sumum þjóðum, Bretlandi, Þýskalandi og Svíþjóð. Þannig eru mismunandi skattareglur um yfirfærslu í einstökum löndum. Það hefur að vísu enginn fundið upp átta árin sem íslenska ríkisstjórnin vill lögfesta þannig að ég veit ekki hvernig sú tala var fundin því að það hafa engin ríki sem mér er kunnugt um dottið niður á þá tölu.

Burt séð frá því hefði minni hlutinn verið reiðubúinn að skoða breytingar á tekjuskattsumhverfi íslenskra fyrirtækja, því að vitaskuld er það alvarleg staðreynd að íslensk fyrirtæki greiða ekki mikinn tekjuskatt til samfélagsins. Það eru um það bil 4,8 milljarðar sem gert er ráð fyrir á næsta ári og það er ekki mjög mikið miðað við 125 milljarða kr. veltu ríkissjóðs. Þetta segir okkur að annaðhvort er afkoma íslenskra fyrirtækja svona slök, því að þetta er tiltölulega lítið miðað við það sem gengur og gerist sem skattlagning til hins opinbera ef maður miðar við nágrannalöndin, eða að skattareglur hér eru svona hagkvæmar fyrirtækjum miðað við það sem gengur og gerist erlendis.

[15:30]

Nú er því til að svara að skattareglur hér landi eru nokkuð hagkvæmar miðað við fyrirtækjaumhverfi erlendis. Meginvandinn er e.t.v. lítil arðsemi íslenskra fyrirtækja sem er vitaskuld áhyggjuefni en það á aldrei að hugsa út frá fyrirtækjaumhverfinu þannig að þar sé alltaf hægt að bæta við skattlagningu. Ég lít ekki á það sem hlutverk löggjafarvaldsins að elta aðila uppi á þeim vettvangi heldur miklu frekar að reyna að búa til sanngjarna og eðlilega umgjörð um tekjustofna hins opinbera. En á það var ekki fallist vegna þess að þetta mál var einfaldlega tekið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga af hálfu meiri hluta nefndarinnar þannig að ekki var hægt að útfæra nánari skoðun á þessum þætti. Það verður að bíða seinni tíma. Það sem okkur finnst vera umhugsunarefni er að breytingar skuli vera gerðar með svona skömmum fyrirvara. Að fara úr fimm árum í átta ár nokkrum mánuðum fyrir raunverulega gildistöku. Þetta eru mjög stórar tölur sem eru að falla niður í tapi fyrirtækja og hafa fjölmörg fyrirtæki hér á landi verið að gera ýmsar vafasamar ráðstafanir, skattalegar ráðstafanir, á þessu ári einmitt til að reyna að firra sig því að missa niður tap og framkvæma því aðgerðir sem lækka tekjuskatt þeirra fyrirtækja. Það er vitaskuld óþægilegt þegar við höfum á tilfinningunni, og þetta þekkja allir sem hafa komið að viðskiptalífinu, að verið sé að reyna að nýta allar þær smugur, og fyrirtæki eru jafnvel á gráu svæði á því sviði til að reyna að komast hjá tekjuskattsgreiðslu.

Það má minna á einn þátt, og er gert í nál. minni hlutans, sem hefur oft vakið deilur hér á landi. Það eru viðskipti með töp á milli fyrirtækja. Nokkuð rúmar heimildir voru fyrir slíkum viðskiptum á árum áður þar sem verslað var milli óskyldra aðila í óskyldum atvinnurekstri með töp sem miðuðu öll að því að lækka tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja. Vitaskuld er eitt aðalmálið að við viljum að íslensk fyrirtæki hafi góðar tekjur en við viljum líka að greitt sé sanngjarnt af þeim til samfélagsins eins og gert er víðast annars staðar.

