Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 18:56:46 (1812)

1996-12-04 18:56:46# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn á það atriði hjá hv. þm. sem varðar eftirstöðvar rekstrartapa. Þar verður meginbreyting á. Samkvæmt VII. lið bráðabirgðaákvæða sem í gildi eru í núgildandi lögum stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 4. gr. er heimilt að draga eftirstöðvar rekstrartapa, eins og þær voru 31. desember 1990, frá skattskyldum tekjum næstu fimm ára talið frá gildistöku laga þessara.``

Þetta segir þar og þetta er það sem hefur verið að valda svo miklum misskilningi og hefur sært réttlætiskennd mjög margra manna. Að rekstrartap sem var ekki raunverulegt rekstraratap og hafði myndast á verðbólguárum, þegar menn gátu meira að segja dregið neikvæða raunvexti frá skatti í fyrirtækjunum, hefur verið hægt að draga frá þessi síðustu fimm ár. Það er náttúrlega ekki raunverulegt rekstrartap. Eftir að verðbólgureikningsskilin voru tekin upp er tap fyrirtækjanna nánast alltaf raunverulegt tap, sem er borgað með hlutafé hluthafanna, og er raunverulegt tap þar sem menn hafa lagt fram fé í atvinnurekstur og tapað því. Og það er meiningin að menn megi draga það tap frá sköttum áfram. Núgildandi reglur sem ná átta ár aftur í tímann, frá 1988, þar er bara rekstrartap hvers árs og það eru búin að vera verðbólgureikningsskil allan tímann þannig að það er búið að laga þetta.

Ég vil benda hv. þm. á að hugbúnaðarfyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki, lyfjafyrirtæki og önnur slík fyrirtæki sem þurfa að stunda þróun í mörg ár --- ég nefni Fiskeldi Eyjafjarðar --- verða að geta dregið frá tap undangenginna átta ára til þess yfirleitt að geta stundað rekstur, því tekjurnar koma oft átta eða níu árum eftir að rannsóknirnar hófust og þróunin fór af stað.