Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:59:39 (1830)

1996-12-04 19:59:39# 121. lþ. 35.7 fundur 147. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (iðgjöld, stigaútreikningur, ávöxtun o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:59]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla að koma inn á atriði sem kemur fram í 2. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins, að lífeyrissjóðurinn taki við viðbótariðgjaldi sem greitt verði umfram iðgjald skv. 1. mgr.``

Allir lífeyrissjóðir á Íslandi starfa samkvæmt þeirri reglu að iðgjaldið er fast. Það er yfirleitt 10% eins og í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda í dag og greiðir atvinnurekandinn 6% og launþeginn 4%. Einstaka lífeyrissjóður er með hærra framlag atvinnurekanda, til að mynda Samvinnulífeyrissjóðurinn sem er með samtals 11,5% og Lífeyrissjóður flugmanna þar sem vegna mjög lágs ellilífeyrisaldurs, þ.e. 63 ára, iðgjaldið er 20 plús 2%, 22% samtals. En þeir hafa allir þá grundvallarreglu að iðgjaldið er ákveðið fast.

Hér er verið að fara inn á nýja braut með því að lífeyrissjóðum verði heimilt að taka við viðbótariðgjaldi og ekki er sagt neitt um það hvað eigi að gera við þetta viðbótariðgjald, hvort það eigi að veita réttindi eins og annað iðgjald eða hvernig með skuli fara. Mér finnst þetta vera ákveðið stílbrot á núverandi lífeyrissjóðakerfi.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda er eins konar sameiningarsjóður annarra sjóða því að hin stóru samtök lífeyrissjóðanna, Samband almennra lífeyrissjóða og Landssamband lífeyrissjóða, tilnefna menn í stjórn þessa sjóðs þannig að hann er eins konar vettvangur þessara tveggja samtaka lífeyrissjóða. Það er mikið horft til reglugerðar þessa sjóðs. Þess vegna finnst mér það ákveðin stefnubreyting sem hér á sér stað í þá veru að heimila að taka inn viðbótariðgjald og ég vil að fram fari miklu meiri umræða um slíka breytingu ef hún á að vera almenn í gegnum allt lífeyriskerfið.

Herra forseti. Í þessu sambandi vil ég minna á að nefnd á vegum fjmrn. er að störfum sem er að endurskoða einmitt þetta atriði, þ.e. lífeyriskerfið í heild. Og mér finnst mjög undarlegt að á sama tíma og þessi nefnd er að störfum, skuli vera sett inn svona ákvæði sem getur verið túlkað þannig að viðbótariðgjaldið eigi að vera eins konar séreign --- það mætti hugsa sér það --- eða að menn geti borgað viðbótariðgjald, og það er ekki einu sinni sagt hvað það má vera hátt. Má það vera 10% af launum eða 50% eða hvað? Það eru engin takmörk sett á vald ráðherra í þessu máli.

Ég vil að menn skoði svona hluti miklu betur. Við Íslendingar höfum áður hlaupið á okkur í lagasetningu um lífeyrissjóði. Ég minni þar sérstaklega á lagasetninguna 1974 um skylduaðild að lífeyrissjóði án þess að nokkuð væri tekið fram um það að þessir sömu lífeyrissjóðir gætu yfirleitt borgað það sem þeir lofuðu, og sömuleiðis lagasetninguna frá 1980 þar sem öllum þeim sem taka laun á Íslandi, sjálfstæðum atvinnurekendum líka, var gert að borga í lífeyrissjóð. Slík lagasetning er ákaflega ljót, að setja í lög að allir eigi að vera í lífeyrissjóði og ekkert gengið út frá því hvort lífeyrissjóðirnir geti staðið við þær væntingar sem eru gerðar til þeirra eða staðið við þau loforð sem þeir veita.

Hér er aftur verið að gera grundvallarbreytingu á öllu lífeyriskerfinu með einni lítilli setningu og ég get ekki annað en verið á móti henni því ég vil að þetta verði rætt mikið ítarlegar og ég mun greiða atkvæði á móti þessu ákvæði.