Annað atriði, það síðasta af meginatriðunum í frv., sem ég vil gera að umtalsefni, er að í 5. gr. frv. eru afskriftir rýmkaðar nokkuð og ekki er gerð breyting á því í brtt. meiri hlutans. Minni hlutinn er í sjálfu sér ekki á móti því að sveigjanleiki í uppgjörum sé aukinn. Hins vegar bendum við á og gerðum það í nefndarstarfinu við meiri hlutann og ýmsa umsagnaraðila og gerum grein fyrir í nál. ákveðnum áhyggjum af því að hægt er að senda mjög misvísandi upplýsingar frá einstökum fyrirtækjum samkvæmt gildandi lögum. Öll sveigja í uppgjörum fyrirtækja, t.d. á sviði afskriftareglna, getur leitt til þess að menn geri upp á mismunandi hátt, afskrifi annaðhvort hratt eða hægt og þá getur komið allt önnur niðurstaða út úr rekstri fyrirtækisins. Hagnaður getur með því verið hækkaður eða lækkaður í hinu bókhaldslega uppgjöri fyrirtækisins sem það síðan kynnir t.d. á verðbréfamarkaði. Fyrirtæki á Íslandi eru mörg skráð bæði á verðbréfamarkaði og á opna tilboðsmarkaðnum, þ.e. hér hefur orðið virkur hlutabréfamarkaður hin síðari ár og er það vel. Hins vegar er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að hægt er að senda misvísandi skilaboð inn á slíkan markað. Hagnaðartölur ráðast af því hve mikið menn nýta þennan sveigjanleika þannig að samanburður milli fyrirtækja verður mjög erfiður. Einstaklingar sem kaupa hlutabréf á þessum markaði eru í langfæstum tilfellum færir um og/eða hafa aðstöðu til að greina raunverulega þær stærðir sem þarna eru á bak við. Allur samanburður milli fyrirtækja getur því orðið mjög erfiður. Það getur hins vegar aftur leitt til þess að sum fyrirtæki eiga hægara með t.d. að sækja sér nýtt hlutafé, gengi þeirra getur hækkað eða lækkað eftir því hvaða útfærslu þau kjósa á sínum uppgjörsaðferðum.

Það kom fram þegar við ræddum þetta við umsagnaraðila að Verðbréfaþing Íslands er einmitt að hugleiða hvernig hægt sé að tryggja samræmdar upplýsingar handa viðskiptaaðilum á íslenskum hlutabréfamarkaði. Ég fagna því að menn virðast vera í baklandi viðskipta með hlutabréf farnir að hugsa um þennan þátt sem minni hluti efh.- og viðskn. leggur mikla áherslu á, þ.e. að upplýsingagjöf á svona viðkvæmum markaði, eins og hlutabréfamarkaður er, sé eins gegnsæ og hægt er. Það má minnast þess að síðustu daga hafa menn einmitt verið að ræða innherjaviðskipti og tengsl á hlutabréfamarkaði og þó að það snerti ekkert þetta frv., þá sýnir það samt að þessi mál eru mjög viðkvæm í okkar litla þjóðfélagi. Við hefðum því kosið að þetta mál hefði ekki verið afgreitt nema menn hefðu sett skýrari reglur um þennan þátt og sett hann í betri farveg. En eðli málsins samkvæmt er málið er liður í fjárlagastefnu ríkisstjórnarinnar og ekki var hægt að verða við því að þessi þáttur málsins yrði unninn betur.

Ég tek brtt. saman með því að gera grein fyrir meginafstöðu okkar í frv. til að flýta fyrir í umræðunni. Í frv. er gert ráð fyrir að réttarstöðu fólks í staðfestri samvist sé fylgt eftir með löggjöf sem við stóðum að í vor og er það vel. Það hefur verið gerð smávægileg brtt. hjá meiri hlutanum um þann þátt þ.e. að styrkja hana enn frekar og minni hlutinn styður þá hugmynd sem þar er lögð til grundvallar. Einnig er tilgangur 3. brtt. meiri hlutans að skýra nánar að ríkisskattstjóri getur heimilað lögaðilum að skila skýrslu í tölvutæku formi. Þetta er tæknileg breyting sem horfir til bóta og minni hlutinn gerir ekki athugasemd við.

Ástæða er til að vekja athygli á því að í brtt. meiri hlutans var kippt til baka hugmyndum um að breyta málsferli varðandi skattamál, þ.e. gagnvart skattanefnd, endurálagningu, kærufrestum og öðru slíku. Hugmyndir voru uppi um að breyta þeim þáttum og rökstuðningurinn var upphaflega í frv. sá að þetta mundi horfa til bóta. Ekki var annað að sjá á þeirri umræðu sem átti sér stað í nefndinni, sérstaklega við fjármálaráðuneytismenn sem þurfa að vinna með þessu, en að snert væri á máli sem hægt væri að útfæra í því formi sem lagt var til í frv. Það komu hins vegar athugasemdir frá ýmsum aðilum, fyrst og fremst tengdum vinnuveitendahlið vinnumarkaðarins og svar meiri hlutans var að kippa þessum þáttum til baka og endurmeta þá síðar í öðru formi. Það er hins vegar alltaf vandmeðfarið hvernig þessari málsmeðferð, frestum og öðru slíku, er hagað en í fljótu bragði fannst mér það upplegg sem var upphaflega í frv. tryggja vissa sanngirni í þeim málum en ríkisstjórnin kaus að falla frá því.

