Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 18:58:53 (1813)

1996-12-04 18:58:53# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að reyna að gera skýran greinarmun á annars vegar þessari fortíð og hins vegar því hvaða fyrirkomulag við teljum að eigi að vera á þessum málum gagnvart framtíðinni. Og ég geri mjög mikinn greinarmun á því hvort t.d. fyrirtæki sem stundar hreinar grunnrannsóknir og er í margra ára ferli að byggja upp þekkingu og ná tökum á framleiðslu á einhverju tilteknu afmörkuðu sviði, eins og hér var nefnt, Fiskeldi Eyjafjarðar, sem svo fer að hagnast eftir langan tíma og hluthafarnir hafa lagt inn mikið fé að það fái að nýta það tap. Enda er þar um samfellt ferli innan sömu greinar að ræða og engar æfingar af neinu tagi. Þar er ekki verið að kaupa gamalt tap frá einhverjum öðrum úr óskyldum rekstri. Það sem ég held að sé sérstaklega varhugavert, og ég er ekki sammála, er að endurvekja það að menn geti notað þetta gamla tap áfram, vegna þess að hvað sem segja má um verðbólguna á þessum tíma og erfiðleikaárin, þá voru reglurnar að mínu mati út í hött þangað til að þær voru þrengdar 1990. Þess vegna er ég ekki sammála því að það eigi að taka aftur inn undir þennan frádrátt tap sem menn gátu búið sér til með þessum hætti. Ég hefði viljað standa við það sem búið var að ákveða þ.e. að þetta dæi út eins og ætlunin var en menn tækju þá frekar á því gagnvart framtíðinni hvernig þeir vildu hafa þessar reglur og hvaða svigrúm þeir vildu hafa í þessu.