Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:36:50 (1824)

1996-12-04 19:36:50# 121. lþ. 35.3 fundur 143. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# (hlutdeildarskírteini, afföll) frv., Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:36]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Öll kerfi hafa gott af sveigjanleika. Það á við skattkerfið eins og önnur. En það er dálítið merkilegt, herra forseti, að í hvert skipti sem ríkisstjórnin vill auka einhvern sveigjanleika í skattaumhverfi, er það alltaf gert þannig að það er aukinn sveigjanleiki fyrir fyrirtæki og fyrir þá aðila sem betur mega sín í þjóðfélaginu, nákvæmlega eins og gert er í þessari útfærslu. Hér eru settar fram ákveðnar ívilnandi ráðstafanir gagnvart vinum ríkisstjórnarinnar, sérstökum vinaflokki ríkisstjórnarinnar, lögmönnum. Ég er að sjálfsögðu ekkert á móti því. Menn eiga að gæta hagsmuna vina sinna. Þá er hins vegar jafn réttur okkar að benda á þegar það er gert. Það er einmitt þetta sem er gert. Þessi ríkisstjórn hefur aldrei sett inn sveigjanleika fyrir launafólk í þessu landi, hvorki við útfærslu á fjármagnstekjuskatti né staðgreiðslu á honum eða önnur skattalög. Um það snýst þetta mál. Í hvert skipti sem réttu aðilarnir koma með ábendingar og kvartanir um eitthvað sem gæti nú farið betur og ef það eru réttu aðilarnir sem kvarta og koma með ábendingar um breytingar á skattalögum, þá er umsvifalaust orðið við þeim. En það er aldrei hugsað um þetta ef það snýr að hinum almenna launamanni.