Eitt er hins vegar athyglisvert sem kom fram í frv. og er fyrirhugað af hálfu ríkisstjórnarinnar, þó að það sé ekki í frv., þá er talað um fella eigi niður skatta af arðgreiðslum. Nú er þetta nokkuð stórt mál vegna þess að arðgreiðslur voru fyrir ári síðan skattlagðar með 42%. Síðan kom hinn frægi fjármagnstekjuskattur og þá var þessi skattur á arð færður niður í 10%. Nú á að gera betur og fara með þennan skatt ofan í núll. Það er boðað í þessu frv. Að vísu á þá líka að hætta að hafa tekjuskattinn frádráttarbæran hjá fyrirtækjum sem þekkist reyndar hvergi að menn geti dregið frá útborgaðan arð hjá fyrirtækjum og þannig myndað yfirfæranlegt tap. Menn sjá því vel á þessu stefnumiði ríkisstjórnarflokkanna, sem kom fram í frv. og var rætt aðeins í nefndinni hverra hagsmuni þessi meiri hluti er að verja.

Okkur finnst athyglisvert og við leggjum upp með það að gera grein fyrir að í okkar þjóðfélagi er verið að takast á um skattastefnu Vinnuveitendasambandsins, sem ríkisstjórnin fylgir vel eftir og að ekki er tekið tillit til skattahugmynda sem t.d. launþegasamtökin eða hinn pólitíski minni hluti hefur uppi. Okkur finnst samt athyglisvert að velta því fyrir okkur að Vinnuveitendasambandið, --- ég hef svo sem ekkert á móti Vinnuveitendasambandinu, ég þekki það alveg ágætlega og skattastefnu þess, eins og ég nefndi áðan og hefur verið sett mjög skýrt fram, --- að sá félagsskapur sem fer með allt vald atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði einkennist fyrst og fremst af hagsmunum stórfyrirtækjanna sem margir hverjir eru á fákeppnismarkaði. Okkur finnst það umhugsunarefni að í þessum skattabreytingum, er ekkert, --- ekki í neinu af þessum frumvörpum --- tekið á sérstökum hagsmunamálum smærri fyrirtækja. Það er hvergi gert ráð fyrir einhverri ívilnun til nýsköpunar og þróunar, eflingar rannsókna, stuðning við smærri fyrirtækja sem gæti bætt umhverfi þeirra. Við höfum í stjórnarandstöðunni oft flutt mál og gert að umtalsefni einmitt þá sóknarmöguleika sem eru fólgnir í smærri fyrirtækjum. Ég vil nefna það til upplýsingar að mesta sókn er í smærri fyrirtækjum í Bandaríkjunum sem stýrð eru af konum. Það er mjög merkileg þróun sem hefur verið að eiga sér stað einmitt á því sviði. Hvar erum við að búa til umgjörð og örva þennan kraft sem vitaskuld býr líka í íslensku þjóðfélagi? (Gripið fram í.) Við erum hvergi að gera það í skattalögunum, eins og fjölmargar aðrar þjóðir hafa verið að gera. Ef eitthvað er þá erum við frekar að fara í öfuga átt með þeim breytingum sem var verið að gera á öðru frv. sem við höfum rætt bæði í efh.- og viðskn. og á hinu háa Alþingi. Allt yfirbragð þessarar skattastefnu, þó maður geti sagt að það taki mið af fyrirtækjunum, þá tekur það ekki mið af smærri fyrirtækjum, ekki af litlu fyrirtækjunum og ekki af sóknarfyrirtækjunum sem eiga eftir að skapa hagvöxt og eru alls staðar í kringum okkur að standa undir hagvexti í nágrannalöndunum. Nei, það er fákeppnin, það eru stóru aðilarnir, það eru fákeppnisaðilarnir, það eru aðilarnir sem stjórna VSÍ, hagsmunir þeirra hvort sem það er í skattalögunum, hlutafjárútfærslunni, fjármagnstekjuskattinum sem ráða. Það eru alls staðar þessir hagsmunir sem ganga eins og rauður þráður í gegnum stefnu þessarar ríkisstjórnar. (SJS: Hvar er ríkisstjórnin?) Ríkisstjórnin, herra forseti, er náttúrlega horfin og við í stjórnarandstöðunni orðnir alveg uppgefnir að vera að kalla eftir því að ráðherrar séu viðstaddir alvarlega umræðu. Þeir eru að sýna þinginu lítilsvirðingu með þessum vinnubrögðum en við ráðum því ekki. Þeir kjósa að haga sinni framkomu á þann hátt og ef forseti gerir ekki athugasemd við það mál þá er ég eiginlega búinn að gefast upp á því að kalla til ráðherra í alvarlegri umræðu.

[15:45]

Ég tel hins vegar ástæðu til að draga örstutt fram það sem í nefndaráliti okkar minni hlutans er reyndar gerð betri grein fyrir og það er að bera saman þetta sem við erum að fjalla um, þ.e. fyrirtækjaumhverfið og það sem viðkemur einstaklingum í landinu. Nú liggur fyrir skýrsla Þjóðhagsstofnunar um tekju- og eignadreifingu þar sem ýmsir athyglisverðir þættir koma fram og við höfum áður bent á hér í umræðum. Það kemur nefnilega skýrt fram að hin síðari ár hefur tekjumunur verið að aukast, tekjumunur í þjóðfélaginu er að verða meiri, skuldirnar eru að aukast og fátækir hafa orðið fátækari. Það er margt sem bendir til þess að þeir sem betur voru staddir fyrir tíu árum séu enn betur staddir. Tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins eru minni en áður. Að vísu er launamunur hér á landi mjög lítill miðað við nágrannalönd og það þekkjast varla dæmi um lönd, ég þekki þau ekki, þar sem er minni launamunur heldur en hér. En það er alveg sama. Það sem má lesa út úr þessari skýrslu sýnir ákveðna þróun í okkar samfélagi og vitaskuld er ástæða að velta því upp við umræðu um þennan þátt hvort hér sé um æskilega þróun að ræða eða ekki.

Aðalatriðið í nefndaráliti meiri hlutans varðar 2. brtt. Þar er dálítið sérstakt á ferðinni vegna þess að þar er lagt til að sambærileg ákvæði gildi ef hlutafélagi er skipt og því slitið. Nú botnar kannski enginn af hv. þm. í því hvað ég er að fara. Þetta er ákveðið hátæknilegt atriði í sambandi við hlutafélög, þ.e. hvernig með ákvæði um slit þeirra skuli fara og tengingu við önnur lög. Það er í sjálfu sér hægt að finna rökstuðning fyrir því að hér hafi hlutir verið að breytast, m.a. í tengslum við EES-samninginn og þessu öllu þurfi að finna útfærslu í skattalögum. Ekki erum við á móti því í minni hlutanum. En kom þetta upp núna? Hvernig bar þetta að? Þetta er nefnilega alveg nýtt ákvæði í skattalögunum. Þetta bar ekki þannig að að nefndin hafi rætt þessi mál og komist að því að það vantar ákvæði um þennan þátt. Ráðherra kom ekki með nein skilaboð við 1. umr. um að hér væri sérstakt efni sem þurfi að taka afstöðu til. Færustu embættismenn fjmrn. sem sátu með okkur á öllum fundunum sögðu aldrei: ,,Hér er hlutur sem við hefðum gjarnan viljað hafa í þessu frv. en ekki vannst tími til. Er ekki hægt að fella þennan þátt inn í?`` Við erum ekki að tala um einhverja breytingu á þáttum sem eru í þessu frv. sem við erum að ræða, heldur erum við raunverulega að ræða nýja útfærslu í skattalögum á þessu sviði.

Nei, þetta bar ekki þannig að. Enginn kom með þetta. Við sendum hins vegar alltaf út okkar frumvörp til umsagnar. Í einni umsögn kom fram ábending um að æskilegt væri að finna þessum efnisatriðum form í löggjöf um tekju- og eignarskatt og gerð tillaga að lagabreytingu. Þetta var í umsögn frá Verslunarráðinu. Nú ætla ég ekkert að mótmæla því að lagabreytingin, tillagan og hugmyndin sé eitthvað verri af því að hún kemur frá Verslunarráðinu, síður en svo. Verslunarráðið má eiga það, þrátt fyrir tengsl hv. formanns efh.- og viðskn. við þá stofnun, að álitsgerðir og umsagnir sem koma frá Verslunarráði --- sem hann vitaskuld hefur engin áhrif á, þær gera starfsmenn sem vinna þar --- eru yfirleitt mjög vandaðar og góðar. Maður þarf ekkert að vera sammála þeim, ekkert frekar en menn vilja en þetta eru vel unnin verk. Þessi tillaga og hugmynd og annað slíkt voru allt í lagi og ekkert er út á vinnubrögðin að setja. En ég er að setja út á að við skulum á hinu háa Alþingi samþykkja að taka nýjan efnisþátt inn í lög eða við 2. umr. sem hefur ekki verið ræddur á neinu stigi málsins, hvorki innan stjórnmálaflokkanna né þingflokkanna, í ríkisstjórn eða annars staðar, grípa upp þessa ábendingu, sem þarf ekkert að vera slæm, ég er ekkert að leggja mat á efnisþættina, í stað þess að taka þennan efnisþátt út úr, flytja um hann sérstakt frv. sem fengi sína eðlilegu meðferð í þinginu. Það var ekkert svo brýnt í sambandi við þetta mál að ekki mætti gefa því þá málsmeðferð. Hv. formaður efh.- og viðskn. lofaði reyndar þegar ég kvartaði yfir þessum vinnubrögðum að þetta yrði skoðað og reynt yrði að kalla einhverja aðila til milli 2. og 3. umr. Menn ná oft í samkomulagi í þinginu og ekki ætla ég að gera lítið úr vilja formanns nefndarinnar til að gefa þessu þann gaum sem þarf að vera fyrir hendi.

Ég vil hins vegar gagnrýna í þessu að við skulum hér á hinu háa Alþingi viðhafa slík vinnubrögð þegar hægt hefði verið að taka þetta mál út úr. Ef það var brýnt, þá hefðum við í stjórnarandstöðunni liðkað fyrir um framgang þess máls. Við höfum gert það á fjölmörgum sviðum alveg eins og formaður og meiri hluti hv. efh.- og viðskn. veit ósköp vel. Mér finnast ekki góð vinnubrögð að um leið og einhverjar óskir koma frá tilteknum aðilum í þjóðfélaginu, þá sé þeim umsvifalaust rennt í gegn í lagaformi í stað þess að þær fái þá eðlilegu meðhöndlun að vera sent til umsagna sem hefði þurft að vera því að málið og allt sem viðkemur skattamálum er mjög flókið. Það eru engin einföld atriði í skattalögum þannig að ég hefði kosið að þessu hefði verið gefinn meiri gaumur heldur en raun ber vitni.

Herra forseti. Ég nefndi áður að að álitinu standa auk mín Steingrímur J. Sigfússon og Ásta B. Þorsteinsdóttir auk þess sem Kristín Ástgeirsdóttir sem sat fundi nefndarinnar er samþykk þessu áliti. Við lítum svo á að þetta frv. og mörg önnur, þetta frv. og breytingartillögur, lýsi efnahags- og skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Við erum ósammála þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur komið fram. Við höfum kosið að gera ítarlega grein fyrir tilteknum meginþáttum í þessu máli.

(Forseti (RA): Ég vil vekja athygli hv. ræðumanns á því að við þurfum að fresta þessum fundi ekki seinna en eftir eina mínútu þannig að æskilegt væri að annaðhvort fyndi hann góðan stað til þess að gera hlé á ræðu sinni fljótlega ellegar hann lyki máli sínu. En við frestum fundinum eftir eina mínútu.)

Herra forseti. Ég hef sennilega fundið þetta á mér. Ég var einmitt að koma að lokum minnar ræðu þannig að mér dugir þessi eina mínúta.

Við erum ósammála meginatriðum í stefnu þessarar ríkisstjórnar. Við erum þeirrar skoðunar að það sé mun brýnna að skoða skattamál einstaklinga en skattamál fyrirtækja. Við hefðum kosið að unnið hefði verið að því að festa í lög ýmsa þætti sem snúa að skattamálum einstaklinga í stað þess að halda áfram á þeirri braut, sem við sáum vel í fyrra, að enn og aftur er verið að tryggja ívilnandi ákvæði fyrir fyrirtæki ríkisstjórnarflokkanna. Við erum ósammála þessari stefnu þó svo einstök atriði í málinu séu okkur að meinalausu. Örfá styðjum við, en meginþættir þessa máls er ekki í anda okkar sjónarmiða.